Múrsrökleysa

Í dag skrifar Steinþór Heiðarsson ágætis grein á Múrinn um illmennið Efrain Rios Montt, fyrrum herforingja í Guatemala.

Steinþór endar hins vegar greinina á þessari málsgrein:

Margir fyrrverandi skjólstæðingar og bandamenn Bandaríkjahers í Mið- og Suður-Ameríku munu trúlega fylgjast með máli Efraín Ríos Montt af nokkurri athygli. Ef til vill mun Alvaro Uribe, núverandi forseti Kólumbíu, líka hafa augun opin. Bardagaaðferðirnar sem Kólumbíuher hefur tekið upp eftir að bandarísku „hernaðarráðgjafarnir“ komu honum til hjálpar í hernaðinum gegn FARC minna ónotalega á gereyðingarstríðið í Guatemala svo ekki sé meira sagt.

Hérna kastar Steinþór fram þeirri fullyrðingu að aðferðir Alvaro Uribe, forseta Kólumbíu líkist að einhverju leyti fjöldamorðum á óbreyttum borgurum í Guatamala 1982-1983.

Má ég biðja um rök fyrir þessari fullyrðingu?

Ég held að Steinþór sé dálítið blindaður af einhverri rómantískri ímynd af glæpafélaginu FARC, sem voru einu sinni Marxískir hugsjónamenn, en geta núna ekki kallast neitt nema morðingjar og glæpamenn. Barátta Uribe gegn þessum glæpamönnum hefur verið harkaleg á stundum, enda svífast FARC liðar einskins. Margir vinstri menn eru með veikan blett fyrir skæruliðahreyfingum í Suður-Ameríku. En menn verða að kunna að gera greinarmun á frelsishreyfingum líkt og Zapatistum í Mexíkó og glæpasamtökum líkt og FARC.

Það að líkja erfiðri baráttu Uribe við ósvífin glæpasamtök, saman við fjöldamorð á þúsundum óbreyttra borgara er fáránlegt.