Prófaðu að hjóla í Reykjavík!

Þegar ég hugsaði til þess að flytja aftur til Reykjavíkur eftir meira en áratug í Stokkhólmi þá var ég ákveðinn í því að detta ekki inní sama pakkann og ég var í áður en ég flutti út – ég vissi alltaf að við myndum vilja eiga bíl, en ég ætlaði að reyna að takmarka notkun á honum eins mikið og ég gæti.  Því ég veit ekkert sem gjörsamlega tæmir alla gleði og orku úr mínum líkama einsog að sitja inni í bíl í umferðarteppu.


Fyrstu árin í Stokkhólmi áttum við ekki bíl – við bjuggum á Södermalm og ég notaði neðanjarðarlestina til að koma mér í vinnuna og á milli veitingastaða en eftir nokkur ár keyptum við okkur gamlan Volvo station bíl.  Þegar við fluttum í úthverfin rétt hjá Södermalm bjuggum við fyrst svo langt frá lestarstöðinni og leikskólanum að ég keyrði krakkana á bíl á leikskólann, lagði bílnum þar og tók svo lestina niður í bæ.

Í Covid var fólk hvatt til að nota ekki lestarnar og þá byrjaði ég á því að hjóla í vinnuna á hverjum degi.  Ég byrjaði á þessu vorið 2020 þegar veðrið var gott og hélt því svo áfram í gegnum fyrsta Covid veturinn alla rigningardagana og setti nagladekk á í snjónum.  Ég tók þó lestina einhverja daga þegar veðrið var einstaklega leiðinlegt eða þegar ég þurfti að mæta á fundi lengra í burtu.  Einhverja daga keyrði ég svo bílinn inná Södermalm þegar ég þurfti á bílnum að halda í vinnunni.

Smám saman fann ég þó á mér hversu góð áhrif hjólatúrarnir höfðu á mig.  Ég byrjaði að hata það að sitja fastur í umferðinni á leið inná Södermalm eða í hitanum í lestinni.  Ég fann áþreifanlegan mun á skapinu þá daga sem ég byrjaði á því að hjóla þessa 4,5  kílómetra sem voru frá íbúðinni minni uppá skrifstofu.  Ég hjólaði alltaf á venjulegu hjóli á þokkalega rólegu tempói þar sem ég var alltaf í vinnufötunum á hjólinu.  Heitustu daga ársins var ég þó með auka bol með mér og fór í sturtu þegar ég kom á skrifstofuna en nánast alla aðra daga hjólaði ég í vinnufötunum mínum.


Þegar við fluttum heim í janúar á síðasta ári var ég viss um að ég yrði að reyna þennan lífstíl áfram.  Hjólið mitt kom með gám í mars og síðan þá, í rúmlega 18 mánuði, hef ég hjólað í vinnuna nánast á hverjum degi.  Til að byrja með hjólaði ég fyrst með litla strákinn minn í hjólavagni á leikskóla og svo í vinnu 4,5 kílómetra leið, en síðustu mánuði hef ég labbað með hann á leikskólann og svo hjólað úr Laugardal niður í miðbæ Reykjavíkur, sirka 3 kílómetra leið.  Alla fundi hjóla ég á, hvort sem þeir eru uppá Bíldshöfða eða í Kópavogi.  Ég hef hjólað í miklum snjó og rigningu en langoftast í alveg ljómandi fínu hjólaveðri.  Það voru kannski svona 5-10 dagar í vetur þar sem ég sleppti því að hjóla útaf miklum snjó.

Síðustu mánuðir hafa verið gríðarlega erfiðir í vinnu, sem hefur bæst oná stress sem fylgir því að flytjast á milli landa með þrjá krakka, sem þurfa að eignast vini og læra á nýtt umhverfi.  Ég leyfi mér að fullyrða að þessir 10-20 mínútuna hjólatúrar hvern morgunn og hvern eftirmiðdag hafa verið gríðarlega mikilvægir fyrir mig og hafa haldið hausnum á mér í lagi.


Ég er þeirrar skoðunnar að miklu, miklu fleiri ættu að hjóla í Reykjavík og ég ætla aðeins að skrifa um mína reynslu í þeirri von um að einhverjir, sem geta, prófi að hjóla meira.  Ég er fullviss um að gríðarlega stór hópur fólks gæti hjólað til vinnu á hverjum degi og þar með bætt sína andlegu og líkamlegu heilsu gríðarlega, ásamt því að bæta umhverfið.

Það er fullt af ykkur þarna úti – þið sem keyrið bíl í vinnuna 1-5 kílómetra af því að þið eruð sannfærð um að veðrið sé svo slæmt eða af því að þið haldið að þið þurfið bílinn í skutl eða eitthvað annað.  

Málið er að langflest okkar, sem erum að hjóla í vinnuna á hverjum degi, höfum líka prófað hitt – að keyra í vinnuna, en við veljum samt að hjóla.  Af því að það er einfaldlega miklu betra, þrátt fyrir veður og slæma stíga og allt hitt.  Já, ég veit að fulltaf fólki þarf á bíl að halda, en ég held samt að langflestir þurfi þess alls ekki.

Hérna eru mínir punktar.

Þú þarft ekki að velja milli bíls og bíllaus lífstíls!

Það er enginn að segja þér að þú þurfir að selja bílinn áður en þú prófar að hjóla í vinnuna.  Við eigum bíl á okkar heimili, sem við keyrum á í Bláfjöll og útúr borginni.  Konan mín notaði hann til að keyra í vinnuna síðasta vetur, þegar hún vann fyrir utan borgina. 

Haltu bílnum þínum, en prófaðu líka að hjóla.  Þú áttar þig kannski á að þú þarft ekki bíl eða að einn bíll dugar á heimilinu.

Prófaðu að hjóla í vinnuna nokkra daga – það er fínt að gera það núna þegar veðrið er gott.  Finndu hver munurinn er!

Þú þarft ekki dýrt hjól

Fyrir þokkalega fríska manneskju á góðum aldri á það ekki að vera neitt mál að hjóla 3-5 kílómetra í vinnuna.  Ég hjóla þessa túra á Specialized hjóli, sem ég keypti í Stokkhólmi fyrir ca 90.000 krónur.  Ég þarf ekkert meira en það – ég breytti um dekk fyrir einhverjum mánuðum og fór á aðeins þykkari til þess að þau væru ekki eins viðkvæm fyrir köntum.  Á Íslandi er auðvelt að fá sér nýtt hjól á 100.000 kall sem dugar í fjölmörg ár.  

Ef að ég byggi lengra frá vinnunni (á milli 5-15 kílómetra), þá myndi ég kaupa rafmagnshjól.  Þú getur ábyggilega prófað að fá slíkt lánað frá vini í einn dag og hjólað í vinnuna.

Fimm kílómetrar er rosalega stórt svæði. Hérna er til dæmis 5km radíus frá stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum. Innan þess ra´díus er allur miðbær, vesturbæ og meira að segja Seltjarnarnes! Svo er þarna allur Laugardalur, Vogahverfi og neðsti hluti Árbæjar ásamt stórum hluta Kópavogs.

Þessi vefsíða er líka frábært tól til þess að sjá hversu langt þú kemst á korteri á hjóli frá hvaða stað sem er. Prófaðu að setja þitt heimili þarna inn og sjáðu hvað þú getur labbað og hjólað.

Í sirka nóvember skipti ég svo yfir á nagladekk. Nagladekkin eru fyrir snjó og alla þessu frábæra hjóladaga þar sem hjólastígarnir eru með smá ís á. Fyrir utan hjólið þarf maður burðarpoka (sem kosta ca 25.000 kall parið) og lás.  Meira þarf ekki.

Veðrið er ekki svona ömurlegt!

Þetta er kannski stærsta ”vandamálið” sem að heldur fólki frá því að hjóla í Reykjavík.  Ég vil meina að fólk ofmeti þetta vandamál stórkostlega. 

 • Það að hjóla kemur þér í tengsl við veðrið.  Alveg kjánalega mikið af fólki í Reykjavík klæðir sig ekki eftir veðri, heldur notar bílinn sinn sem úlpu og pirrar sig svo á því að veðrið sé leiðinlegt í þessar 5 sekúndur sem líða á milli þess sem viðkomandi fer útúr húsi og inní bíl.  Ef þú klæðir þig með því hugarfari að þú getir verið úti í smá tíma, þá verður veðrið ekki svona pirrandi.  Engir hvítir strigaskór í snjósköflum eða blazer jakkar í rigningu og 2 stiga hita. Það gerir allan daginn auðveldari að vera í tengslum við veðrið og klædd eftir því.
  Það er hræðilegt að hlaupa inná leikskóla úr bílnum í stuttermabol í grenjandi rigningu, en ef maður er klæddur fyrir rigninguna þá er ekkert mál að hjóla í korter í sama veðri.
 • Ég hjóla í vinnufötunum, sem eru frekar casual.  Svo er ég stundum í vesti yfir og einhverju vatnsheldu sem ysta lagi.  Fyrir utan sumarmánuðina er ég með handska og húfu ef þess þarf (ég með Hövding uppblásinn hjálm).  Þetta dugar í 90% tilfella.  Ég á líka regnbuxur fyrir þá fáu daga þar sem lítur út fyrir að rigningin verði slæm og svo er ég með poncho í bakpokanum fyrir neyðartilfelli.
 • Veðrið er oft verst þegar þú ert inní bíl.  Þegar þú keyrir í rigningu á 80 kílómetra hraða þá hljómar rigningin hræðilega.  En þegar þú ert úti í henni, þá er hún oft alls ekki svo slæm.  Smá rigning á leiðinni heim er bara fín.
 • Veðrið í Reykjavík er að mörgu leyti fullkomið fyrir að hjóla.  Hérna eru engir dagar of heitir.  Ef ég væri að hjóla í vinnuna í Phoenix myndi ég aldrei geta hjólað í vinnufötunum þar sem ég myndi strax svitna svo mikið.  Hérna í Reykjavík get ég hjólað án þess að svitna.  Og fyrir þá sem svitna þá er það bara að skella sér í sturtu í vinnunni – það er ekkert stórmál.

Þú þarft ekki endilega bíl til að gera X

Svo er það allt annað sem fólk nefnir að það þurfi bílinn til að gera.  Fara í búðina, skutla krökkum og svo framvegis.

 • Fyrir það fyrsta er skutl á krökkum alltof mikið.  Ég veit að ég bý í frábæru hverfi til að sleppa við skutl, en ég líka viss um að fólk er alltof gjarnt á að skutla krökkum.  Ég er alinn upp í 1,2 km fjarlægð frá skóla og íþróttavöllum og labbaði þá leið alla daga, stundum oft á dag.  Fyrir átak í Laugarnesskóla sáum við að langflestir krakkarnir bjuggu í minna en kílómeters fjarlægð frá skólanum en samt voru mörg þeirra keyrð í skólann.  Krakkar þurfa oftast ekki skutl.
 • Ef krakkarnir eru enn á leikskólaaldri er auðvitað tilvalið að taka þau með á hjólið eða í vagn.
 • Ég fer í búðina oft í viku á hjólinu mínu án vandræða. Auk þess er hægt að fá hluti heimsenda.
 • Ég hugsa líka útí það hvar ég sæki þjónustuna.  Ég neyðist til að mynda einu sinni í viku til að heimsækja það bíla-helvíti sem Hlíðarsmára-hverfið er (þar sem öll bílastæði eru full af starfsfólki áður en fólkið, sem þarf að sækja þjónustuna, mætir), en fyrir utan það fer ég í klippingu, í matvörubúð og í aðra þjónustu þar sem ég get hjólað.

Gerðu þitt fyrir umhverfið og heilsuna!

 • Það að hjóla er frábært fyrir andlega heilsu, líkamlega heilsu og svo auðvitað fyrir umhverfið.  Það er frábært að anda að sér sjávarlofti á Sæbrautinni og sjá að maður er ekki að gera ástandið í borginni verra með því að sitja fastur í bílaumferð með ömurlegum afleiðingum fyrir borgina og umhverfið.

  Það að gera hluti fyrir umhverfið er ekki alltaf skemmtilegt.  Það er leiðinlegt að sleppa sólarlandaferð eða því að borða hamborgara fyrir umhverfið.  En það að skilja bílinn eftir til þess að hjóla er bæði gott fyrir umhverfið og líka skemmtilegt og frábært fyrir andlega heilsu.  

Nú er kominn sepember og það er að mörgu leyti fínn mánuður til að prófa að hjóla.  Prófaðu að hjóla í nokkra daga og sjáðu hvernig þér líður þegar þú mætir í vinnuna og heim úr vinnunni.  Ef þú finnur jafn mikinn mun og ég þá verður það ekkert mál að smám saman venja sig á það að hjóla líka í verra veðri og í allan vetur.

Ekki mikla þetta fyrir þér – kannski eru vandamálin með hjólreiðar óyfirstíganleg í þínu lífi.  Gott og vel.  En fyrir hina sem hafa hugsað með sér að þetta sé kannski hægt, þá hvet ég ykkur til að prófa. 

Það er einfaldlega ekkert sem núllstillir mann jafn vel í byrjun dags og á leið heim úr vinnu einsog það að fá nokkra mínútna hjólaferð í yndislegu íslensku veðri.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *