Mexíkóflóaferð 1: Skemmtigarðar, keðjur og bílar

Fyrir þremur árum skrifaði ég síðasta langa ferðabloggið á þessa síðu þegar að við Margrét ferðuðumst í tvo mánuði um Indland í algjörlega frábærri ferð. Hvað gerðist svo í mínu lífi? Jú, ég gifti mig og við Margrét eignuðumst tvö ótrúlega skemmtileg börn – þau Jóhann Orra (sem er 2,5 ára) og Björgu Elísu (sem er fimm mánaða gömul). Þetta neyðir fólk með ferðaáhuga til að endurskoða aðeins ferðaplönin því það er ekki alveg það sama að ferðast tvö ein með tvo bakpoka í rútu á Indlandi og að vera tveggja smábarna foreldrar í ferðahugleiðingum.

Við erum núna byrjuð á fyrsta langa ferðalaginu síðan á Indlandi og á einhvern hátt erum við að reyna að púsla saman ferðalagi, sem er þægilegt og skemmtilegt fyrir krakkana, en býður líka uppá hluti sem eru krefjandi og skemmtilegir fyrir okkur. Það snýst allt um að hitta eitthvert jafnvægi milli tveggja vikna á Kanaríeyjum og bakpokaferðalagi á Indlandi.

Niðurstaðan var fimm vikna ferðalag um Mexíkóflóa. Við byrjuðum á rúmum tveimur vikum á Flórída, förum svo til Kúbu og að lokum til Yucatan skaga í Mexíkó. Við ferðumst með tvær ferðatöskur, barnavagn og bakpokann minn.


Flórída er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heimi og þar er Orlando miðpunktur ferðamannastraumsins með hlýtt loftslag allt árið og heimsþekkta skemmtigarða, sem laða að sér ótrúlegt magn ferðamanna. Slatti af þeim virðist koma frá Íslandi því á síðustu tveimur vikum hef ég oftar heyrt íslensku úti á götu (eða inni í verslunarmiðstöð) í Orlando en ég geri vanalega í Stokkhólmi.

Ég, Margrét, Jóhann Orri og Björg Elísa höfum verið í Orlando í tvær vikur ásamt fjölskyldu Margrétar í leigðu húsi í einu úthverfi borgarinnar og átt nokkuð hefðbundið Flórída frí með sól, bílaleigubíl, skemmtigörðum verslunarmiðstöðvum og miklum mat.

Ég bjó í Bandaríkjunum í yfir þrjú ár í kringum aldamótin. Sú upplifun var ótrúlega ólík því sem maður upplifir í úthverfi á Flórída. Ég bjó í Evanston, úthverfi Chicago sem er að mörgu leyti frábær og óbandarísk borg með skemmtilegum miðbæ þar sem maður getur labbað og borðað á veitingastöðum sem tilheyra ekki risastórum keðjum. Vinir mínir í háskóla voru frekar vinstri sinnaðir og að mörgu leyti líkari Evrópubúm í hugsunarhætti en hægri sinnuðum löndum sínum.

En í úthverfum Orlando þar sem skemmtigarðarnir eru þá er stemmningin öðruvísi. Allt er byggt í kringum bílaumferð, engar gangstéttir eru til staðar né sér maður nokkurn mann á hjóli. Útum allt eru stórir verslunarkassar og fyrir framan þá keðjuveitingastaðir. Ég elska Bandaríkin en ég elska ekki svona bandarísk úthverfi og þá menningu þar sem allt byggist á því að keyra risastóran og loftkældan bíl á milli verslunarkjarna eða á keðjuveitingastaði sem eru þeir sömu og í næstu götu á eftir.

Það er nokkuð erfitt að skrifa ferðasögu eftir tveggja vikna ferð um stað sem svo margir hafa farið á, þannig að ég ætla bara að koma þessu frá mér í punktaformi.

 • Magic Kingdom í DisneyWorld er frábær staður fyrir lítil börn. Jóhann Orri er 2,5 ára gamall og hann algjörlega elskaði Magic Kingdom. Það að við vorum þarna í október gerði flestar raðir þolanlegar og FastPass hjálpaði líka til (FastPass er ókeypis kerfi til að skrá sig fyrifram í viss tæki). Fyrir rúmum 20 árum var ég með foreldrum mínum í Disneyworld þar sem við fórum bara í Epcot, sem var þá skelfilega leiðinlegt en Magic Kingdom er mun skemmtilegra. Fyrir krakka yfir 10-12 ára eru aðrir skemmtigarðar eflaust betri, en fyrir börn undir 10 ára er Magic Kingdom algjör paradís.
 • Unversal Studios og Busch Gardens bjóða uppá talsvert meira fjör (bæði 14 ára gömlum og 37 ára gömlum Einari fannst Busch Gardens skemmtilegasti garðurinn) og báðir eru frábærir fyrir börn, þá sérstaklega Busch Gardens sem býður uppá frábær leiksvæði.
 • Utan þessara skemmtigarða voru leiksvæði, sem við heimsóttum, alveg með ólíkindum léleg. Í verslunarmiðstöðvum voru leiksvæði styrkt af stórfyrirtækjum en voru samt svo léleg að Stokkhólmsbúinn Jóhann Orri (sem er vissulega ótrúlega góðu vanur frá Stokkhólmi) gafst fljótt upp og horfði hálf hissa á eldri krakka leika sér í tækjum sem hann hætti að leika sér í fyrir rúmu ári.
 • Í svona stórum hóp þar sem allir vilja prófa staði sem fólk hefur lesið um eða séð í bíómyndum þá endar maður oftast á því að borða á keðjuveitingastöðum. Skoðanir mínar á þeim flestum hafa ekki breyst mikið frá því að ég bjó í Bandaríkjunum. Af skyndibitastöðum bera Five Guys (hamborgarar) og Chipotle (burrito) enn af. Það er galið að fá sér hamborgara á McDonald’s eða Burger King þegar að Five Guys er líka í sömu borg. Við þá bættist svo Flórída staðurinn Earl of Sandwich, sem var frábær. Af stórum hefðbundnum keðjuveitingastöðum er Fogo de Chao æðislegur og ég elska enn pizzurnar á California Pizza Kitchen, en staðir einsog Friday’s, Chili’s og (verst af öllu) Cheesecake Factory eru oftast með mun betri matseðla en mat.
 • Flórída ríki ofnotar stöðvunarskildu stórkostlega! Ég held að ég hafi varla séð biðskyldumerki á öllu þessu ferðalagi.
 • Hvað myndi ég gera öðruvísi í næsta Flórída fríi með börn? Sennilega eyða meiri tíma í DisneyWorld og taka hlutunum rólegar þar – við kláruðum alltaf hvern garð á einum degi og það er gríðarlegt stress og álag fyrir litla krakka. Í staðinn hefði ég hreinlega verið til í að gista á Disney hóteli og taka garðana á nokkrum dögum. Svo myndi ég leigja hús með garði sem liggur ekki í norður (og hefur því sól í meira en klukkutíma) og helst velja bæ einsog Sarasota þar sem hægt er að labba um, öfugt við úthverfi Orlando.

Annars er ég bara nokkuð sáttur eftir þessar tvær vikur. Við eyddum þeim með frábæru fólki – bæði fjölskyldu Margrétar í lengri tíma og foreldrum mínum í stuttan tíma og það er það sem skiptir máli. Þegar ég á þó að velja mitt draumafrí þá dettur mér samt ekki beint í hug endalausar bílferðir og þunnt Starbuck’s kaffi.

Það er líka ekki auðvelt að skrifa áhugaverðar ferðasögur úr slíku fríi, þótt að það sé á marga vegu frábært. En núna sit ég á flugvellinum í Cancún, nýbúinn að borða Huevos Rancheros og guacamole og við bíðum saman eftir flugi til Havana á Kúbu. Á þeirri eyju ætlum við að eyða næstu 10 dögum í Havana og fleiri bæjum (planið hljómar uppá Havana, Cienfuegos og Trinidag en það kemur í ljós seinna). Eftir það ætlum við að koma aftur hingað til Yucatan skaga og eyða öðrum 10 dögum á Maya rívíerunni.

Skrifað í Cancun, Mexíkó kl 11:49

2 thoughts on “Mexíkóflóaferð 1: Skemmtigarðar, keðjur og bílar”

 1. Hæ, hæ
  Jóhann Orri á eftir að skemmta sér konunglega þegar hann sér alla stóru og litlu bílana í Havana, það gerði allavega frændi hans, sem hefur sömu bíladellu og kappinn þinn.

  Gangi ykkur vel og góða skemmtun.

 2. Já, Jóhann Orri algjörlega elskaði alla gömlu bílana í Havana. Borgin er algjör paradís fyrir bílaelskanda einsog hann. 🙂

Comments are closed.