Ný debetkoramynd

Ég var að fá nýtt greiðslukort og fattaði þá að myndin af mér á kortinu er orðin frekar gömul. Ég var að reyna að átta mig á því *hversu* gömul hún er. Ég er enn með eyrnalokk á henni, en fyrrverandi kærastan mín kýldi úr mér síðasta eyrnarlokkinn (óvart þó) á þeim degi er ég útskrifaðist úr Verzló fyrir x árum síðan. Þannig að ég tippa á að ég sé 19 ára á myndinni.

Allavegana, ég ákvað í dag að þetta gengi ekki lengur og tók nýja mynd, sem ég ætla að setja í debet- og kredit kortin mín. Ég komst að því að ég hef breyst talsvert á þessum árum.


Fyrir þá, sem ekki fatta, þá er myndin til hægri þessi nýja 🙂

Semsagt, ég í kringum 1997 og ég árið 2005.


Annars fór ég í Apple umboðið í dag og keypti mér nýja [iLife](http://www.apple.com/ilife/iphoto/) pakkann og setti hann inná Makkann minn. Nýja iPhoto er algjört æði. Fékk líka þær fréttir að iPod-inn minn, sem hefur verið í viðgerð í heilar þrjár vikur, væri tilbúinn og ég gæti sótt hann á mánudaginn. Ég faðmaði næstum því afgreiðslumanninn þegar hann sagði mér þetta, enda hef ég saknað iPod-sins gríðarlega.


Mikið er gaman að tveir bloggarar, sem ég les daglega skuli blogga um það að hafa borðað Serrano [í](http://blauttuska.blogspot.com/2005/02/strhttulegt.html) [dag](http://www.orvitinn.com/2005/02/12/16.48/) 🙂

Fór annars í Kringluna í dag og skoðaði gleraugu. Mikið er ég svakalega gáfulegur þegar ég set upp gleraugu! Ætla að kíkja í aðra búð á morgun og ganga svo frá kaupum Það gengur ekki lengur að ég skuli sitja 1 metra frá sjónvarpinu þegar ég horfi á fótbolta.

Kristján Atli skrifar góðan pistil um það hversu mikil áhrif einn helvítis fótboltaleikur getur haft á mann. Að ímynda sér að Liverpool tap geti stuðað menn til að skrifa pistil sem heitir [Litlausir dagar einmanaleikans](http://jupiterfrost.blogspot.com/2005/02/litlausir-dagar-einmanaleikans.html). Ég fokking hata það þegar Liverpool tapar!


Sat á neðri hæðinni á Vegamótum í gær. Á Vegamótum er eitthvað almagnaðasta borð á íslenskum skemmtistað. Nefnilega borðið, sem er fyrir framan stóra spegilinn, sem fær staðinn til að líta út fyrir að vera helmingi stærri en hann er. Það borð tekur þrjá einstaklinga og þar á meðal situr einstaklingurinn í miðjunni beint fyrir framan spegilinn. Finnst fólki ekkert óþægilegt að sitja í því sæti? Ég var að velta þessu fyrir mér þegar ég leit sirka 30 sinnum um öxl á sæta stelpu, sem sat við það borð.


Mig langar að djamma, en grunar einhvern veginn að ég eigi eftir að eyða kvöldinu fyrir framan tölvuna við að reyna að klára verkefni, sem ég tók að mér fyrir einhverjum vikum. Það er ekki gott.

9 thoughts on “Ný debetkoramynd”

  1. Hehe … titillinn á greininni minni var kannski svolítið ýktur, og það eru fleiri hlutir sem valda en bara Liverpool-tap (eins og kærustuleysið, ég er ónýtur maður… ) :tongue:

  2. kristján: til hvers að vera ónýtur þótt þú eigir ekki kærustu?? er ekki bara málið að njóta þess að vera einn á meðan það varir??? 😉

    annars finnst mér þú hafa breyst rosalega einar! .. og yngst með árunum ef eitthvað er :confused:

  3. Þetta var gott tækifæri, það er rétt. En ég bara klikkaði algjörlega á því … ætlaði að hafa klikkað strákakvöld í gær og svona en endaði bara útá vídjóleigu. Sorglegt, en staðreynd.

  4. Kristján, Ég er alveg sannfærð um að eitthvað svaðalegt djamm liggur að baki kærustuleysis kvabbinu, 🙂 EF ekki þá ertu kominn í pakkann, vona bara þú hafir notað tækifærið og valið mynd sem kærastan hefði ekki nennt að horfa á..
    Einar, svo sammála þér með hann Illuga,,maðurinn er eitthvað að misskilja hlutverk sitt í þættinum.. reyndar finnst mér þau(spyrlarnir) öll hálf tilgerðarleg og misheppnuð.

  5. Alien vs. Predator … ekki séns að frúin hefði nennt að sitja yfir þeirri mynd! 😉

    Verst að hún olli katastrópískum vonbrigðum… :confused:

Comments are closed.