Nýtt heimili

Ég er búinn að vera frekar latur við að uppfæra þessa síðu undanfarið. Það er þó nóg búið að gerast í mínu lífi undanfarið. Ætli ég fari ekki að færa inn atburði síðustu daga á næstunni.

Einna merkilegast er að ég er fluttur inní nýju íbúðina mína á Hagamelnum. Hún er einmitt á efstu hæð og því voru flutningarnir mjög erfiðir. Ég flutti inn fyrir um þrem vikum og síðan þá hef ég verið smám saman að koma mér fyrir. Ég býst við að íbúðin verði orðin nokkuð góð eftir næstu helgi.

Ég hef komist að ýmsu í þessum flutningum. Aðallega því að ég verð seint talinn mikill iðnaðarmaður. Ég er til dæmis mjög lélegur að mála, ég get varla neglt nagla án þess að eyðileggja eitthvað og svo veit ég svo lítið um rafmagn að ég þarf að biðja vini mína að hjálpa mér að koma upp ljósum í íbúðinni. Þar, sem ég hef ekki druslast til að fá vin minn til að hjálpa mér, þá er íbúðin lýst upp af tveim ljósaperum. Það er ekki nógu gott.

Það er þó mjög gott að vera kominn hérna í Vesturbæjinn. Vissulega er það dálítið skrítið að búa einn eftir að hafa verið í sambúð svona lengi en það er í ágætis lagi, allavegana meðan maður hefur nóg að gera.

Mamma og pabbi eru að flytja um helgina og þegar það gerist þá fæ ég gamla sófasettið þeirra. Þá mun stofan hjá mér heldur betur batna, því hún er frekar tómleg þessa stundina. Þegar sófasettið er komið get ég sett upp öll ljós og allar myndir og þá ætti íbúðin að líta ágætlega út.

Annars er ég mjög sáttur við næsta nágrenni. Þegar veðrið er sæmilegt, einsog það hefur verið undanfarna daga, er hægt að labba niður í miðbæ á um 15 mínútum, sem er fínt, sérstaklega er það gott að spara sér leigubílaferð heim af djamminu.

2 thoughts on “Nýtt heimili”

  1. Ég var einmitt að hjálpa til við flutninga fyrir viku síðan, ofan af 4. hæð!!

    Það á að BANNA fólki sem kaupir sér íbúð á 4. hæð að kaupa sér harðviðar skenka og skápa af stærstu gerð. Svo framarlega sem það eru lítill stigagangur með ljósum í loftinu sem auðvelt er að brjóta :blush: og íbúðin er ofar en 2. hæð á fólk að kaupa eitthvað úr plasti, helst uppblásið :tongue:

  2. Jamm, ég er sammála. Bróðir minn sagði að ég væri sennilega versti flutningamaður í heimi, þar sem ég hefði rekið skrifborðið mitt 10 sinnum utan í vegg á leiðinni upp stigann. :confused:

Comments are closed.