Mögnuð skrif á Pólitík.is

Svo ég spyrji svona útí loftið: Er engin ritstjórn á Pólitík.is? Ég veit að ég gæti hringt í einn mann og fengið svar við spurningunni, en ég verð bara að fá að hneykslast opinberlega.

Á sú síða ekki að vera málefnalegt pólitískt vefrit á vegum Ungra Jafnaðarmanna? Ef svo er, af hverju fá þá svona greinar: [Dvergur hittir dverg](http://politik.is/?id=1182) að komast í gegn?

Greinin fjallar um átökin í Ísrael og Palestínu og það þarf engan speking til að sjá hverrar skoðunnar greinarhöfundur er. Hann er fullkomlega sannfærður um að Ísrael og Bandaríkin hafi ekki neitt nema slæmt fram að færa og því skrifar hann af þvílíkri fyrirlitningu fyrir leiðtogum og skoðunum þessara landa.

Greinin byrjar svona (feitletranir mínar):

>Í gær hitti **líkamlegi dvergurinn** Ariel Sharon **andlega dverginn** George W. Bush í arfaskógi þess síðarnefnda í Texas.

Í fyrsta lagi, hvað græðir greinarhöfundur á að gera lítið úr stærð Ariel Sharon eða gáfnafari George Bush? Varla er það ætlun hans að reyna að sannfæra þá óákveðnu í þessu máli, þar sem slík ummæli gefa varla í skyn að það sem á eftir fylgi sé skrifað af hlutleysi. Enda eru ummælin, sem fylgja í kjölfarið, ekki mikið málefnalegri eða til þess fallinn að efla málstað greinarhöfundar:

>Bush virtist gefa Sharon autt landakort og segja ,,gjörðu svo vel, taktu það sem þú vilt”.

>…

>Geta menn, sem hafa sannfært heimsbyggðina að þeir séu **geðveikir stríðsæsingamenn** (nú veit ég að **Gísli Marteinn og klíkan** er ekki sammála mér, en það er ekki hægt að gera öllum til geðs)

>…

>Af hverju er Bush allt í einu að banna **dvergunum frá Ísreal** að byggja meira og íta þar með undir ófriðarbálið?

>…

>Bandaríkin hafa það að mörgu leyti í hendi sér að koma á skikkanlegu ástandi milli Ísrael og Palestínu. Ég vona að þegar **dvergarnir** taka upp símann og hringja upp (**annar í gegnum Jesú, hinn er með beina línu**) þá verði þeim tilkynnt að ef þeir ekki hlusti í þetta skipti þá verði afleiðingarnar skelfilegar. **Guð kunni nefnilega líka dvergakast!**

Pólítísk vefrit eiga ekki að þurfa að sökkva oní slíkar lægðir að uppnefna andstæðinga sína. Það eru nóg málefnaleg rök til gegn stefnu Ísraelsríkis án þess að það þurfi að grípa til svona barnalegra ummæla. Ef þetta á að líðast á þessu vefriti, þá er ekki nokkur ástæða til þess að búast við öðru en að það muni hér eftir teljast gjaldgengt að gera grín að stærð eða ummáli íslenskra stjórnmálamanna í stað þess að nýta skrifin til þess að gagnrýna skoðanir þeirra á málefnalegan hátt.

[Þetta](http://politik.is/?id=1182) er ekki fyndið, þetta er ekki málefnalegt og þetta hæfir ekki opinberu vefriti Ungra Jafnaðarmanna!

14 thoughts on “Mögnuð skrif á Pólitík.is”

 1. Ég er þér hjartanlega sammála hér. Þrátt fyrir að ég sé ekki hinn mesti aðdáandi U.J. hvað þá politik.is þá finnst mér þetta ekki hæfa þessu annars ágæta félagi. Þetta eru virkilega ómálefnaleg skrif og ætti frekar að líta á þetta sem listræn skrif í ljósi líkingamálsins sem mikið er imprað á, sem slík væru þau ágæt frá því sjónarmiði.

  En burtséð frá þessari grein. Þú nefndir um daginn að þig langaði til að fara út á skemmtanalífið og dansa salsa og etc. Hvað er því til fyrirstöðu að þú gerir það? málið er að ef maður er ósáttur við að eitthvað sé ekki til, er þá ekki bara best að búa það til? Hvernig væri að þú héldir þá bara þitt eigið “salsa-partý” ? Amk virðist þú eiga þína traustu áhangendur hér á síðunni sem virðast deila sömu lífshugsjónum og þú. Þau myndu áreiðanlega mæta 🙂
  Og einnig væri mjög sterkur leikur að bara prufa næst þegar þú ferð út að bjóða einhverri skvísunni upp í dans og sýna frumkvæði. Ekkert breytist ef ekkert er gert.

  íslenskt skemmtanalíf, rétt eins og lífið sjálft, er allt það sem maður vill að það sé og meira til

 2. ja nú hitti skrattinn ömmu sína.
  ef mig mismynnir ekki var Michael Moor í miklum metum hér á þessari síðu ekki alls fyrir löngu. sem er vissulega ágætt mál. Að mínu mati er það eina sem Bush vantar, rauða trúðanefið. Hvað sem kann að vanta í Sharon er svo annað mál og öllu flóknara, það föttuðu bara Nasistarnir, og jú allir hinir sem ekki hafa þorað að viðurkenna það. en hvað kemur þetta málinu við? vefrit ungra jafnaðarmann?, bíddu HA? átti nú einhver von á öðru en gríni þaðan.

 3. Sæll og bless

  Já, ertu móðgaður. Það er nú svei mér skemmtilegt!

  Reyndar hafði ég ekki gert mér grein fyrir hversu fyndin greinin var fyrr en ég las hana aftur.

  Þegar mér var bent á það að það væri reiður maður úti á neti að bíða eftir mér þá kveikti ég undir rétttrúnaðarkatlinum og hélt út í óvissuna, staðráðinn í því að berja á hinum vantrúuðu.

  En ég get að ekki lengur. Ég hef svo oft verið alveg innilega sammála innleggjum eins og þínum.

  Ég held hreinlega að ég sé kominn með svo yfirdrifið ógeð og orðinn svo vonlaus í hinu absúrtíska máli sem miðausturlandadeilan er að það er ekki hægt að nálgast hana á nokkurn annan hátt en frá annaðhvort gamansömu sjónarhorni eða absúrdísku (og þá oft ofið við myndbirtingarlegt) samhengi.

  Það er nóg af fólki út í heimi sem er að springa úr gáfum í sambandi við þetta mál. Ég veit til dæmis ekki hvað ég er búinn að lesa mikið um þetta mál í gegnum árin en blaðsíðurnar skipta örugglega þúsundum. Það er líklega ekkert stærra mál sem þessari deilu tengist sem ég veit ekki um. Og því fannst mér upplagt að skrifa um þetta mál á gamansaman hátt, svona til þess að sleppa aðeins frá gáfunum…

  Ég er ekki að reyna að dylja því að mér finnst það ansi hæpið að Bandaríkjamenn komi að lausn þessa máls þar sem þeir hafa öðrum fremur stuðlað að henni í gegnum árin. (samanber ályktanir öryggisráðsins og ítrekaðar tilraunir þeirra til þess að stöðva samningaviðræður).

  Að kalla Bush og Sharon stríðsæsingamenn getur varla talist til frétta þar sem annar er nýbúinn að leggja Írak í rúst á meðan hinn hefur ansi hreint blóðuga sögu þá sérstaklega í sambandi við fjöldamorð á kristnum í Líbanon um miðjan áttunda áratuginn. Sú skoðun mín að stríðaæsingamenn séu geðveikir er nú heldur ekkert einsdæmi og nefni ég þar Hitler sem dæmi (þar sem það er ekkert absúrd, fyndið eða umdeilt um það).

  Að annar sé dvergur að vexti kemur vissulega því ekkert við hvort hann sé hæfur til þess að tala við annað fólk en ekki frekar en það er ljótt að segja risavaxinn þá er ekkert að því að kalla fólk eftir stærð, jafnvel þó það sé dvergvaxið – eins og Sharon.

  Um gáfnafar Bush þá tek ég hér með aftur að hann sé andlegur dvergur og skila þeim titli aftur til Dickens. Ég skil afstöðu þína þar sem þú telur þetta ekki vera málefnalegt og er þér algerlega sammála. Það er ljótt að uppnefna fólk og þar sem Bush er í raun bara sérlega illa upplýstur, heimóttarlegur og umlukinn fólki sem stendur honum mun framar á hugsanasviðinu þá er ljótt að vera að uppnefna hann og mun ég aldrei gera það aftur á Pólitík.is. ég lofa því!

  Sérstaklega er ég sjokkeraður á mér þar sem ég hef lengi haldið því fram að það sé alveg stórhættulegt að vanmeta Bush og þá sérstaklega fylgismenn hans. Því þó að hann stígi nú kannski ekki endilega í vitið (sem margir halda fram að skipti nú ekki öllu máli en ég er ekki sammála, maður er með puttann á hinum gleymda kjarnorkuhnappi, og það er ekki staður fyrir vanvita, úps sorry, þá sem erfitt eiga uppdráttar) þá er fólkið í kringum hann margt af því greindasta og mest upplýsta í heiminum. Sem náttúrulega gerir það óskiljanlegt hvering það kemst að þeim niðurstöðum sem það kemst að um heiminn en látum það liggja milli hluta.

  Varðandi Gísla Martein þá reyni ég að vara við honum hvar sem ég get þar sem ég tel hann og fylgismenn hans vera þá allra hættulegust á hægri væng stjórnmálanna og það að svona menn skuli hafa svona mikið innlegg í orðræðunni er hverju lýðræðissamfélagi skaðlegt. Því treð ég honum alltaf inn til gamans og til alvöru.

  Varðandi Jesú og beinu línuna þá skil ég að þetta hafi sært bligðunarkennd hinna trúuðu. Og sé það svo biðst ég forláts. Þarna var ég vissulega að vitna til þess að samkvæmt trúarsetningum annars mannanna sem um ræðir þá er Jesú tengiliðurinn við guð (og hefur í sjónvarpi lýst honum sem þeim manni sem hann leiti mest til og vilji helst líkjast) og hjá hinum er því þannig farið að hann tilheyrir trúarhópi sem ekki er sammála trúarsetningum kristinna manna og eru ennþá að bíða eftir frelsaranum. Þangað til tala þeir beint við guð.

  Það hlýtur að vera í lagi, sé maður á annað borð að fjalla um einstaklinga að velta fyrir sér örlögum þeirra, að spá fyrir um það hvernig fari fyrir mönnum sem ganga þvert gegn eigin trúarsetningum. Og til að gera það þá verður maður að ganga út frá þeirra trúarsetningum en geyma sér sínar eigin. Og samkvæmt þessari forskrift þá hlýt ég að komast að því að þessum mönnum verður refsað harðlega. Dvergakastið var vissulega tilraun til að setja hina eilífu refsingu þeirra í kómískt samhengi og í samhengi við þann ósmekklega húmor sem fram hafði verið settur.

  Enda þetta svo á innilegri afsökunarbeiðni. Ég sé það núna að það borgar sig ekki að vera fyndinn heldur skal maður beygja sig undir alvöruþrunga lífsins og skýra frá af trúfestu, einfeldni og einurð. Því þannig og aðeins þannig getur heimurinn orðið að betri stað!

  Þakka þér fyrir að benda mér á það.

  Þorleifur

 4. Til að byrja með, þá skil ég ekki hvað hrifning mín á Michael Moore hefur með þetta að gera, Einar. Ef það er ekki lesendum ljóst, þá er ég nú [ekki mikill aðdáandi George Bush](http://www.eoe.is/gamalt/2004/10/16/19.52.12/index.php), síður en svo. En ég get einnig fundið milljón leiðir til að gagnrýna George Bush án þess að uppnefna hann hálfvita.

  Þorleifur, takk fyrir svarið. Ég er nú ekkert sérstaklega reiður eða móðgaður, heldur finnst mér einfaldlega að svona skrif eigi ekki heima á vefriti UJ. Einnig get ég ekki séð hvað sé svona skemmtilegt við að ég sé móðgaður, nema að það hafi verið sérstakur tilgangur þín í upphafi að móðga þá, sem læsu greinina.

  Ég er fyrst og fremst vonsvikinn yfir svona skrifum á þessari síðu. Ástæðan fyrir því að ég er vonsvikinn yfir er að aðhlynnist að vissu leyti sömu kenningar og margir, sem þar skrifa.

  Vel má vera að þú hafir verið að reyna að vera fyndinn, en sá húmor fór framhjá mér. Það hefði verið hægt að gera grín að þessari deilu á ótal vegu, án þess að einskorða grínið við vaxtalag eða gáfnafar leiðtoganna. Sú afsökun að þetta hafi verið grín er einnig dálítið einföld. Á sama hátt gæti ég skrifað pistil um að Davíð Oddson væri hálfviti og afsakað svo þau skrif með því að það hafi nú bara verið létt djók.

  Einnig var þessi afsökunarbeiðni þín nú ekki mjög innileg (þótt þú hafir sérstaklega tekið fram að hún hafi verið innileg), þar sem þú fylgir henni með kaldhæðnislegri athugasemd og gefur í skyn að ég kunni ekki að meta húmor í pólitískum skrifum. Það er víðsfjarri sannleikanum. En húmorinn þarf einfaldlega að felast í einhverju öðru og meira en að uppnefna málsaðila. *Það geta allir uppnefnt, en það geta ekki allir verið fyndnir.*

  Annars var ég nú ekki að biðja um afsökunarbeiðni. Skoðun mín á UJ breytist ekki við þetta, en það er hætta við því að ef svona skrif yrðu normið á pólitík.is að viðhorf einhverra til flokksins og þeirra samtaka myndu breytast.

 5. ég er alveg sammála gagnrýni á ritstíl þessarar dvergakastgreinar. mér finnst þeir sem skrifa illmælgi um andstæðinga sína gera lítið úr sjálfum sér, þetta verður ekki til að sannfæra neinn um að orðræða þeirra sé yfirveguð og hófstillt, þvert á móti þá virkar svona orðræða eins og frumstæð tilraun til særinga og kukls – eins og fólk haldi að með því að gera lítið úr andstæðingnum, smætta hann og berja hann saman í dverg þá muni hann hverfa eða minnka niður í ekki neitt.

  Það er mjög auðvelt að kljást við svona orðræðu og auðvelt að henda þetta á lofti og henda aftur í þann sem segir – alveg eins og búmerang hjá frumbyggjum Ástralíu. Það er hallærislegt að stunda dvergakast hvort sem það er í verkum eða orðum.

 6. Jæja…

  Uppnefna er eitthvað sem maður gerir í barnaskóla og það er þannig sem ég upplifi að þesi mál séu meðhöndluð. Af hverju ekki þá að skrifa um það á þeim nótum, nóg er af hinu.

  Einnig er gott til þess að vita að siðferðispostular taka sig til af og til og láta okkur hin vita hvernig og hvað við eigum að skrifa.

  Sérstaklega er gaman að lesa svör þar sem ekki er tæpt á því sem haldið var fram heldur bara setið í fýlu út í horni og frussað, sem einmitt er það sem maður gerir í barnaskóla.

  Já, allir í skóla, held ég nú bara!

  Þorleifur

 7. Frábærlega málefnalegt svar! Að svara gagnrýni á uppnefningar með því að uppnefna mig “siðferðispostula”. Það hlýtur þó að teljast magnaðasta nafnbót, sem ég hef fengið.

  Ég skal þó taka fram að mér myndi ekki detta í hug að gagnrýna málfar á bloggsíðu þinni, en annað á við um pólitík.is. Ef þú ætlar þér hins vegar að gera skrif á vel lesnar síður að reglulegum hlut ættirðu að læra að taka uppbyggilegri gagnrýni af karlmennsku (sorrí, Salvör) í stað þess að tala um að þeir, sem gagnrýni þig séu “í fýlu útí horni”. Það er svo fjarri sannleikanum. Það hjálpar ekki málstað þínum að gera lítið úr gagnrýnendanum.

  Ég er ekki að láta þig vita hvernig þú *eigir* að skrifa heldur einfaldlega að benda á að þegar þú skrifar á vefrit fyrir stóran stjórnmálaflokk, þá er betra að skrifa á málefnalegan og uppbyggilegan hátt um málefnin, í stað þess að grípa til þess að uppnefna andstæðinga þína og þá, sem gagnrýna skrif þín.

  Annars fannst mér Salvör svara þessu best: “Það er mjög auðvelt að kljást við svona orðræðu og auðvelt að henda þetta á lofti og henda aftur í þann sem segir – alveg eins og búmerang hjá frumbyggjum Ástralíu.”

  Það er einmitt málið. Ef þú ætlar að skrifa svona greinar, jafnvel þar sem málstaður þinn kann að vera 100% réttur, þá er einfaldlega svo auðvelt að gagnrýna skrif þín og hrekja þau. Það finnst mér slæmt, því við styðjum sama stjórnmálaflokk og því erum við eflaust oft sammála um málefnin. 😉

 8. Sæll

  Ég svaraði bara eins og efni voru til. Þú komst ekki með neitt nema fýlu og þá hélt ég bara uppteknum hætti. Og geri það áfram.

  Ég tek gagnrýni vel almennt en ekki þegar hún kemur úr svona fýlilegri átt. Og það sem þú kannski áttar þig ekki á er að það sem fram kemur hér að ofan er ekki málefnaleg gagnrýni að þinni hálfu heldur fýlugjarnt múður og mun persónulegra en efni standa til.

  Það er þess vegna sem ég nenni ekki að standa í því að skrifast á við þig af alvöru því að þú ert greinilega sú manngerð sem er með allt á hornum sér.

  Ég nenni ekki að standa í því að hrekja einhverjar persónuárásir sem þú frussar hérna inn en áður en þú ferð að gera lítið úr mér þá skaltu hugleiða að ég hafði það eitt að leiðarljósi að grínast aðeins með málefni sem alltaf er fjallað um af mikilli alvöru og þunga. Það ER að taka afstöðu.

  Siðferðispostular eru þeir sem ákveða hið “rétta” í hverju máli eða aðstæðu (eins og þú ert að gera hér) og því er það ekki uppnefni heldur réttnefni.

  Stílinn kemur frá myndlíkingunni sem ég tók seinast í síðasta svari (hafirðu lesið það) og því skil ég ekki hvernig það á að hafa móðgað þig. (Sem reyndar virðist ekki vera neitt sérstaklega erfitt).

  Ég tel mig hafa fullan rétt til að skrifa hvers kyns pistla á Pólitík.is og skrifa til skiptis lærða og leikandi pistla. Í þetta skipti langaði mig að skrifa leikandi og satt best að segja þá er mér alveg slétt sama þó þú hafir ekki húmor fyrir því. En það dregur ekki úr málefninu, skoðununum eða alvöru málsins að gera svo. Hvað þá að skrifa það sem flýgur í gegnum hugann á manni þegar maður sér þessa fanta brosa og takast í hendur. Af hverju ekki að teigja það og toga, grína og drulla yfir? Af hverju ekki?

  Var hallgrímur Helgason að ljúga þegar hann kallaði Davíð hálfgeðveikann? Eða hefði hann átt að halda sér á mottunni?

  Má kannski ekki skrifa um að Dabbi hafi verið heppnari með krabbatíma en Halldór. Halldór hafði ekkert getað notfært sér hann á meðan gat troðið Írak yfir á hinn sjúklinginn.

  Það er nóg af fólki sem er alltaf tilbúið að segja manni hvað má og hvað ekki. Hlustar svo ekkert á annað fólk og trúir eigin oðrum í blindi. Ég á því miður ekki samleið með þessleiðis fólki, þrátt fyrir að það sé í sama flokki og ég.

  Góðar stundir.

  Þorleifur

 9. Jæja, mér tekst eflaust ekki að sannfæra þig frekar. Mér þykir það þó magnað að þú teljir gagnrýni mína vera “persónuárásir”. Það er með hreinum ólíkindum og víðsfjarri sannleikanum. Þú kallar mig siðferðispostula og að ég sé í fýlu vegna þess að ég gagnrýni, en leyfir þér svo að flokka gagnrýni mína á skrif þín, sem “persónuárásir”. Ég nefndi þig ekki einu sinni með nafni í gagnrýninni, svo vart geta þetta talist persónuárásir. Ég hefði gagnrýnt þetta á sama hátt, sama hver hefði skrifað.

  >Siðferðispostular eru þeir sem ákveða hið “rétta” í hverju máli eða aðstæðu (eins og þú ert að gera hér) og því er það ekki uppnefni heldur réttnefni.

  Ég er ekki að ákveða hið rétta, ekki frekar en að þú gerir hið sama. Ég hef ákveðna skoðun, þú hefur ákveðna skoðun. Við getum þrætt um það án þess að þú grípir til þessa ráðs að kalla mig nöfnum, hvort sem þau séu upp- eða réttnefni. Samkvæmt skilgreiningu þinni á siðferðispostula á það viðurnefni alveg jafn vel við þig og við mig. En mér dettur samt ekki í hug að kalla þig nöfnum.

  >Það er nóg af fólki sem er alltaf tilbúið að segja manni hvað má og hvað ekki. Hlustar svo ekkert á annað fólk og trúir eigin oðrum í blindi. Ég á því miður ekki samleið með þessleiðis fólki, þrátt fyrir að það sé í sama flokki og ég.

  Ég held að þér væri nær að kynna þér hvað ég hef skrifað og hvað ég stend fyrir áður en þú slengir slíku fram, þar sem þú virðist trúa því að ég tilheyri þessum hópi.

  Það eina, sem ég hef gagnrýnt hérna er að þú notar uppnefni í pólitískri grein. Fyrir það er ég kallaður siðferiðspostuli, fýlupúki og gefið í skyn að ég hlusti ekki á aðra og trúi eigin orðum í blindni. Það þykir mér afar ósanngjarnt. :confused:

 10. Sæll enn einu sinni

  Nú fór ég fram úr mér, þetta var fullhart kveðið í svarinu hér að ofan.

  Ég skil vel hvað þú átt við varðandi greinina á pólitík.is og þó svo að ég sé ekki sammála þér þá hef á (eins og ég tók fram í svari 1) oft staðið mig að verki sjálfur við að þykja hitt og þetta ekki sæmandi hinu og þessu.

  Mér finnst burtséð frá allri hótfyndni og skotum meiðandi fyndni vera eina svar manns við þessum hildarleikjum sem eiga sér stað út í heimi. Hildarleikjum sem maður getur einhvernveginn ekki gert neitt við eða haft áhrif á.

  Stundum er það eins og smyrls á sárin að uppnefna menn eða gera grín að.

  En ég tók það líka fram og stend við að mér finnst ég geta gert það þar sem ég bæði þekki málið vel og hef margsinnis skrifað um það. Þetta er eins og laxness sagði, maður þarf að kunna tungumálið til þess að geta farið að leika sér með það.

  Einnig er ég ekki sammála því að einhverjar greinar eigi eða eigi ekki heima inn á pólitík.is. Til þess þyrfti hún að skipta um stíl. Ég hef meiraðsegja lagt það til við ritstjórann að hann taki mig af pennaskrá þar sem ég skrifa um nákvæmlega það sem mér sýnist á þann hátt sem mér sýnist. Meðan það eru formerkin þá held ég því áfram. ég gæti líka vel skrifað pólitískar greinar hefði ég hug á því (og geri stundum ef þú vilt kynna þér það) og ef síðan krefðist þess. En þar sem ákveðið var að þetta yrði síða þar sem ungir jafnaðarmenn tjái sig um hvernig þeir skynja umhverfi sitt þá standa mín skrif þar.

  SVona til gamans má geta þess að ég hef lengi verið að vinna að greinabálki um yfirvofandi efnahagslegt hrun Bandarríkjanna. Það eru greinar sme miklu meiri vinna fór í þessi sem hér er til umræðu en engu að síður hefur hún vakið mun minni athygli en þessi hér (þo hin snerti ísland mun meira en þessi) og því mætti færa rök fyrir því að grein sem þessi skili jafnvel meiri árangri en grein sem vel er orðuð, rökstudd og innan allra velsæmismarka.

  En eins og ég segi þá fór ég fram úr mér í svarinu hér að ofan og í því tilviki biðst ég raunverulega forláts.

  Bestu kv,

  Þorleifur

  PS: Það virðist oft vera þannig með karlmenn að þeir þurfi að pústa áður en þeir geta farið að tala saman… humm…

 11. Þakka þér fyrir mjög gott svar. Það er eflaust rétt að við þurfum oft aðeins að pústa áður en við hlustum 🙂

  En annars, þá verður fróðlegt að lesa greinar þínar um “yfirvofandi efnahagslegt hrun Bandarríkjanna”. Ég bíð spenntur. 🙂

 12. Sæll og bless

  Þú getur fundið fyrstu 2 á politik.is undir heitinu hið hnignandi veldi.

  Það eru svo 4 eftir, og reyndar átti greinin umdeilda að verða sú þriðja en mér gafst ekki tími þar sem slík grein krefst mikils undirbúnings.

  En kíktu á hinar.

  Þorleifur

 13. Það er naumast.

  Ég vildi bara koma á framfæri að réttara væri að gagnrýna ritstjóra pólitíkur.is heldur en pistlahöfundinn. Altso fyrir þá staðreynd að þetta birtist á pólitík.is – höfundur getur svo verið gagnrýndur fyrir texta, stíl, innihald etc. Ritstjórinn bregst þeirri ábyrgð sem hann ber, væntanlega í umboði stjórnar UJ, ef hann birtir “óviðeigandi” greinar með einhverju móti. Þetta er ekki lesendabréf eða blogg, heldur pólitískt málgagn (Ungra jafnaðarmanna). Ritstjórinn er ábyrgur fyrir birtingunni, höfundur hefur bara þessa “skoðun” eða “sýn” og getur í sjálfu sér lagt hvað sem er fyrir ritstjóra til birtingar, rétt einsog hann getur sent inn hvers kyns texta sem aðsenda grein í Moggann. Ritstjórar vefrita gera oft of lítið úr eigin ábyrgð. Þannig er t.d. Einar Örn *ábyrgur* fyrir öllum þeim kommentum sem hér birtast.

Comments are closed.