Mið-Austurlandaferð – Eftirmáli 1: Vinstri menn og Mið-Austurlönd

Ferðalagið mitt til Mið-Austurlanda kveikti í mér löngun til að skrifa nokkrar greinar um svæðið útfrá reynslu minni þar. Greinar, sem féllu kannski ekki beint undir ferðasöguna. Allavegana, hérna kemur fyrsta (og miðað við fyrri afköst, hugsanlega eina) greinin. Hún er nokkuð löng og fjallar um afstöðu Íslendinga (og þá aðallega vinstri manna) til Ísraelríkis. Þessi grein birtist í nýjasta tölublaði Herðubreiðar undir heitinu: “Um yndislegt fólk og góðan málstað”.

* * *

Frá því að ég byrjaði að ferðast á eigin vegum hef ég alltaf ferðast til að læra eitthvað nýtt. Ég hef aldrei almennilega skilið ferðalög fólks í kringum mig, sem kýs vikur á sólarströnd umfram fjölmennar borgir og merkilegar fornleifar í framandi löndum. Á þessum ferðalögum er sagan oft ansi lifandi fyrir framan mann, oft skýr og óumdeild. Þegar ég stóð inní S-21 fangelsinu í Kambódíu eða í Helfararsafninu í Washington DC þá var ég ekki í neinum vafa um grimmd Rauðu Khmeranna eða Nasista. Sagan var skýr, enginn vafi var á því hverjir vondu kallarnir voru.

* * *

Á sex vikna ferðalagi mínu í vor um Sýrland, Líbanon, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu flæktust hlutirnir umtalsvert. Á þessum slóðum eru sögulegir atburðir að gerast akkúrat núna. Þarna eru engin söfn, sem sögðu mér hvernig hlutirnir gerðust í raun og hver var sekur, heldur þurfti ég sem ferðamaður að meta ástandið sjálfur – tala við innfædda, lesa blöðin og fylgjast með því sem er að gerast fyrir framan augun á mér. Ég reyndi að láta fyrirfram ákveðnar skoðanir ekki hafa of mikil áhrif á mig og umfram allt að sleppa því að láta tilfinngasemi koma í veg fyrir skynsama sýn á stjórnmál og samfélögin í kringum mig.

Hvernig á ég til dæmis að skilgreina Sýrland? Mér er til efs um að ég hafi nokkurn tímann hitt jafn stórkostlegt fólk og Sýrlendinga. Hvergi hef ég fundið jafn vinalegt og skemmtilegt fólk, sem er jafn laust við alla tilgerð og ég hitti daglega á götum Hama, Aleppo og Damaskus. Fólkið bauð mér uppá te, sagði ítrekað hversu vænt þeim þætti um heimsókn mína til þeirra heimalands og bauð mig ítrekað velkominn. Þetta var líka fólk sem hafði vit á því að dæma bandarískar vinkonur mínar út frá því hvernig þær höguðu sér en ekki hvernig bandaríska ríkisstjórnin hagar sér.

Þetta er skynsamleg hegðun hjá Sýrlendingum. Ég lærði nefnilega í þessari ferð enn betur að aðskilja þá einstaklinga, sem ég kynnist, frá því samfélagi sem þessir einstaklingar mynda. Margir kjósa að verja alltaf ákveðna hópa eða þjóðir sökum þess að einstaklingar, sem tilheyra þessum hópum og þeir hafa kynnst, er indælis fólk. Hvernig er til dæmis hægt að gagnrýna Sýrlendinga þegar að þjóðin samanstendur af öllu þessu yndislega fólki? Til þess að geta gert það verða menn einfaldlega að aðskilja álit sitt á einstaklingunum og því samfélagi sem þeir mynda.

Sýrlendingar eru vissulega gott fólk. Það breytir þó ekki því að þeir mynda samfélag, sem að styður hryðjuverkamenn, elur á Gyðingahatri (í einni bókabúð í Damaskus fann ég í gluggaframstillingu bæði “Mein Kampf” og falsritið “Protocols of the Elders of Zion”) og neyðir kvenfólk til að hylja bæði andlit með sjali og líkamsburði með forljótum og þykkum kápum. Ekki er hægt að kenna eingöngu einræðisstjórn Bashar al-Assad um þetta allt, því þetta eru allt hlutir sem eru útbreiddir um mörg Arabalönd og myndu sennilega ekki breytast þótt að hann léti af völdum seinna í dag.

* * *

Í Palestínu kynntist ég líka yndislegu fólki, sem gaf mér te, bauð mér heim til sín og stoppaði mig útá götu til að hjálpa mér eða bara til að spjalla. Ég eyddi tveimur dögum með Tariq, leigubílstjóra frá Jeríkó á ferð um Jeríkó, Nablus, Ramallah og fleiri þorp þar í kring. Fyrir honum var ekki nóg að keyra mig um, heldur stoppuðum við hjá vinum hans í hverjum smábæ. Þar var mér ávallt tekið einsog þjóðhöfðingja. Enginn spurði mig um stjórnmálaskoðanir mínar, heldur bauð fólk mér bara heim til sín í te þar sem við ræddum um ýmsa hluti. Á Austurbakkanum í Jórdaníu eyddi ég svo tveimur heilum kvöldstundum inná skrifstofu Fayez, eiganda lítils hótels í Amman, þar sem hann sagði mér frá raunum sínum og ferðalögum á milli þess sem við drukkum nánast ódrykkjarhæft arabískt kaffi og reyktum nargileh.

Þessi gestrisni breytir því þó ekki að í heimsókn til eins palestínsk manns þurfti að fela allar konurnar þegar að ég fór inní íbúðina til að fara á klósettið. Það breytir því heldur ekki að í Nablus er miðbærinn nánast veggfóðraður með myndum af unglingsstrákum með vélbyssur, sem hafa sennilega unnið sér það eitt til frægðar að hafa reynt eða tekist að myrða saklausa Ísraela.

Í Ísrael átti ég hins vegar mun erfiðara með að kynnast fólki. Ísraelar eru talsvert lokaðri heldur en Arabar, stelpurnar storma framhjá manni með stór sólgleraugu líkt og þær séu þjálfaðar í því að vera eins svalar og þær geta mögulega verið og ég gat staðið lengi útá götu án þess að fá nokkra aðstoð við að finna safnið, sem ég var að leita að. En Ísraelar mynda hins vegar samfélag sem virðir réttindi samkynheigðra, hefur öflugt dómskerfi (forsætisráðherrann þarf þegar þetta er skrifað að verjast ákærum um spillingu, nokkuð sem væri óhugsandi í flestum Arabalöndum), virðir málfrelsi og síðast en ekki síst veitir konum sömu réttindi og körlum.

Þrátt fyrir að vinstri menn styðji í dag flestir lýðræði og kvenréttindi, þá láta flestir einsog að þau mál skipti engu þegar að kemur að því að tala um Ísrael. Bandaríkjamenn, þar á meðal vinstri menn, horfa margir hverjir í gegnum fingur sér þegar talað er um slæmu hlutina, sem að Ísrael gerir í samskiptum sínum við Palestínumenn, eingöngu vegna þess að þeir telja Ísrael vera einu vonina í Mið-Austurlöndum þegar að kemur að lýðræðis-, réttar- og kvenfrelsismálum. Ansi margir evrópskir vinstri menn virðast hins vegar láta það sig litlu varða að í Ísrael sé virkt lýðræði þar sem að vinstri og hægri flokkar hafa skipst á völdum og að þar sé konum frjálst að vinna við það sem þær vilja, klæðast því sem þær vilja og giftast þeim sem þær kjósa.

* * *

Ég hef oft lent í umræðum um ástandið í Mið-Austurlöndum og án efa oftar en einu sinni gerst sekur um að fullyrða um hluti sem ég hafði ekki nógu mikið vit á. Það skrýtna við þær umræður er sú staðreynd að inntak og áherslur ummæla minna breytist oft eftir því hvar ég er staddur eða við hvern ég er að tala.

Þegar að kemur að málefnum Ísraels og Palestínu þá hef ég alltaf talið að mínar skoðanir séu hófsamar. Ég trúi á tveggja ríkja lausn og takmarkaða endurkomu palestínskra flóttamanna. Ég trúi á nauðsyn þess að Gyðingar eigi sitt eigið ríki. Ég trúi því að Jerúsalem eigi að vera skipt og að hún eigi að vera höfuðbrorg tveggja sjálfstæðra ríkja. Ég trúi því að Ísraelsmenn eigi að uppræta landnemabyggðir á Vesturbakkanum, nema rótgrónustu byggðirnar, sem voru undanskildar í Camp David samkomulaginu. Til að vega upp fyrir þær eigi Ísrael að gefa eftir önnur landsvæði. Á móti þurfa Palestínumenn að tryggja það að á Ísrael verði ekki ráðist líkt og gerðist ítrekað þegar að Vesturbakki Jórdan árinnar var undir stjórn Jórdaníu.

Ég trúi því að afstaða Hamas sé óásættanleg, að ekki sé hægt að semja við samtök sem viðurkenna ekki tilvistarrétt Gyðingaríkis í Ísrael. Ég trúi því að ekki eigi að verðlauna hryðjuverk við samningaborðið. Ég trúi því að Ísrael eigi ekki að skila Golan hæðunum nema að tryggt sé að raunverulegur friður komist á og að Sýrlendingar hætti afskiptum af stjórnmálum í Líbanon. Ég trúi því að Ísrael hafi skilyrðislausan rétt til að verjast árásum á landið. Ég trúi því að Ísrael og önnur lönd eigi að gera allt sem þau geta til að Palestína verði sjálfstætt og farsælt land, meðal annars með því að tryggja að samskipti og samgöngur á milli Gaza og Vesturbakkans verði með besta móti (til dæmis með lest eða öruggum og opnum hraðbrautum á milli svæðanna) og á ferðalagi mínu styrktist sú trú mín að Ísraelar og Palestínumenn séu upp til hópa yndislegt fólk, sem vill frið í sínum löndum. Fólk sem hefur flest nokkuð hófsamar skoðanir, sem eru ítrekað kæfðar í umræðunni af öfgamönnum á báðum hliðum.

Auðvitað er það ekki mitt að dæma hversu hófsamar þessar skoðanir mínar eru. En þær hafa verið tiltölulega óbreyttar í gegnum árin og trú mín á þær efldust á ferðalagi mínu um þessi svæði. Ég hef alltaf reynt að sjá málin frá báðum hliðum, sem veldur því að ef þú bæðir vin minn í Bandríkjunum og vin minn á Íslandi að lýsa skoðunum mínum á þessu eilífa deilumáli, þá fengir þú afar ólík svör. Þetta er allt afleiðing af því hversu lituð umræðan um Ísrael og Palestínu er. Þú annaðhvort “heldur með” Ísrael eða Palestínu og skoðanir margra mótast af því. Það að fólk skiptist í svo einstrengislega hópa gerir umræðuna um þetta málefni erfiða og ýtir undir það að öfgafullar skoðanir fái brautargengi.

* * *

Vinur minn í Bandaríkjunum myndi eflaust kalla mig “stuðningsmann Palestínu”. Ég eyddi ótal klukkutímum á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum í að hneykslast á oft einstrengislegum skoðunum margra innfæddra á málefnum Ísrael og Palestínu. Ég pirraði mig auðvitað á þeim allra öfgafyllstu, sem birtust á sjónvarpsskjánum reglulega og ekki er hægt að taka mark á ef að friður á að nást. Fólk, sem kýs að kalla Vesturbakkann Júdeu og Samöru og neitar að viðurkenna tilvistarrétt Palestínu. Fólk sem að vitnar í 2.000 ára gamla bók til réttlætingar á þeirri skoðun sinni að Ísraelar eigi aldrei nokkurn tímann að gefa eftir einn einasta hektara af landi til Palestínumanna. Þetta fólk vill ekki frið.

Auk þess mótmælti ég líka á fólki, sem litaði alla Palestínumenn sem hryðjuverkamenn. Fólk sem sá myndirnar frá Palestínu eftir 11.september 2001 og ákvað út frá því að allir Palestínumenn gleddust yfir dauða 3.000 saklausra borgara og heldur að svarthvítur klútur lýsi yfir stuðningi við hryðjuverk. Þessu fólki mótmælti ég hvar sem ég gat.

* * *

Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Þar held ég fram sömu grunn hugmyndunum og ég hélt fram í Bandaríkjunum, en fyrir það hef ég verið kallaður “stuðningsmaður Ísraels” auk þess sem ég hef verið kallaður niðrandi nöfnum fyrir skoðanir mínir, þar á meðal Síonisti (þrátt fyrir að ég trúi því ekki að það sé neikvætt orð, þá var það ekki vel meint) og rasisti (sennilega vegna gagnrýni minnar á múslimska hryðjuverkamenn).

Hérna á Íslandi eru vinir mínir talsvert vinstri-sinnaðri en þeir voru í Bandaríkjunum og þeir sem ég hef kynnst í gegnum störf mín í Samfylkingunni hafa nánast allir skoðanir sem eru afskaplega hliðhollar málstað Palestínumanna og gera lítið úr nauðsyn þess að Ísraelsríki geti varist árásum, sem og þeirri staðreynd að Palestínumenn hafa oftar en einu sinni hafnað sjálfstæðu ríki.

Afstaða vinstri manna á Íslandi til hryðjuverka er líka afar ólík skoðunum sem eru ríkjandi í Bandaríkjunum. Hvort sem það er vegna þess hversu hryðjuverk eru fjarlæg Íslendingum eða vegna einhverra annarra ástæðna skal ósagt látið. Við vinstri menn eigum það kannski sameiginlegt að við reynum að vera eins víðsýn og mögulegt er. Í stað þess að gagnrýna hryðjuverk án athugasemda, þá viljum við oft kryfja málin frekar. Við viljum vita “af hverju” menn grípa til hryðjuverka? Það er vafalaust réttlætanlegt viðhorf. Er ekki í lagi að spyrja hvað í ósköpunum fær fólk til að hlaða sig sprengjuefni, labba inná skemmstistað fullan af ungu og saklausu fólki og sprengja sig í loft upp?

Margir komast að þeirri niðurstöðu að bara örvæntingarfullt fólk geti framkvæmt slík voðaverk. Þegar að ungir Vesturlandabúar ráðast inní skóla alvopnaðir og skjóta unga nemendur, þá fyllist fólk hryllingi og veltir fyrir sér samfélaginu í kringum þá menn. En á endanum þá er bara hægt að kenna samfélaginu um hluta af slíkum voðaverkum. Þegar um múslimska hryðjuverkamenn líkt og þá Palestínumenn, sem sprengja sig í loft upp inní almenningsbifreiðum, er að ræða þá vilja samt margir gera samfélagið og umhverfið að aðalsökudólginum. Þannig að í stað þess að fordæma hryðjuverk Palestínumanna, þá eru eingöngu aðgerðir Ísraela fordæmdar. Menn komast að því að hryðjuverkin séu í raun Ísraelum að kenna. Þeir hafi kallað þau yfir sig.

Þetta vita hryðjuverkamenn í Palestínu. Þeir vita að Ísrael er lýðræðisríki og að óvinsælar ríkisstjórnir eru felldar í kosningum. Því vita þeir að hryðjuverk þeirra munu neyða Ísraela til að bregðast við. Engin ríkisstjórn getur réttlætt það fyrir borgurum sínum að gera ekki neitt í kjölfar sí-endurtekinna hryðjuverkaárása. Þess vegna bregðast Ísraelsmenn við og þurfa að ráðast gegn hryðjuverkamönnum, sem fela sig á meðal óbreyttra borgara. Hvort sem aðgerðirnar eru of stórar eða hófsamar, þá deyja oft saklausir borgarar í aðgerðunum og þeim myndum er hægt að halda á lofti fyrir allan umheiminn til að sýna meinta grimmd Ísraelsmanna. Á endanum eru það því í hugum margra ekki hryðjuverkamennirnir sem eru sekir, heldur landið og fólkið sem þeir ráðast gegn.

* * *

Í Evrópu hefur á undanförnum árum borði meira á áróðri gegn Gyðingum. Margir afsaka það með staðhæfingum um að þetta endurnýjaða Gyðingahatur sé eingöngu hægt að rekja til framgöngu Ísraelsmanna. Það er þó langt frá sannleikanum. Amos Oz, ísraelskur rithöfundur, skrifaði einu sinni:

“Þegar pabbi minn var ungur maður í Vilnius, þá stóð á hverjum vegg, “Gyðingar, farið heim til Palestínu”. Fimmtíu árum seinna þegar hann fór í heimsókn aftur til Evrópu, þá stóð á veggjunum, “Gyðingar, farið útúr Palestínu”.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að gagnrýni á Ísraelsríki er fullkomlega réttlætanleg. En til þess að svo sé þarf hún samt sem áður að uppfylla ákveðin skilyrði og þar er einna mikilvægast að hún sé ekki byggð á almennum Gyðingafordómum. Í bókinni “The Case for Peace: How the Arab-Israel conflict can be resolved” leggur Alan Dershowitz til ágætis skilgreininga-atriði um það hvernig aðgreina skuli lögmæta gagnrýni á Ísraelsríki frá gagnrýni sem er byggð á Gyðingafordómum. Meðal þeirra 20 atriða sem hann segir gefa til kynna að gagnrýni á Ísrael sé byggð á Gyðingafordómum nefnir hann:

 • Þegar aðgerðum Ísraela er líkt við Nasista
 • Að vilja refsa Ísraelum einum fyrir hluti sem viðgangast í mörgum löndum og að gera þá kröfu að Gyðingar séu á einhvern hátt betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba.
 • Að halda því fram að Ísraelar séu verstir allra þjóða í einhverju jafnvel þótt það sé fjarri sannleikanum.
 • Að kenna Ísrael um öll vandamál heimsins og ýkja áhrif deilnanna í Ísrael og Palestínu á alþjóðastjórnmál.
 • Þegar ákveðnar steríótípur sem oft eru notaðar af Gyðingahöturum eru notaðar til að lýsa öllum stuðningsmönnum Ísraelsríkis. Svo sem þegar mikið er gert úr völdum Gyðinga um allan heim (t.d. í Bandaríkjunum) eða þeir eru teiknaðir sem grimmir og ljótir gamlir menn með löng nef.

Eflaust má rökræða um sum þeirra 20 atriða, sem að Dershowitz nefnir, en ég tel þó að þessi ofarnefndu atriði bendi oftast til að röksemdafærslan mótist af fordómum.

* * *

Á Íslandi er oft talað á furðulegan hátt um Gyðinga. Þegar að illa er talað um múslima rísa, sem betur fer, margir upp og mótmæla. Þegar að hins vegar er illa talað um Gyðinga og Ísrael, þá er oft einsog allt sé leyfilegt.

Hér sjást oft merki um Gyðingahatur og fordóma, sem ég hef aldrei skilið ræturnar á. Fyrir uppáhalds fótboltaliðið mitt á Englandi spilar ísraelskur landsliðsmaður. Hann er sá eini, sem ég hef heyrt blótað vegna trúarbragða sinna. Þegar hann klúðrar færum hef ég á sportbörum heyrt “helvíts Gyðingurinn” – og sjaldan er kvartað undan slíkum ummælum. Önnur birtingamynd þessa er sú að fæstum virðist þykja mikið til þess koma þegar að ákveðin hegðun fólks er tengd við Gyðingdóm. Þannig þykir mörgum ekkert óeðlilegt við að kalla fólk “Gyðing” vegna þess að það er nískt. Þetta eru þó grófir fordómar, sem byggjast á aldagamalli steríótípu um það hvernig hinn illi, grimmi og níski gyðingur misnotaði aðstöðu sína.

Þessar steríótípur lifa enn vel í Mið-Austurlöndum þar sem það er alls ekki óalgengt að Gyðingar séu teiknaðir í blöðum sem ljótir gamlir kallar með langt nef og langa höku. Í fréttatíma á Stöð 2 fyrir nokkrum mánuðum þótti Katrínu Pálsdóttur af einhverri ástæðu eðlilegt að enda frétt um ferð Barak Obama til Ísraels á þessum orðum:

>”Gyðingar eru áhrifamiklir í Bandaríkjunum og meðal annars eiga þeir og reka flesta fjölmiðla þar í landi.”

Hvaðan Katrín fær þessar upplýsingar eða hvaða máli þær skipta, veit ég ekki. Tilgangurinn getur vart verið annar en sá að ýta undir aldagamlar steríótípur um valdamiklu Gyðingana sem að öllu stjórna á bakvið tjöldin.

Eftir ferð Alþingismanna til Ísrael og Palestínu árið 2005 tók Jónína Bjartmarz í viðtali á vísi.is undir þau orð Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að múrinn, sem að Ísraelsmenn höfðu byggt á Vesturbakkanum, minnti helst á gettóin á tímum Nasista!

Eins fráleit og þessi samlíking er fyrir hvern þann sem hefur lesið sögubækur eða heimsótt Vesturbakkann og svo Helfararsafnið á Yad Vashem hæðinni í Jerúsalem, þá þjónar hún þem tilgangi að fríja Evrópubúa undan ábyrgð á Helförinni. Þegar aðgerðum Ísraela er á jafn fráleitan hátt líkt við aðgerðir Nasista þá er undirtónninn alltaf sá sami: “Sjáiði hvað Gyðingarnir gera þegar þeir hafa völdin! Þeir eru alveg jafn slæmir og Nasistarnir sem ofsóttu þá”.

* * *

Á ferðalagi um Vesturbakkann átti ég oft á tíðum erfitt með að gera mér grein fyrir því af hverju svo margir vinstri menn í Evrópu setja baráttuna fyrir Palestínu ofar flestum öðrum baráttumálum. Hvað er það sem gerir raunir Palestínumanna að svona heitu máli? Það var vissulega margt sem mér misbauð á þeim dögum sem að ég eyddi á Vesturbakkanum. Ísraelskar landnemabyggðir (þótt að sumar eigi sér mjög langa sögu) eru margar hverjar nýlegar og umfang þeirra og öryggissvæði í kringum þær gera ferðalög um Vesturbakkann afskaplega erfið. Hvað eftir annað þurftum við að fara framhjá vegatálmum, þar sem við vorum stoppuð á palestínskum bíl á meðan að bílar með ísraelsk númer fengu að keyra áfram. Það er ekki erfitt að ímynda sér hversu niðurlægjandi það er fyrir Palestínumenn. Fyrir Evrópubúa sem heimsækir Ísrael og Palestínu beint frá Evrópu er líka eflaust margt sem að stingur í augað. Ástandið í Palestínu er vissulega umtalsvert verra en í Ísrael, vegirnir eru verri, húsin hrörlegri, búðirnar fátæklegri og svo framvegis.

Hafi maður hins vegar heimsótt önnur Arabalönd, þá lítur ástandið öðru vísi út. Í Líbanon er öryggisgæslan miklu öflugri – þar var ég stöðvaður 10 sinnum á stuttu ferðalagi á milli Baalbek og Beirút og hvað hið almenna ástand varðar, þá er afskaplega erfitt að greina á yfirborðinu mikinn mun á efnahagslegum lífsgæðum í Palestínu og stórum hluta Sýrlands. Sem ferðamaður sér maður auðvitað aðeins hluta sannleikans, en ég tel þó að minn ferðamáti leyfi mér að sjá betur ástand almennra borgara. Miðað við Ísrael er ástandið vissulega slæmt, en sé ástandið í Palestínu miðað við Jórdaníu eða Sýrland, þá virðist munurinn (allavegana á yfirborðinu) ekki vera mikill. Þessi aðstöðumunur og meint kúgun Ísraela skýrir það heldur ekki af hverju Palestínumenn fá samúð evrópskra vinstri manna umfram til dæmis Kúrda í Sýrlandi eða aðrar kúgaðar og landlausar þjóðir um heim allan, sem búa við umtalsvert verri aðstæður en Palestínumenn án þess þó að hafa gripið til hryðjuverka.

* * *

Samfylkingin er, einsog í mörgu öðrum málaflokkum, í erfiðri stöðu þegar að kemur að málefnum Ísrael og Palestínu. Til vinstri við flokkinn eru Vinstri Grænir sem hafa sterk tengsl við málstað Palestínu og samtök einsog Ísland-Palestína. Það er því alveg ljóst að sama hversu hliðholl afstaða Samfylkingarinnar verður Palestínumönnum að þeir allra rótækustu meðal stuðningsmanna málstaðar Palestínumanna munu alltaf geta fundið sig betur innan Vinstri Grænna. Hvernig er annað hægt þegar að Ögmundur Jónasson telur Ismail Haniya, leiðtoga Hamas, vera friðarsinna?!

Meðal þeirra sem styðja málstað Ísraela eru svo meðlimir sértrúarhópa orðnir ansi háværir á Íslandi. Á Omega eru til að mynda sjónvarpsþættir þar sem “vinir Ísraels” koma saman til að ræða um ástandið. Þessir vinir landsins eru þó margir eingöngu vinir landsins á þeim forsendum að Ísrael gefi aldrei eftir land til Palestínu og að með því rætist spádómar úr Biblíunni. Með slíka vini þarf Ísrael varla óvini.

Samfylkingin þarf að hundsa á öfgamenn á báðum hliðum, hvort sem þeir verja kosningu Hamas eða krefjast þess að Vesturbakki Jórdan-ár verði ávallt hluti af Ísrael. Í stað þess þarf flokkurinn að fylgja eftir hófsamri stefnu sem að fordæmir ávallt hryðjuverk og reynir ekki að afsaka hryðjuverkamenn vegna þeirra aðstæðna sem þeir eru í, byggir á tveggja ríkja lausn einsog lögð var til í Camp David og krefst þess að kvenrétti, málfrelsi, lýðræði og réttindi samkynheigðra séu virt – alltaf, alls staðar – alveg sama hver hefðin eða trúarbrögðin eru.

8 thoughts on “Mið-Austurlandaferð – Eftirmáli 1: Vinstri menn og Mið-Austurlönd”

 1. Einar, takk fyrir mjög góða grein. Ég hafði mjög gaman af því að lesa hana.

  Í umfjöllun fólks um málefni eins og deilu Ísrael og Palestínu er það undantekning að greinarhöfundar nái að miðla af persónulegri reynslu sinni svo að við, hinir almennu lesendur, getum lært eitthvað af því. Þetta tekst þér í þessari grein. Þú hefur ferðast meira en flestir Íslendingar um þessi svæði og kynnt þér þetta meira en margir og þú miðlar því á lærdómsríkan hátt fyrir okkur hin í þessari grein.

  Annars tek ég undir með þér varðandi skoðunina á þessari deilu. Ég hef bæði lent í því að vera úthúðað af íslenskum meðlimum Ísland-Palestína og eins verið skammaður í Bandaríkjunum fyrir að vilja ekki trúa á skjannahvíta ímynd Ísraels þar í landi. Það er eins og öfgahóparnir báðum megin fremji sama glæpinn, sem er að segja, „skeytið engu um ódæðisverk þeirra sem ég held með (hárrétt orðað, btw), því hinir eru MIKLU VERRI.“ Umræða á slíku plani mun seint skila árangri þar sem tvö margflókin þjóðarbrot deila.

  Allavega, góð grein. Ég vona að þú skrifir meira um þessi mál, þótt ferðasögurnar þínar frá því í vor og svo þessi grein myndi nú þegar ansi myndarlegan ferðaarf.

 2. Magnaður pistill og mjög skemmtilegur lestrar.

  Ég hef lengi vel verið af flestum talinn hliðhollari Ísrael í slíkri umræðu. Stafar eflaust af því að ég var meira innan um Ísraela á meðan ég bjó þar. Það er í raun ekki mitt að meta hvort þetta sé rétt hjá fólki eða ekki. Ég reyni hins vegar hvað ég get að velja ekki hlið, heldur, eins og þú, meta ástandið út frá báðum hliðum. Ég er jú Íslendingur og tilheyri hvorugum flokknum þarna. Ég kynntist líka, líkt og þú, venjulegu fólki sem lifir venjulegu lífi – af öllum þeim þjóðernum sem hrærast þarna. Eitt sá ég sameiginlegt með þeim öllum – þau voru öll hlynnt friði og vildu ekki sammerkja sig með þeim sem segjast vera í forsvari fyrir þjóðirnar. Fólk virðist orðið langþreytt á baráttu sem kostar þau alltof mikið – beggja vegna múrsins.

  Það sem pirrar mig þó einna mest er að þeir sem hafa hvað hæst um hvora hlið fyrir sig virðast ekki þekkja söguna frá báðum hópum. Þá á ég við aðila utan svæðisins. Vorkunnarbarátta byggð á ljótum sögum úr fjölmiðlum. Það er því mjög hressandi að sjá mat eins og hér að ofan sem byggir á staðreyndum beggja hliða.

  Á endanum er mín ósk eins og flestra annarra; að friður komist á sem fyrst enda þessi heimshluti gífurlega skemmtilegur til ferðalaga fyrir fólk úr öllum heimsálfum. Mikil saga, mikið að sjá og, eins og þú bendir oft á, ótrúlegt fólk til að kynnast.

  kv, tobs

 3. Sæll Einar.

  Þú þekkir mig ekki neitt; rambaði bara inn á síðuna þín af tilviljun, en vildi bara þakka þér fyrir mjög góða grein! Ég veit sama og ekkert, liggur við, um þetta mál, en þú hefur frætt mig örlítið meir nú.

  Get þar af leiðandi ekkert tjáð mig um þetta, en vildi samt benda á að þetta með að Íslendingar tali furðulega um Gyðinga er alveg rétt, og þetta er ekkert nema fáfræði í tengslum við Gyðinga.

  Benda á eitt “fyndið” líka. Múrinn á Vesturbakkanum hefur verið kallaður GIRÐING.

  Þú getur kannski kíkt á þessa síðu ef þú vilt einnig: http://yousef.blog.is/blog/yousef/ 🙂

  Takk fyrir góða og skemmtilega síðu. 🙂

 4. Sæll Einar

  Þetta eru áhugaverðar pælingar, en gjalda dálítið fyrir skort á sögulegri dýpt.

  Af greininni mætti skilja að evrópskir (og þar á meðal íslenskir) vinstrimenn hafi tekið náttúrulega varðstöðu gagnvart Ísrael, að því er virðist sem hluta af rótgróinni Bandaríkjaandúð þeirra.

  Saga málsins er hins vegar öllu flóknari.

  Staðreyndin er sú að samúð með málstað Ísraela var lengi vel mjög mikil og almenn meðal vinstrimanna í Evrópu. Fyrstu áratugina voru vinstrimenn jafnvel spenntari fyrir þróun mála í Ísrael heldur en hægrimenn, sem skýrðist ekki hvað síst af því að þar átti sér stað ótrúlega hröð uppbygging með samfélagsskipan sem hafði ýmis einkenni samvinnustefnu og/eða sósíalisma. Þannig er líklegra að finna megi skrif þar sem fjallað var um Ísraelsríki á jákvæðum nótum í gömlum Þjóðviljum en í Morgunblaðinu.

  Þegar ég skrifaði skólaritgerð um Palestínumálið í gaggó fyrir tæpum tveimur áratugum, voru heimildir sem lögðu áherslu á þjáningar palestínsku þjóðarinnar af mjög skornum skammti. Það voru helst einhverjir fjölritaðir bæklingar og pésar sem einstaklingar og hópar höfðu gefið út. Almennur fréttaflutningur á níunda áratugnum var mjög andsnúinn Palestínumönnum. Langflestum stóð á sama um deilurnar í Palestínu (hægrimenn jafnt sem vinstrimenn) og þeir sem tóku afstöðu voru yfirleitt á bandi Ísraela. Stuðningur við málstað Palestínumanna var jaðarafstaða í Íslandi og í Evrópu fyrir 20 árum síðan.

  En þetta hefur vissulega breyst. Tónninn í umfjöllun stórra fjölmiðla er nú orðinn á þann veg að Ísraelsvinir kvarta sáran. Stórir stjórnmálaflokkar eins og Samfylkingin fá talsmenn Palestínumanna sem heiðursgesti á flokksþing sín. Þetta er ótrúleg breyting – og er ekki bundin við Ísland, heldur hefur orðið gríðarleg breyting á sjónarmiðum fólks um gjörvalla Vestur-Evrópu.

  Þetta hefur gerst, þrátt fyrir að á sama tíma séu múslimar meira á milli tannanna á fólki víða um Evrópu.

  Að mínu mati er algjörlega órökrétt að tengja þessa afstöðubreytingu við Bandaríkjaandúð eða þekkingarleysi á aðstæðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég held að frjórri nálgun sé að spyrja sig: hvernig gat það gerst að Ísraelsríki, sem naut mikils og almenns stuðnings fyrir 20-25 árum, hafi komið sér svona út í horn á ekki lengri tíma? Eru þeir fórnarlömb rógsherferðar snjallra spunameistara – eða er skýringarinnar að leita í þróun mála á síðustu áratugum í landinu?

  Í þessu efni sem öðrum er gott að huga vel að sögunni.

 5. Þetta eru áhugaverðar pælingar, en gjalda dálítið fyrir skort á sögulegri dýpt.

  Það má vel vera, enda var þetta ekki sagnfræðiritgerð. Það er einmitt þetta með sósíalískar rætur Ísraels með öllum kibbutz-unum og slíku, sem vakti athygli mína og vakti upp hugsanir um það af hverju vinstri menn virðast vera orðnir svo harðir andstæðingar Ísraelsríkis á þessum tíma. Eru Ísraelsmenn orðnir svona miklu verri, eða eru Palestínumenn orðnir svona miklu betri?

  Er ekki einmitt ein hugsanleg skýring sú sem ég tala um varðandi hryðjuverkin að oft fer fólk að kenna fórnarlambi hryðjuverkanna um sjálf hryðjuverkin?

  Ég held að frjórri nálgun sé að spyrja sig: hvernig gat það gerst að Ísraelsríki, sem naut mikils og almenns stuðnings fyrir 20-25 árum, hafi komið sér svona út í horn á ekki lengri tíma?

  Þessi spurning er náttúrulega mjög leiðandi, þar sem þú gerir því skóna að hegðun Ísraels sé orsök þessarar afstöðubreytingar (“Ísraelsríki…hafi komið sér svona útí horn”). Ég er ekki endilega sammála því.

  Af greininni mætti skilja að evrópskir (og þar á meðal íslenskir) vinstrimenn hafi tekið náttúrulega varðstöðu gagnvart Ísrael, að því er virðist sem hluta af rótgróinni Bandaríkjaandúð þeirra.

  Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvernig var hægt að lesa þetta útúr þessu máli.

  En einsog ég segi, takmark mitt var ekki að þessi grein yrði einhver tæmandi analísering á ástæðum þessa viðhorfs gagnvart Ísrael, heldur frekar smá upptalning á því hvernig ég upplifði hlutina.

 6. “Þessi spurning er náttúrulega mjög leiðandi, þar sem þú gerir því skóna að hegðun Ísraels sé orsök þessarar afstöðubreytingar (”Ísraelsríki…hafi komið sér svona útí horn”). Ég er ekki endilega sammála því.”

  Já, ég held nefnilega einmitt að afstöðubreytingu fólks í Vestur-Evrópu verði að skýra að verulegu leyti með breytingu á stöðu mála í Ísrael á síðustu árum. Annað er einfaldlega órökrétt.

  Skítt með vinstriróttæklinga eða flokksfélaga mína í VG. Látum þá liggja á milli hluta. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt er að sjá breytta afstöðu fólks við miðju stjórnmálanna og hægra megin við miðju í þessu máli. Og vel að merkja – ég er ekki að tala um það hvort t.d. ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka hafi breytt um afstöðu, heldur þegar t.d. einstaklingar í Samfylkingu og Framsóknarflokki hafa snúist í 180°.

  Ég ítreka það sem ég skrifaði hér fyrir ofan – að það er klárt mál að það hefur orðið stórfelld afstöðubreyting í málefnum Ísraels á síðustu 20 árum. Fyrir þann tíma voru Palestínumenn fordæmdir býsna almennt fyrir hryðjuverk og samúðin lá með smáþjóðinni Ísrael sem talin var eiga við ofurefli að etja.

  Þetta hefur klárlega breyst og á því geta fyrst og fremst verið tvær skýringar:

  i) Að staðan í áróðursstríðinu hafi snúist, að íbúar Vestur-Evrópu séu að verða ginnkeyptari fyrir andgyðinglegum áróðri eða hryðjuverk séu farin að njóta meiri samúðar. – Þetta (og þá einkum síðastnefnda atriðið) er langsótt. Einkum eftir að “stríðið gegn hryðjuverkum” fór að færast í aukanna virðist manni þvert á móti virst almenningsálitið andsnúnara þeim þjóðum eða hópum sem grípa til vopna í baráttu sinni.

  eða

  ii) Að eitthvað það hafi breyst í Ísrael á síðustu 20 árum sem skýri viðsnúninginn að talsverðu leyti.

  Þú spyrð hvort þar sé átt við að Ísraelarnir hafi orðið “verri” og Palestínumenn “betri”. Það held ég að sé fjarri öllum sanni. Hins vegar hafa Ísraelarnir klárlega orðið “sterkari” og Palestínumenn “veikari”.

  Valdahlutföllin á svæðinu hafa breyst gríðarlega á þessum tuttugu árum. Sú ímynd sem Ísraelsstjórn hefur alla tíð reynt að draga upp af stöðu sinni sem smáríkis umkringdu ofurefli liðs sem stefna að útrýmingu, gekk upp í hugum margra Evrópubúa fyrir þrjátíu árum – en ekki í dag.

  Myndin sem blasti við umheiminum fyrir aldarfjórðungi var á þá leið að í tveir herir ættu í höggi hvor við annan: Ísraelsher og skipulagður, miðstýrður frelsisher PLO. Átökin sem komu upp í hugann sýndu ísraelska hermenn og lambhúshettuklædda PLO-menn skiptast á skotum úr hríðskotabyssum.

  Í dag er myndin frekar á þá leið að skriðdrekar séu að skjóta á unglinga sem kasta grjóti. Og um leið og það gerðist, var Ísraelsstjórn búin að tapa áróðursstríðinu – og líklega sjálfu stríðinu, þegar til lengdar lætur.

  Vandinn er að sjálfsmynd Ísraelsríkis er á þá leið að árið sé ennþá 1954 og aðgerðir gegn þriðju eða fjórðu kynslóð Palestínumanna í flóttamannabúðum bera þess merki. Styrkleikahlutföllin eru hins vegar orðin svo allt, allt önnur í dag.

 7. Já, þetta eru ágætis punktar, Stefán.

  Þetta skýrir samt ekki þá spurningu, sem ég var að velta fyrir mér í greininni. Það er af hverju Palestínumenn fá miklu meiri samúð en margar aðrar þjóðir í heiminum. Það er til dæmis nánast hlægilegt að sjá Sýrlendinga gagnrýna Ísraelsmenn fyrir meðferð á Palestínumönnum á meðan að þeir halda áfram að blanda sér í stjórnmál í Líbanon og kúga Kúrda í sínu eigin landi.

Comments are closed.