Ó, Villi

Það sem mér dettur í hug eftir daginn:

  • Blaðamannafundurinn áðan hlýtur að vera tilgangslausasti blaðamannafundur sögunnar. Þvílíkt anti-climax eftir tæplega tveggja tíma bið.
  • Röksemdafærslan um að Villi hafi nú þegar axlað ábyrgð útaf því að klúðrið hans sprengdi gamla meirihlutann er með hreinum ólíkindum. Ég hlýt eiginlega að álykta að maðurinn viti ekki hvað það að axla ábyrgð þýðir. Spurning um að halda námskeið uppí Valhöll.
  • Villi “lenti” í þessu REI máli álíka mikið og fólk “lendir” í því að halda framhjá maka sínum.- Ég verð að viðurkenna að ég hef gaman af því að sjá Sjálfstæðismenn klúðra málunum trekk í trekk. Það hlakkar í hluta af mér því ég er sannfærður um að Samfylkingin mun vinnas stórsigur ef að Villi verður í framboði fyrir næstu kosningar, en svo er hluti af mér gráti nær yfir því að Ólafur F. og Villi muni stjórna borginni næstu tvö árin. Þetta verður ekki framfaraskeið.
  • Eru Sjálfstæðismenn alveg hættir að tala um glundroðakenninguna? 🙂
  • Talandi um Ólaf F, þá hefur Villa tekist hið ómögulega. Honum hefur tekist að gera Ólaf F að betri kost þegar að kemur að vali á borgarstjóra. Ef ég á að velja milli Villa og Ólafs, þá lítur Ólafur F ekki jafn hræðilega út og áður.
  • En niðurstaðan er samt sem áður sú að það er svo ótrúlega sorglegt að þessari ágætu borg, sem við búum í, skuli nú vera stjórnað af þessu fólki.

Við eigum betra skilið.