Mexíkóflóaferð 3: Svínaflói, Cienfuegos og Havana Club

Seinni árin mín í framhaldsskóla, eftir að ég hafði búið eitt ár sem skiptinemi í Venezuela og svo eitt sumar í Mexíkó, elskaði ég að tala um suður-amerísk stjórnmál. Á árinu mínu í Venezuela fór ég frá því að vera ungur Sjálfstæðismaður talsvert yfir til vinstri og það ferðalag hélt áfram sumarið í Mexíkó. Ég var heillaður af Che og suður-amerískum vinstri mönnum og mér blöskraði yfir því hversu margt í Venezuela og Mexíkó var gjörsamlega galið.

Svo með aldrinum varð ég minna róttækur – það verður minna spennandi að ræða stóru línurnar í pólitík heimsins þegar maður er ekki tvítugur lengur. En á Kúbu kemst ég ekki hjá því að hugsa um stjórnmálin og allt sem þeim tengist. Castro er vondi kallinn í huga svo margra og Kúba á að vera kommúnistaríki sem hrundi á sama ári og Sovétríkin hrundu, þar sem bílarnir eru áratuga gamlir og allt í rúst. Allt er hrikalegt undir stjórn Castro á Kúbu.

En er ástandið á Kúbu svo slæmt? Fólkið virðist af öllu vera mjög hamingjusamt, það er lítið um greinilega eymd (ég labba framhjá fleiri betlurum í Stokkhólmi á hverjum degi en ég geri hér) og fólkið hefur aðgang að menntun og heilbrigðiskerfi sem eru með þeim betri í Suður-Ameríku.

Svo sannarlega virðist margt vera betra hér en í mörgum löndum Suður-Ameríku, sem ég hef heimsótt. Raúl Castro virðist líka vera á margan hátt betri en Fídel. Ofsóknum á samkynhneigðum hefur verið hætt, pólitískir fangar eru flestir lausir og það er mikið um aukið frjálsræði – sérstaklega þegar að kemur að hlutum sem eru augljósir ferðamönnum einsog verslun, veitingar og gistiþjónsuta.

Fyrir saklausan túrista, sem hefur enga sérstaka þekkingu á innviðum landsins þá lítur þetta allt bara ágætlega út. Það er ekki sami æsingur í að selja manni vöru og fólk keyrir gamla bíla og á gamla síma, en er það virkilega það sem öllu máli skiptir? Er ekki betra að fólk geti gengið um götur sæmilega óhrætt um líf sitt ólíkt ástandinu í El Salvador, Venezuela og Mexíkó.

Leigubílaröð í Cienfuegos
Leigubílaröð í Cienfuegos

Ég veit ekki. Já, það er ansi margt sem ekki er í lagi á Kúbu – landi sem hefur haft sömu bræður við völd í 55 ár, en einhvern veginn finnst mér ástandið vera betra en það var hérna fyrir 15 árum síðan. Viðskiptabann Bandaríkjanna lætur Kúbu alltaf líta illa út því við sjáum svo oft hlutina með augum Bandaríkjanna. Castro er sósíalisti og hann er vondi kallinn og því líður manni smá einsog maður verði að útskýra að þetta lítur bara ekkert svo illa út fyrir ferðamann einsog mig. Kúbverjar eru glatt og yndislegt fólk, sem virka ágætlega sáttir með ástandið.

(Ég var líka heillaður af Sýrlendingum og fannst þeir yndislegir og hamingjusamir árið 2008 á ferðalagi mínu þá, þannig að það má taka þessar túristavangaveltur með fyrirvara)


Frá höfuðborginni Havana tókum við fjölskyldan á þriðjudaginn leigubíl að Gíron ströndinni í Svínaflóa. Þangað er um tveggja tíma akstur frá Havana á stærstu hraðbraut landsins, sem er samt full af holum og örfáum bílum sem voru ekkert mikið yngri en bandarísku fornbílarnir í Havana. Gíron er nálægt þeim stað sem Svínaflóainnrásin misheppnaða var gerð árið 1961 þegar að 1400 kúbverjar í útlegð réðust á Kúbu með aðstoð CIA og samþykki Kennedy forseta. Fidel komst að innrásinni áður en hún var gerð og það hjálpaði Castro og félögum að gjörsigra innrásarliðið. Það leiðist Kúbverjum ekki að monta sig af á hinum fjölmörgu skiltum sem blasa við manni á leiðinni til Svínaflóa.

Jóhann Orri kemst á land í Svínaflóa.
Jóhann Orri kemst á land í Svínaflóa.

Við stoppuðum á ströndinni, borðuðum ótrúlega góðan fisk og leyfðum Jóhanni að baða sig í karabíska hafinu.

Frá Giron hélt leigubíllinn svo með okkur áfram til borgarinnar Cienfuegos, borg sem var stofnuð af frönskum innflytjendum. Við gistum í miðbænum, skoðuðum þar litrík hús, löbbuðum um göturnar og meðfram ströndinni og borðuðum frábæran mat. Á svona labbi er skortur á kapítalisma á Kúbu afar greinilegur. Í 30 stiga hita og glampandi sól labbandi á strandgötu við karabíska hafið var enginn að reyna að selja okkur ís eða gos. Þarna voru bara við og búðirnar voru til staðar ef við þurftum á þeim að halda, en þá þurftum við að finna þær, sem getur verið erfitt þar sem þær eru oft nánast ómerktar. Veitingastaðurinn sem við borðuðum á í gær var í heimahúsi – borðið okkar við hliðiná bílskúrnum.

Prado gatan í Cienfuegos við strönd karabíska hafsins.
Prado gatan í Cienfuegos við strönd karabíska hafsins.

Maturinn hérna er að mörgu leyti frábær. Eftir tvær vikur í Bandaríkjunum með allri þeirri matartengdu sturlun sem það land býður uppá, þá er að mörgu leyti gott (fyrir heilsuna) að komast í talsvert meiri einfaldleika hérna á Kúbu. Því það er smá einsog allur matur sé ákveðinn á fundi einhverrar nefndar í Havana. Til að mynda höfum við núna borðað morgunmat á þremur gistiheimilum en hann er samt alltaf sá sami – egg, ávaxtadjús (mangó eða guyaba), hvítar brauðbollur með smjöri og einhverju ávaxtamauki og svo skornir ferskir ávextir sem eru ananas, guayaba, bananar og papaya. Allar aðrar málíðir virðast svo fylgja eftirfarandi formúlu: Prótín (fiskur, sem er frábær, svínakjöt eða kjúklingur), hrísgrjón, svartar baunir, steikt plantain eða yuca og svo grænmetisblanda, sem er alltaf hvítkál, avokadó, grænar baunir, agúrka og tómatar. Ótrúlega hollt og gott.

Che skilti í Cienfuegos
Che skilti í Cienfuegos

Drykkirnir eru líka yndislegir. Mojito, sem ég hef aldrei fílað sérstaklega í Evrópu, er mun bragðsterkari hér og sterkt rommbragð skín í gegn, sem er yndislegt. Gott Havana Club romm er eitthvað sem ég hef lært að meta í þessari ferð.

Já, og kaffið. Kaffið er stórkostlegt. Eftir tvær vikur af þunnu Starbuck’s kaffi (þar sem að í Orlando virðast gilda þau lög að ÖLL kaffihús þurfi að vera Starbuck’s) þá er ótrúlega gott að fá rótsterkt kúbverskt kaffi.


Eftir frábæran mat í Cienfuegos tókum við svo í gærkvöldi leigubíl áfram hingað til Trinidad. Hérna verðum við næstu daga áður en við höldum aftur til Havana með stoppi í Santa Clara.

Skrifað í Trínídad, Kúbu 6.nóvember kl 21.24