Mið-Austurlandaferð 1: Beirút

Beirút! Alveg frá því að ég var lítill hefur þetta nafn aðeins staðið fyrir hörmungar. Ef einhver segir að borgarhlutar líti út einsog Beirút, þá vita allir hvað um er rætt. Nafnið á borginni er orðinn samnefnari fyrir hörmungarnar, sem hér hafa dunið yfir undanfarna áratugi.

Það eru 18 ár síðan að borgarastríðinu í Líbanon lauk og minna en tvö ár síðan að Júlí stríðið við Ísrael stóð yfir og því er hálf furðulegt að ganga um stræti Beirút. Við fyrstu sýn virðist flest vera eðlilegt. Í Hamra hverfinu þar sem ég gisti (og sit nú inná netkaffi í) þá er allt eðlilegt. Hverfið er mjög vestrænt og hérna verslar fólk í Vero Moda og drekkur Starbuck’s kaffi einsog ekkert sé. Sá hluti sem ég hef séð af Beirút er mjög vestrænn. Hlutfall kristinna er hærra hér í borginni en í öðrum hlutum landsins og klæðaburður og útlit fólks er mjög vestrænt.

En svo getur maður farið í ferðir einsog ég fór í í dag. Ég fékk leigubíl til að keyra mig að Þjóðminjasafni Líbanons. Þar ber að líta samansafn af mögnuðum fornmunum, sem spanna gríðarlega langa sögu búsetu í þessu landi. En á leiðinni sá maður líka að hérna í borginni er ástandið ekki eðlilegt. Hvað eftir annað þurfti leigubílstjórinn að breyta útaf leiðinni, þar sem að vegir voru lokaðir af hernum. Ég sá örugglega um 10 skriðdreka í varðstöðu og tugi hermanna með Ak-47 riffla gæta ákveðinna borgarhluta.

Ástandið er enda býsna ótryggt. Það má segja að landsmenn skiptist í tvo hópa. Annars vegar þá sem styðja ríkisstjórnina, sem er hlynnt Vesturlöndum (Kristnir, Súnníar og Drúsar) og samanstendur af stjórnmálaflokkum, sem eru á móti Sýrlandi. Hins vegar stjórnarandstöðuna, sem er leidd af Hezbollah (shítar) og studd af Sýrlandi og Íran.

Stjórnarandstæðingar hafa haft sig til í tjöldum nálægt miðborginni þar sem mótmæli þeirra hafa staðið yfir í nær tvö ár. Ástandið er slíkt að landið hefur verið án forseta í marga mánuði, þótt að vonir standi yfir að hann verði kosinn 13.maí. Þessi mótmæli stjórnarandstæðinga hafa hins vegar gert það að verkum að hinn gullfallegi miðbær Beirútar (sem var kölluð París suðursins fyrir einhverjum áratugum vegna miðbæjarins), sem var eyðilagður í borgarastríðinu og endurbyggður eftir það, stendur nú auður. Ég fór þangað í dag eftir safnaferðina og þar blasti það sama við. Það var leitað á fólki til að komast að aðaltorginu, Nejmeh, og það torg var nánast tómt. Allir túristarnir farnir og flestum kaffihúsum hefur verið lokað. Auk mín og örfárra annara Líbana og túrista voru aðallega vopnaðir hermenn. Þvílík synd að enginn skuli njóta þessa ótrúlega fallega miðbæjar lengur.

Þrátt fyrir að margir séu hræddir um að stjórnmálaástandið hérna versni enn frekar, þá eru líka margir sem vonast til þess að Líbanir hafi lært af fyrri reynslu og að ástandið leiði ekki frekari hörmungar yfir þessa þjóð.

* * *

Það reyndist ekkert alltof auðvelt að komast hingað til Líbanon. Ég hafði skipulagt flugin mín mjög þétt og þegar ég frétti á Keflavíkurflugvelli að ég gæti ekki tékkað farangurinn minn alla leið var ljóst að það væri mjög hæpið að ég myndi ná fluginu til Beirút. Ég lenti á Heathrow um 50 mínútum áður en flugvélin til Beirút átti að leggja af stað. Ég fékk að skipta um sæti og var því fremst í velinni þegar að hún lenti og hljóp í gegnum flugvöllinn, í gegnum vegabréfatékkið og að farangursbandinu. Þaðan stökk ég svo uppá næstu hæð að BMI desk-inu þar sem mér var sagt að ég væri of seinn. Ég spurði þá hvort að ég gæti tekið bakpokann minn með sem handfarangur og mér var sagt að það væri sjens. Þannig að ég hljóp með stand-by miða í átt að öryggistékkinu.

Þar sem þetta var um kvöld var ekki mikið að gera. Bakpokinn var alltof stór til að komast fyrir í grind sem er notuð til að mæla stærðir sem eru leyfðar í handfarangur. En einhver ótrúlega vinalegur starfsmaður rétti mér þá poka, sem ég gat notað til að taka stærstu hlutina úr pokanum, svo að ég gat troðið honum í grindina. Mér var svo hleypt í gegn og þá tók við 5 mínútna spretthlaup útað hliðinu, þar sem ég komst á einhvern merkilegan hátt rétt áður en fluginu var lokað.  Ég naut sennilega góðs af því að vera ljóshærður því að ég var ekkert sérlega traustvekjandi kófsveittur með fjóra poka í fanginu, þar af einn glæran plastpoka fullan af vökvum.

* * *

Ég lenti Beirút klukkan 5 um morguninn og eftir að hafa dílað við flugvallar-leigubílstjóra (sem eru einhver al-leiðinlegasta stétt manna í fátækari löndum heimsins) þá komst ég inná hótel í Hamra hverfinu í vestur Beirút.

Gærdaginn notaði ég svo í labb um Hamra hverfið og Corniche, sem er gatan sem liggur meðfram Miðjarðarhafinu alveg niður að Pigeon Rocks, þar sem ég slappaði af og tók myndir.

Um kvöldið ákvað ég svo að rannsaka það sem margir Beirútar-búar eru stoltir af, það er djammið.  Ég tók leigubíl niður að Gemayzah hverfinu, þar sem ég rölti á milli pöbba.  Fór svo uppá Rue Monot, sem er frægasta djamm-gatan í Beirút og eftir smá pöbbarölt þar fór ég svo aftur niður á Gemayzah, þar sem ég endaði inná bar sem var blessunarlega laus við hallærislega bandaríska tónlist og spilaði þess í stað dúndrandi arabískt popp.  Þar sötraði ég á Almaza bjór og spjallaði við innfædda.  Endaði svo kvöldið á því að láta barþjón hella yfir mig bjór, sem olli því að ég fékk allan bjórinn frítt.

Á morgun ætla ég svo til Baalbek, sem er um tvo tíma frá Beirút.  Ég ætla svo að gista hér í Beirút aðra nótt og halda svo norður í átt til Tripoli.

Skrifað í Beirút, Líbanon klukkan 19.23