Ömurlegasta Evrópukeppni sögunnar

Menn geta deilt um gæði fótboltans sem var spilaður á EM 2012. Mér finnst Spánn hundleiðinlegt lið en aðrir eru að missa sig yfir því hvað það er skemmtilegt að horfa á þá senda stuttar sendingar sín á milli í 90 mínútur. Gott og vel.

Það sem er hins vegar óumdeilt er að þetta mót hefur verið sögulega ömurlegt fyrir mig og þau lið, sem ég held með.

Það er ágætt að halda utanum þetta.

Riðlakeppni

Ég hélt með tveim liðum. Holland tapaði hverjum einasta leik í keppninni. Svíþjóð tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var þar með dottið úr leik, en þeir náðu að vinna síðasta leikinn gegn Frakklandi, sem var smá sárabót, en sá leikur skipti engu máli.

Þannig að af leikjum sem skiptu máli þá unnu mín lið ENGAN leik. 0-5 er því staðan í leikjum talið.

8-liða úrslit

Í kjölfar þess að mín tvö uppáhaldslið voru dottin út þá hélt ég með Englandi og lýsti því yfir opinberlega. Fyrir það þá vonaðist ég samt til að Tékkar myndu senda heim Portúgal (sem ég þoli ekki), að Frakkar myndi taka Spánverja (sem ég er kominn með leið á) og ég vonaði frekar að Grikkir myndu taka Þjóðverja til þess að Englendingar gætu átt auðveldari andstæðing í 4 liða úrslitum.

Ekki einn af þessum leikjum fór einsog ég vonaði. 0-4 og því samanlagt 0-9 í leikjum talið fyrir allt mótið.

4-liða úrslit

Þarna vonaðist ég aftur til að Spánn myndi tapa og var kominn í þá furðulegu stöðu að styðja Portúgal með Pepe, Ronaldo, Nani og félaga. Í hinum leiknum var það svo mín helsta von Þýskaland, sem hlaut nú að taka Ítalíu. Ég lýsti því opinberlega yfir stuðningi við Þýskaland.

Niðurstaðan var sú að Spánn grísaðist til að vinna Portúgal í vítaspyrnukeppni og Þýskaland lék einhvern lélegasta leik sem ég hef séð þá spila. 0-2 niðurstaðan og því samanlagt 0-11.

Úrslitin

Óþol mitt fyrir Spánverjum á sér lítil takmörk og ég hélt því með Ítalíu í úrslitunum og lýst því yfir með nokkura daga fyrirvara, svo að aðrir gætu veðjað á Spán. Niðurstaðan var svo auðvitað spænskur sigur og til að toppa allt þá skoraði fokking Fernando Torres eitt mark.

Mér telst til að ég hafi horft á 12 leiki í þessu móti, sem að einhverju skipti fyrir mín lið. MÍN LIÐ UNNU EKKI EINN AF ÞESSUM LEIKJUM. Með öðrum orðum, ég hef ekki horft á einn einasta leik á þessu móti (fyrir utan tilgangslausan Svíþjóð-Frakklands-leik) án þess að verða fyrir vonbrigðum með úrslitin. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að toppa þetta mót.

2 thoughts on “Ömurlegasta Evrópukeppni sögunnar”

  1. Hahaha nú skil ég gremjuna. Karlgreyið. Nota bene, ég var að setja á Kop.is mína lofræðu um spænska liðið sem þú hatar svo mjög.

    0-12 í leikjum þar sem maður heldur með öðru liðinu er söguleg lægð. Þess vegna finnst mér betra að vera hlutlaus á þessum stórmótum.

Comments are closed.