Mið-Austurlandaferð 13: Punktar frá Palestínu

Ég er staddur inná hóteli í Ramallah á Vesturbakkanum, um 20 kílómetra frá Jerúsalem. Ég kom hingað fyrir um klukkutíma eftir frábæra dagsferð um Nablus og smærri bæji í nágrenninu. Ég er búinn að hugsa um svo marga hluti í dag að ég held að það sé best að koma þeim á blað í punktaformi.

 • Ég hefði aldrei trúað því hversu ótrúlega mikið er af landtökubyggðum Gyðinga hér á Vesturbakkanum. Þær eru hreinlega ÚTUM ALLT. Það verður aldrei friður á þessu svæði á meðan að Vesturbakkinn er skorinn upp með þessum hætti. Landtökubyggðirnar eru einstaklega skrýtin fyrirbæri. Hver byggð inniheldur oft aðeins í kringum 200-250 (oftast strangtrúaða) íbúa. Vanalega eru byggðirnar vel stæðar, sem er svo sem ágætt. En hins vegar er öryggisgæslan og umstangið í kringum þær fáránlegt. Við þurftum í dag að keyra í klukkutíma vegna þess að landtökubyggð var kominn, þar sem hefði verið augljós 5 mínútna leið frá Nablus til smábæjar.

  Landtökubyggðirnar virðast líka vera (allavegana í augum utanaðkomandi aðila einsog ég er) byggðar að vissu leyti til þess að segja FOKK JÚ framan í andlitið á Palestínumönnum.  Löngu áður en maður kemur að byggðunum blasir við manni ísraelski fáninn á hverjum einasta ljósastaur og þær eru víggirtar og oft byggðar uppá hæðum, sem gnæfa yfir aðrar byggðir.  Allt þetta á landi, sem að Palestínumenn eiga.  (Ég sá fleiri ísraelska fána en palestínska í dag)

  Vandamálið er auðvitað að landtökumennirnir trúa því að landið sé þeirra vegna þess að það sé vilji Guðs.  Þeir trúa því að það sé á móti vilja Guðs að veita einn einasta fermetra af Ísrael undir áhrifasvæði Palestínumanna.

  Af öllu sem ég hef séð á Vesturbakkanum, þá kom það mér mest á óvart hversu ofboðslega margar og áberandi landtökubyggðirnar eru.  Það er ekki furða að þær veki upp reiði Palestínumanna.

 • Af mjög yfirborðskenndum skoðunum á þessum palestínsku bæjum, þá sýnist mér efnahagurinn hérna vera mjög svipaður og á mörgum stöðum í Sýrlandi og Jórdaníu.  (Ég get auðvitað ekki heimsótt Gaza þar sem ástandið ku vera mun verra.) 

  Miðað við þá mynd sem oft er reynt að draga upp af Palestínu, þá á hér allt að vera í rúst.  Svo sýndist mér ekki vera, þótt að leigubílstjórinn hefði verið viljugur til að sýna mér allt það slæma sem að Ísraelsmenn hafa hér gert (og af nógu er að taka) og við fórum meðal annars inní Balata flóttamannabúðirnar.  Hins vegar þá hef ég á mörgum stöðum séð verra efnahagsástand.  Ef fólk kemur beint frá Evrópu til Ísraels og sér svo palestínska bæji, þá eru viðbrigðin mikil – en ef bæjirnir eru bornir saman við bæji í nágrannalöndunum þá er munurinn (allavegana á yfirborðinu) ekki mikill.

 • Ég tók leigubíl frá Jeríkó til Nablus og þaðan til Ramallah, með mörgum stoppum á leiðinni í minni bæjum og löngu stoppi í Nablus.  Leiðin snérist að mörgu leyti um það hvernig væri hægt að komast í gegnum varðstöðvar Ísraela.  Á einum staðnum fengum við þær upplýsingar að ég kæmist í gegn, en ekki tilbaka.  Þannig að á tímabili vorum við í þeirri stöðu að á Leið A gat ég farið en ekki (palestínskur) bílstjórinn, en á Leið B gat bílstjórinn farið en ekki ég.  Leið C, sem við uppgötvuðum síðar faldi það í sér að við keyrðum eftir malarveg framhjá engjum í um hálftíma.Þessi endalausu stopp eru auðvitað niðurlægjandi fyrir Palestínumenn.  Vesturbakkinn á að heita þeirra land, en þeir þurfa samt sem áður að sætta sig við endalaust áreiti frá ísraelskum hermönnum.  Á meðan að ísraelskir bílar með gulum númerum geta keyrt útum allt á Vesturbakkanum, þá þurfa palestínskir bílar að bíða í biðröðum eftir að vera skoðaðir.  Við sáum í dag 15 ísraelska bíla keyra framhjá okkur við einn vegatálmann.  Ég skil það afskaplega vel hvernig slíkt elur á óvild.
 • Mér var boðið heim til tveggja fjölskyldna í dag og þurfti að pína oní mig allavegana 4 bolla af arabísku kaffi en það var vel þess virði.
 • Seinni heimsóknin var nokkuð skemmtileg.  Þegar við komum inn var okkur boðið af húsbóndanum inní stofu og dyrunum að restinni af húsinu var læst.  Þegar ég bað um að fara á klósettið þurfti húsbóndinn að fara inní húsið og fela allar konurnar, sem voru orðnar kynþroska (eiginkona og ein dóttir) áður en mér var hleypt inn á klósettið.

  Í þessum bæ koma engir túristar og því gátu um 15 krakkar skemmt sér við það í hálftíma að kíkja innum gluggann og “skrýtna útlendingsins” og hlaupa svo í burtu öskrandi af hlátri þegar ég veifaði til baka.  Algjörlega æðislegt. 

 • Nablus er ein þeirra borga, þar sem að mótstaðan við Ísrael hefur verið hvað sterkust.  Ég labbaði um borgina í dágóðan tíma í dag.  Hún lítur út einsog hefðbundin Araba borg, ekki ósvipuð borgum einsog Hama og Aleppo (nema að klæðaburður kvenna er mun frjálslyndari).Það sem aðskilur Nablus þó frá þeim borgum er að á hverjum einasta vegg eru tugir plakata þar sem að litlir strákar með stórar byssur eru hylltir sem hetjur.  Þetta er dapurleg menning.
 • Á mörgum stöðum fá Palestínumenn ekki leyfi til að byggja eða bæta húsin sín.  Það að landið sé hernumið hlýtur líka að þýða það að fólk sjái minni hvata í því að sinna húsum sínum og nánasta umhverfi.  Þetta er bara einn af fjölmörgum hlutum sem gerir fólki hér lífið leitt.

Jæja, þetta er ágætt.  Á morgun ætla ég að skoða mig um hér í Ramallah og svo seinnipartinn að halda aftur Jerúsalem.

Fyrir þá, sem hafa áhuga þá er auðvelt að finna hér fyrri skrif mín um Ísrael.  Ég hef oft varið Ísraelsríki gegn oft á tíðum fáránlegum málflutningi í íslenskum fjölmiðlum – og verið kallaður ótrúlegum nöfnum fyrir það. 

Ólíkt því sem margir virðast halda þá þýðir það þó ekki að ég sé einhver sérstök klappstýra fyrir Ísraelskríki.

Skrifað í Ramallah, Palestínu klukkan 22.35

10 thoughts on “Mið-Austurlandaferð 13: Punktar frá Palestínu”

 1. Æhj, hvað er gaman að lesa pistlana þina, ég dauðöfunda þig ef þessu ferðalagi en samgleðst þér um leið. En í guðanna bænum farðu varlega..
  kv. Kolla

 2. Gaman að lesa ferðasögurnar þínar.

  Ég lenti einmitt í því um daginn að rökræða við kana um ísrael og palestínu og það var eins og að tala við vegg. Engin rök duga á heittrúaða kana.

  Hann endaði samtalið á þessu “the country that protects Israel will be protected by god”. Hver sem trúir svona steypu er ekki alveg í lagi. Rót vandans liggur í fjárstyrkjum frá ríkum gyðingum í USA, án peninga þá væru þeir ekki svona vel búnir.

  Er ekki svart og hvítt þarna varðandi efnahag ? Leið og þú kemur til Ísrael er það væntanlega mini-USA ?

  Gangi þér vel,
  Stígur

 3. Rót vandans liggur í fjárstyrkjum frá ríkum gyðingum í USA, án peninga þá væru þeir ekki svona vel búnir.

  Rót hvaða vanda nákvæmlega liggur í fjárhag bandarískra gyðinga???

  Takk Kolla og Elín. 🙂

 4. Það sem ég átti við er að landnám Ísraelsmanna væri ekki gerlegt án öflugs hers (allavega ekki með góðu móti).

  Eftir því sem ég best veit, þá dæla vinir okkar í Ameríku peningum til Ísrael.

  Vil taka það fram að ég hef ekkert á móti gyðingum þannig séð, en er þó algerlega ósammála þeim varðandi landtöku í Palestínu.

  Vandinn sem ég átti við er sá að búið er að hertaka mikið af landsvæði í Palestínu og eins og þú sagðir sjálfur er það alveg í smettinu á heimamönnum, sem er ákveðinn vandi og býr til heift í garð Ísraelsmanna (engan skal furða það).

  Skjálftakveðjur,
  Stígur

 5. Ef að Ísrael hefði ekki sterkan her, þá væri landið ekki lengur til. Arabalöndin hafa alltaf ráðist á Ísrael þegar þau hafa talið sig hafa hernaðarlega yfirburði. Sem betur fer ofmátu þau styrk sinn.

  Þannig að nei, hernaðarstyrkur Ísraela er ekki rót neins vanda að mínu mati.

  Vil taka það fram að ég hef ekkert á móti gyðingum þannig séð, en er þó algerlega ósammála þeim varðandi landtöku í Palestínu.

  Það eru ekki Gyðingar sem stunda landtöku, heldur Ísraelar.

 6. Ég er enginn sérfræðingur í málum Ísrael/Palestínu, og ætla því frekar að einbeita mér að því sem ég er góður í 🙂 Þú verður að heyja rökstríð við fróðari menn en mig.

  Rökleysingjakveðjur,
  Stígur

Comments are closed.