Minn seðill í prófkjörinu

Ég ætla að kjósi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Svona mun minn seðill líta út:

Einsog greinilegt er á seðlinum þá tel ég endurnýjun vera nauðsynlega.

 1. Jóhanna Sigurðardóttir
 2. Helgi Hjörvar
 3. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
 4. Valgerður Bjarnadóttir
 5. Anna Pála Sverrisdóttir
  Anna Pála er eina manneskjan á þessum lista sem ég þekki persónulega og ég hef áður skrifað um stuðning minn við hana.
 6. Jón Baldvin Hannibalsson
  Ég tel að mikilvægasta málið á næsta kjörtímabili sé innganga í ESB.  Ég treysti engum betur til að fylgja því málefni eftir en Jóni Baldvini.  Hann hefur þó gert margt undanfarin ár sem hefur fellt hann af þeim stalli, sem ég hafði hann á þegar ég var yngri.
 7. Skúli Helgason
 8. Pétur Tyrfingsson

Ég tel að Ingibjörg Sólrún hafi algjörlega brugðist síðan að síðasta ríkisstjórn var mynduð.  Fyrir það fyrsta þá gaf hún strax eftir mikilvægasta málið að mínu mati, aðild að ESB.  Í öðru lagi gaf hún eftir bæði forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið til Sjálfstæðisflokksins og tók í staðinn utanríkisráðuneytið þar sem hún gerði lítið gagn.  Við skipan í ráðherrastóla horfði hún svo algerlega framhjá manninum, sem að flokksmenn höfðu kosið sem varaformann flokksins og hundsaði síðan skilaboð kjósenda í prófkjöri í Kraganum.  Mér hugnast ekki slíkt vald formanns í Jafnaðarmannaflokki.

Í aðdraganda fjármálakreppunnar gerði Ingibjörg lítið nema að verja bankana.  Sem formaður annars stjórnarflokksins var hún í einstöku hlutverk til að gera eitthvað í aðdraganda kreppunnar, en því hlutverki brást hún.  Einnig virðist hún hafa haldið viðskiptaráðherra algjörlega utan við alla alvöru fundi um alvarlega stöðu mála.  Varla veit það á gott þegar að traust hennar á samstarfsfólki er svo lítið.

Ingibjörg hefur svo lítið gert á meðan að nafni Baugs-veldisins var ítrekað klínt á Samfylkinguna, okkur hefðbundnum flokksmönnum til lítillar gleði.

Hlutverk Samfylkingarinnar í bankahruninu er auðvitað ekkert í líkingu við hlutverk Sjálfstæðisflokksins.  En fyrrverandi ríkisstjórn brást hins vegar ásamt Seðlabanka og Fjármálaeftirlitun algerlega sinni skyldu.  Í því eiga fjórir ráðherrar væntanlega mesta sök: Ingibjörg, Össur, Geir og Árni.  Þeir tveir síðastnefndu hafa vikið.  Ég tel það hlutverk okkar í Samfylkingunni að sjá um að hin tvö víki líka.  Annars hefur flokkurinn ekki gert upp þetta hrun og enga ábyrgð á því tekið.

Ingibjörg Sólrún hefur síðustu ár verið einn af mínum uppáhalds stjórnmálamönnum.  En hún brást svo algerlega öllum sínum skyldum í aðdraganda hrunsins að hún hreinlega verður að víkja.  Hún hefði átt að viðurkenna sína ábyrgð og víkja sjálf.  Yfirmenn Seðlabanka, Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa allir vikið.  Hún er eini aðilinn sem er eftir og hefur enga ábyrgð tekið.

8 thoughts on “Minn seðill í prófkjörinu”

 1. Þú nefnir að ESB umsókn sé forgangsatriði í næstu ríkisstjórn. Þar er ég hjartanlega sammála þér. En ég treysti Ingibjörgu Sólrúnu best til þess að sjá um að svo verði. Mér finnst fráleitt að 17 mánaða dvöl með Sjálfstæðisflokk eigi að slá af okkar besta stjórnmálamann si svona. Þú villt Ingibjörgu í burtu en samt seturðu á listann tvo af nánustu samstarfsmönnum hennar og aðalráðgjöfum, Skúla Helgason og Jóhönnu Sigurðardóttir.

  Ef Samfylking hefði gert kröfu um aðildarumsókn að ESB við myndun síðustu ríkisstjórnar hefði ekkert samstarf orðið að raunveruleika. Út frá því má deila um hvort Samfylking átti yfir höfuð að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokk.

  En þetta er að sjálfsögðu rétthátt viðhorf að ISG víki til að Samfylking axli sína ábyrgð. Næsti landsfundur verður mjög merkilegur og óhætt er að segja að Ingibjörg verður að berjast fyrir framtíð sinni sem leiðtogi Samfylkingar. Það mun ekki koma á silfurfati.

  Ég mun í það minnsta styðja hana. Ef hún á að víkja. Þá eiga svo margir aðrir að víkja. Það verður lítið eftir af okkar reynsluboltum ef það verður raunin.

 2. Vona sannarlega að almenningur í Samfylkingunni sé á svipaðri skoðun og síðueigandi.

  Ísland þarf öfluga Vinstristjórn og Ingibjörg Sólrún og Össur Skarphéðinsson hafa algjörlega brugðist þjóðinni. Við verðum að fá þau burt til að vel takist til og þar sem þau sjá ekki sóma sinn í að hætta sjálf þurfum við að kjósa þau út.

 3. Rétt að ítreka að aðalatriðið í þessu öllu saman er auðvitað að Sjálfstæðismenn komist ekki til valda næstu 20 árin á meðan þjóðfélagið verður endurreist.

 4. Eins og talað frá mínu hjarta,- átt það til að vera alveg ótrúlega skynsamur drengur ” )
  Ég reyndar myndi vilja sjá Dofra þarna inni. Hitti hann í fyrsta sinn á þingi UJ um helgina, og hann vann sér alveg inn virðingu mína. Var eini frambjóðandinn sem kom í þeim tilgangi að hlusta á hugmyndir unga fólksins, – allir hinir frambjóðendurnir voru í yfirborðskenndum pr leik, birtust með falska brosið og drottningarveifið í 10 mín, þóttust vera áhugasamir en nenntu ekkert að hlusta.
  En góða ferð til Fransí, bið að heilsa landinu fagra.

 5. Pétur Tyrfingsson er bara afdankaður kommúnisti sem lítið hefur lært á langri ævi þó hann geri sitt besta til að leyna því.

  Nú hefur kallgreyið gripið til þess ráðs að ritskoða komment á bloggi sínu til þess að einginn geti nú komið upp um hann…

Comments are closed.