Össur í World Class

Mig minnir að ég hafi einhvern tímann skrifað um það að ég óskaði þess að ungir þingmenn myndu tala (og hugsanlega blogga) einsog þeir væru í alvöru ungir, en ekki sextugir karlar í dulargervi. Mig langaði í blogg þar sem einhver þingmaður myndi viðurkenna að hann horfði á O.C. eða fyndist stelpan á hlaupabrettinu í World Class vera sæt.

Þetta er ekki alveg að gerast. Unga fólkið í pólitík heldur áfram að rembast við að vera fullorðið. Hins vegar er Össur Skarphéðinsson orðinn alvöru bloggari. Ekki svona leiðinlegur þingmannabloggari, sem bloggar bara um frumvörp og R-listann, heldur skemmtilegur bloggari sem segir frá þessu litla og skemmtilega í sínu lífi.

Hvaða þingmaður annar en Össur [myndi til dæmis þora að skrifa svona snilld](http://www.ossur.hexia.net/roller/page/ossur/Weblog/celebrity_spotting_i_world_class)?

>Í gær kom svo ég í World Class og sá að menn hópuðust á brettin fyrir aftan vörpulegan mann. Hann hafði valið sér ysta hjólið til að láta bera sem minnst á sér. Loksins- hugsaði ég spenntur. Ég var algjörlega viss um að Clint væri mættur á staðinn.

>Ég kannaðist við vangasvipinn á manninum. Mér fannst ég örugglega þekkja limaburðinn. Hjartað í mér sló hraðar. En það var einhver tilvistarangist sem speglaðist í augum hans – sem maður sá aldrei hjá Clint í gamla daga.

>Þá sá ég að þetta var enginn annar en Geir Haarde. Hann var búinn að missa svona 15 kíló og orðinn að kyntrölli! Angistarsvipurinn á honum var bara einsog svipurinn á sjálfum mér þegar ég er rekinn í strangt aðhald! Geir var ekki með gleraugun svo hann gat látið sem hann sæi mig ekki þegar ég vinkaði kumpánlega – til að liðið í kring sæi að ég þekki líka frægt fólk.

([via](http://strumpurinn.tripod.com/))

Það er einsog Össur hafi frelsast þegar hann tapaði kosningunum í sumar. Bloggið er fullkominn miðill fyrir menn einsog hann. Menn, sem nenna ekki að vera alvarlegir á öllum stundum og þora að segja það sem þeim finnst. Húrra fyrir honum!

Annars, þá sé ég aldrei Clint Eastwood í World Class. En það er sennilega enginn betri staður til að hitta fræga fólkið en í salnum í Laugum.

One thought on “Össur í World Class”

Comments are closed.