Mexíkóflóaferð 5: Riviera Maya

Síðustu dagarnir á Kúbu fóru í ferðalög. Frá Trinidad tókum við leigubíl til Havana með smá stoppi í borginni Santa Clara. Þar vann Che Guevara mikinn sigur á hersveit Batista og þess vegna er Santa Clara sá staður þar sem líkamsleifar Che eru geymdar í dag.

Við skoðuðum minnismerki um Che í borginni og safn um hann ásamt því að koma inní herbergi þar sem líkamsleifar hans og annarra uppreisnarmanna, sem voru drepnir með honum í Bólivíu, eru geymdar. Við keyrðum svo áfram til Havana og tókum daginn eftir flug þaðan og til Mexíkó.


Í Mexíkó vorum við í 8 daga á Yucatan skaga. Ferðamannastaðirnir þar minna ekki mikið á Mexíkó frá því að ég bjó í Mexíkóborg fyrir 17 árum. Cancun og Puerto Aventura eru resort bæir sem líkjast Tenerife og Sharm El Sheikh meira en Mexíkó. En kosturinn við bæina í Mexíkó er að þar er boðið uppá mexíkóskan mat.

Við gistum fyrst á fínu hóteli nálagt Playa del Carmen og fórum svo til Cancun þar sem við gistum í nokkra daga til viðbótar. Miðbær Cancun er þó mexíkóskur, ólíkt Zona Hotelera hótelsvæðinu, sem gæti alveg eins verið í Bandaríkjunum. Á Zona Hotelera í Cancun var mér alltaf svarað á ensku þótt ég talaði spænsku við fólk og öll verð eru gefin upp í bandaríkjadollar líkt og að gjaldmiðill mexíkóa sé einhvern veginn ógildur í þeirra eigin landi. Allt virðist vera gert til þess að bandaríkjamönnum líðið hálf partinn einsog þeir séu ennþá heima. NFL er í sjónvarpinu, Budweiser á krananum og allt hægt að borga með dollurum.

Eina markverða sem við gerðum fyrir utan að liggja á sundlaugarbakka var að sjá Tulum rústirnar, sem liggja við ströndina rétt fyrir sunnan Playa del Carmen. Tulum bætast þá í hóp með Tikal í Guatemala, Lanaima í Belize og Chichen Itza í Mexíkó yfir Maya rústir sem ég hef séð og held ég því að þeim hring sé ágætlega lokað.


Ég var nokkuð spenntur fyrir því að smakka aftur mexíkóskan mat í Mexíkó. Í Cancun prófuðum við nokkra ólíka hluti – allt frá fine dining stöðum fullum af túristum yfir á litla sölubása í almenningsgarði fulla af innfæddum Cancun búum. Fínu staðirnir voru ekkert spes, en skemmtilegasta upplifunin var í Parque de las Palabas þar sem við gátum hoppað á milli sölubása sem seldu Tacos al pastor, gringas, alambre og allt hitt sem gerði mig ástfanginn af mexíkóskum mat fyrir 17 árum og breyttu lífi mínu.

Mér finnst maturinn ennþá frábær, en ég hef líka breyst. Bragðlaukarnir breytast með árunum – mér finnst Bud Light ekki lengur besti bjór í heimi og ég get borðað osta, sem mér fannst ógeðslegir fyrir nokkrum árum. Eins þá er ég ekki alveg jafn hrifinn af mexíkóskum götumat og ég var einu sinni. Margt er of feitt og oft finnst mér of mikil áhersla á kjöt og tortillur í matnum. Að mörgu leyti fannst mér maturinn sem við seljum á Zócalo í Svíþjóð vera betri en sá sem við borðuðum á götumarkaði í Cancun. Eflaust eru margir ósammála mér, en svona líður mér í dag.


Þessu fimm vikna ferðalagi okkar fjölskyldunnar lauk svo með flugi til Orlando og þaðan heim til Íslands. Það að ferðast svona lengi með 2,5 ára og 6 mánaða krökkum var sannarlega lífsreynsla og auðvitað gríðarlega ólíkt því þegar við Margrét vorum ein að ferðast.

Ég myndi þó segja að þetta var að mörgu leyti léttara en ég átti von á. Þau tvö eru á ólíkum stað í lífinu, vaka, sofa og borða á ólíkum timum, en það tókst merkilega vel að samræma það. Ég hef sagt við fólk, sem hefur spurt mig um hversu erfitt þetta hefur verið, að það að vera með tvö lítil börn allan sólahringinn í fimm vikur er erfitt, punktur. Þá skiptir ekki svo miklu máli hvort við hefðum eytt þessum fimm vikum á ferðalagi um Svíþjóð eða Kúbu. Það er erfitt að halda 2,5 ára strák við efnið þegar að eina dótið sem hann er með eru 10 litlir bílar þegar hann er auðvitað vanur miklu meiru.

Maturinn var ekkert vesen fyrir Jóhann Orra, enda er maturinn í allri Ameríku nokkuð einfaldur og góður. Mikið um hrísgrjón, grænmeti og kjúkling sem honum finnst gott.

Það sem þessar fimm vikur gáfu okkur voru líka að fá að vera með þessu börnum svona mikið án truflana frá leikskóla, vinnu eða öðrum skyldum. Ég hef kynnst Björgu svo miklu betur – ég get svæft hana á mettíma núna og fengið hana til að hlæja hvenær sem er. Maður hefur ekki endalausan tíma með þessum börnum og það er, þrátt fyrir allt vesen og umstang, einstakt að geta verið með þeim svona mikið í svona langan tíma. Það er samt alltaf gott að komast aftur heim í hversdagsleikann.

Skrifað í flugi til Svíþjóðar 24.nóvember klukkan 9.24