Netvarp

Það er hreint magnað hvernig hlustun mín á tónlist og annað útvarpsefni hefur breyst á undanförnum árum. Í stað þess að hlusta á útvarp allan daginn þá hlusta ég nú mestmegnis á iPod-ana mína.

Í stað þess að treysta á útvarpsstöðvar fyrir uppgötvun á nýrri tónlist þá leita ég nú aðallega á netmiðla og treysti meðmælum frá vinum og bloggurum sem ég treysti.

En ég get ekki bara hlustað á tónlist allan daginn. Ég eyði allavegana um klukkutíma á dag í líkamsrækt og auk þess talsverðum tíma í bílnum mínum. Ég er hins vegar löngu búinn að komast að því að íslenskt útvarp hentar mér ekki. Ég get hlustað á nokkra þætti, en líkurnar á að ég sé í bílnum á þeim tíma sem þeir eru í gangi, eru litlar. Einu þættirnir sem ég hlusta reglulega á eru Spegillinn á Rás 2 og svo morgunþátturinn á FM957, sem er mjög krefjandi útvarpsefni fyrir mig klukkan 7 á morgnana.

En í staðinn fyrir íslenskt útvarp nota ég gríðarlega mikið netvarps-þætti (podcast) í iTunes. iTunes forritið sér um að ná reglulega í nýjustu þættina sem ég er áskrifandi að og svo færi ég þá yfir á iPod-ana mína þegar ég uppfæri efnið á þeim. Það er gríðarlegt magn af efni þarna úti sem er þess virði að hlusta á. Þetta eru þættirnir sem ég er áskrifandi að (tenglar eru yfir á iTunes síðu fyrir viðkomandi þátt)

[This American Life](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=201671138). Ég get hreinlega ekki ímyndað mér að það sé búinn til betri útvarpsþáttur í þessum heimi en This American Life. Ira Glass (sjá mynd) og félagar hjá Chicago Public Radio senda einu sinni í viku út þennan þátt. Í hverjum þætti er tekið fyrir ákveðið þema og sagðar sögur af fólki sem tengist þemanu. Þættirnir geta verið fyndnir, sorglegir, spennandi eða fræðandi. **Mæli með þessum þáttum fyrir alla.**

[Real Time with Bill Maher](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=98746009). Áður var ég ávallt að baksa við að downloada ólöglegum útgáfum af þessum sjónvarpsþætti. En svo sá ég að þátturinn gefur út hljóðið á netvarpi ókeypis. Þátturinn virkar nánast alveg jafn vel sem útvarpsþáttur. Hinn vinstri sinnaði Bill Maher tekur á bandarískum stjórnmálum á gamansaman hátt. Frábær þáttur og nauðsynlegur fyrir þá sem hafa áhuga á bandarískum stjórnmálum.

[Left, Right & Centre](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=73329771). Vikulegur útvarpsþáttur þar sem nokkrir spekingar spjalla um bandarísk stjórnmál. Þessi þáttur ásamt This Week með George Stephanopoulos halda manni aðeins inní bandarískum stjórnmálum.

[MacBreak Weekly](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=179237749). Ég er Apple nörd og þetta er þáttur fyrir Apple nörda. Fínar samræður milli nokkra sérfræðinga um allt sem tengist Apple.

[The Football phone-in 606](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=129584472). Umræður um enska boltann.

[From our own correspondents](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=73331209) er frábær þáttur á BBC þar sem að fréttaritarar stöðvarinnar útum allan heim senda inn sögur af reynslu sinni í löndum þar sem þeir eru staddir. Frábær þáttur til að fá fréttir af hlutum sem rata ekki inní hefðbundna fréttatíma.

Þetta er það sem ég hlusta á. Enn sem komið er standa íslenskir aðilar sig illa í að senda út netvörp, en það er vonandi að það batni með tímanum. Með því gætu þeir náð miklu betri útbreiðslu en bara með því að treysta á að fólk stilli inná stöðina þeirra á ákveðnum tíma á ákveðnum dögum.

6 thoughts on “Netvarp”

  1. Kemur á óvart að þú hlustar ekki á neinn þátt um Amerískar íþróttir. Beautiful Game er að mínu viti líka gott podcast um enska boltann ef þú hefur ekki heyrt það og svo er PTI alger nauðsyn á hverjum degi.

  2. Sko, ég reyndi PTI – en ég gafst uppá því eftir smá tíma. Þar var of mikið um háskóla-íþróttir, sem ég hef takmarkaðan áhuga á (fyrir utan náttúrulega Big Ten) – allavegana í þeim þáttum, sem ég hlustaði. Ef þeir fjölluðu bara um Bears, Big Ten, NBA og MBL þá gæti það verið í lagi.

    Hef ekki hlusta á Beautiful Game

  3. Sæll nafni,

    ég hlustaði á This American Life í dag, snilldarþáttur. Veistu hvort/hvernig maður geti nálgast eldri þætti?

Comments are closed.