Mitt atkvæði í Reykjavík

Það hefur að mörgu leyti verið frábært að flytja aftur til Reykjavíkur. Ég hef oft ætlað að setjast niður og skrifa um upplifun mína og hvað ég er ánægður með en vegna ótrúlegra mikilla anna í vinnu og hefðbundnu heimilislífi þá hef ég einhvern veginn aldrei haft almennilegan kraft til að koma hugsunum mínum á blað.

Ég var frekar stressaður yfir því að flytja frá Stokkhólmi aftur heim, en það voru nokkrir hlutir sem gerðu mig bjartsýnni fyrir flutningunum. Ég elskaði að skoða Instagram hjá fólki sem er úti í náttúrunni allan ársins hring, sem fer á fjallaskíði í maí og labbar á önnur fjöll í skítaveðri í október. Og ég fylltist von þegar ég hlustaði á fólkið í meirihlutanum í Reykjavík tala um hvers konar borg þau vildu sjá, því það er nákvæmlega borgin sem ég vil sjá líka.

Á morgun eru kosningar og því finnst mér ég verða að segja eitthvað. Ég hef ekki haft sérstaklega mikinn áhuga á íslenskri pólitík síðustu ár en ef ég er sannfærður um eitthvað þá er það að meirihlutinn í Reykjavík er að gera borgina miklu betri og ég vona svo heitt og innilega að þau fái stuðning til að halda áfram.

Í Stokkhólmi gat ég hjólað í vinnuna alla daga. Það var ekki alltaf þannig. Fyrstu árin eyddi ég morgnunum ofaní neðanjarðarlest, sem er alls ekki svo spennandi ferðamáti. Þegar ég flutti frá Södermalm hélt ég áfram að nota lestina þangað til að ég prófaði einn dag að hjóla í vinnuna, sirka 6 km leið (sem minnkaði niður í 4km þegar við fluttum). Ég byrjaði að hjóla í góðu veðri og smám saman áttaði ég mig á því að ég gat hjólað nánast alla daga ársins. Í skítaveðri fór ég í regngalla og buxur og ég setti svo nagladekk á hjólið. Þá fáu daga sem ég þurfti að keyra bílinn inná Södermalm og bíða í umferðarteppu við Liljeholmsbron fann ég fyrir smá örvæntingu um að svona myndi líf mitt vera þegar ég myndi flytja heim.

Það gaf mér samt von að það virtist vera fullt af kláru fólki sem vildi reyna að breyta Reykjavík úr alltof dreifðri borg með of mörgum bílastæðum og umferðarteppum yfir í borg þar sem hægt er að komast um með strætó, labbandi og hjólandi. Þar sem byggð er þétt og mannlífið er frábært.

Eftir að ég flutti heim hef ég hjólað eða labbað leiðina í vinnuna, sem er 3,2 kílómetrar. Vissulega nýt ég góðs af því að búa í hinum frábæra Laugardal, en ef ég teikna á kortið svipaða vegalengd frá stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, þá gætu allir íbúar vesturbæjar, 101, Hlíðanna, Háaleitis og hluti Fossvogs farið þangað leið sem væri svipað löng. Þannig að ég er alls ekki í einstakri stöðu. Það að ég hef gengið og hjólað í vinnuna á hverjum degi hefur haft svo ótrúlega jákvæð áhrif á mitt líf eftir að ég flutti heim. Meira að segja vont veður verður einhvern veginn mun auðveldara að glíma við þegar maður er vel klæddur úti í stað þess að sitja inni í bíl.

Núverandi meirihluti vill halda áfram að bjóða fleirum uppá þá möguleika á að búa á eftirsóknarverðum svæðum, sem er frábært. Ég vil sjá meira fólk í Laugardalnum og meira fólk í miðbænum. Ég vil sjá borg þar sem fleiri geta labbað og hjólað í vinnuna sína.


Það er fullt af sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem bjóða fólki uppá úthverfalíf þar sem þú þarft einkabíl til að fara útí matvörubúð. Ég þekki fulltaf fólki sem býr í einbýlishúsum í Garðabæ eða Kópavogi, þar sem 2-3 einkabílar á heimili þykja eðlilegur hlutur. Þau elska að búa þar.

En Reykjavík ein getur boðið uppá borgarlíf og því þurfum við að kjósa fólk sem vill sjá borgarlíf í Reykjavík, en vill ekki bara sjá greiða bílaumferð útum allt í gegnum líflaus hverfi.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna á morgun. Dagur B er frábær borgarstjóri, en einnig eru á listanum fólk einsog Birkir Ingibjartsson og Hjálmar Sveinsson, sem kveikti áhuga minn á skipulagsmálum fyrir mörgum árum. Ég fíla líka fullt af fólki á lista Viðreisnar og Pírata (Dóra oddviti er frábær), þannig að þið megið kjósa þá lista líka. En helst samt Samfylkinguna.

Reykjavík er að verða að frábærri borg og hún er svo miklu betri núna en þegar ég flutti í burtu fyrir 13 árum. Ég elska þessa borg og vil sjá meiri borg og betri borg. Borg sem líkist bestu borgum í Evrópu í stað bílaborga í Bandaríkjunum.