Ó nei!

Það er ótrúlegt hvað maður er fljótur að gleyma öllum góðu hlutunum þegar Liverpool tapar. Ég horfði á leikinn í dag og það var hörmung. Ég hefði frekar átt að eyða tímanum í að skera papriku á Serrano.

Mér finnst reyndar Liverpool alltaf tapa á Riverside. Ef ég man rétt, þá fékk Westerveld boltann í gegnum klofið í 1-0 tapi þar fyrir 2 árum. Nú var það Dudek, sem gerði mistök (reyndar fyrstu afdrifaríku mistökin, sem ég hef séð hann gera).

Það magnaðasta við þetta allt er dýrkun Gerard Houllier á Emile Heskey. Hann var á kantinum allan leikinn og gat ekki neitt. Ég var farinn að hrópa á Milan Baros en Houllier setti hann ekki inn fyrr en Liverpool voru komnir undir 5 mínútum fyrir leikslok. Ég vona að þetta verði ekki einn af þessum hrikalegu mánuðum fyrir Liverpool. Síðustu tímabil hafa þeir unnið alla leiki 8 mánuði ársins en svo tekið einn mánuð fyrir og tapað hreinlega öllu. Ef þeir forðast slíkan mánuð, þá verða þeir meistarar.

Jæja, ég verð því víst bara að drekka sorgum mínum og rölta svo niður í miðbæ.

Ó nei!

Það er ótrúlegt hvað maður er fljótur að gleyma öllum góðu hlutunum þegar Liverpool tapar. Ég horfði á leikinn í dag og það var hörmung. Ég hefði frekar átt að eyða tímanum í að skera papriku á Serrano.

Mér finnst reyndar Liverpool alltaf tapa á Riverside. Ef ég man rétt, þá fékk Westerveld boltann í gegnum klofið í 1-0 tapi þar fyrir 2 árum. Nú var það Dudek, sem gerði mistök (reyndar fyrstu afdrifaríku mistökin, sem ég hef séð hann gera).

Það magnaðasta við þetta allt er dýrkun Gerard Houllier á Emile Heskey. Hann var á kantinum allan leikinn og gat ekki neitt. Ég var farinn að hrópa á Milan Baros en Houllier setti hann ekki inn fyrr en Liverpool voru komnir undir 5 mínútum fyrir leikslok. Ég vona að þetta verði ekki einn af þessum hrikalegu mánuðum fyrir Liverpool. Síðustu tímabil hafa þeir unnið alla leiki 8 mánuði ársins en svo tekið einn mánuð fyrir og tapað hreinlega öllu. Ef þeir forðast slíkan mánuð, þá verða þeir meistarar.

Jæja, ég verð því víst bara að drekka sorgum mínum og rölta svo niður í miðbæ.

Ég og McDonald's

Já, gott fólk, föstudagskvöldin gerast vart meira spenanndi en kvöldið í kvöld. Ég var að vinna til klukkan 9 og síðan ég kom heim hef ég verið að þvo þvottinn (því þvottavélin í húsinu var frátekin alla aðra daga) og þrífa íbúðina. Ég hef nánast ekkert verið í íbúðinni undanfarið og því var hún farinn að líkjast svínastíu ískyggilega mikið. Núna er hins vegar allt komið í lag. Íbúðin er svo hrein að jafnvel mamma myndi geta kallað hana hreina.


Annars sá ég frétt á BBC um að McDonald’s séu að hætta með staði í einhverju Suður- Ameríku landi. Þetta eru náttúrulega stórtíðindi, aðallega fyrir mig. Ég get nefnilega státað af því stórkostlega afreki að hafa borðað á McDonald’s í öllum löndum Suður-Ameríku, það er Chile, Argentínu, Perú, Ekvador, Kólumbíu, Brasilíu, Venezuela, Paragvæ, Bólivíu og Urugvæ. Reynda hef ég ekki borðað á McDonald’s í Gíneunum og Súrínam en það geta nú vart talist alvöru lönd.

Ég hef aldrei skilið almennilega af hverju jafn fáir kunna að meta þetta stórkostlega afrek mitt. Til dæmis hefur enginn blaðamaður boðað mig í viðtal útaf þessu. Ég lagði mikinn metnað í að finna ávallt McDonald’s í öllum löndunum. Í Bólivíu vorum við Emil til að mynda komnir með svo mikið ógeð af mat innfæddra að þegar við komum loks til La Paz tókum við okkur rándýran leigubíl bara til að fara á McDonald’s. Þegar við komum svo til Úrugvæ hélt ég uppá þetta einstæða afrek með því að taka mynd af mér fyrir utan einn McDonald’s stað í Montevideo.

Ég man að þann dag leið mér loks einsog líf mitt hefði einhvern tilgang. Ég gat með stoltur sagt að ég hefði afrekað eitthvað, sem fáir munu nokkurn tímann afreka. Í framtíðinni stendur til að bæta við öllum löndum Mið-Ameríku við þetta afrek. Ég hef þegar borðað á McDonald’s í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó og því þarf ég bara að bæta við mig einhverjum 7-8 löndum til að hafa fullkomnað hið einstaka afrek að hafa borðað á McDonald’s í öllum löndum Ameríku. Ég veit allavegana að líf mitt hefur tilgang.

Hvað er ég eiginlega gamall?

Fyrir einhverjum tveimur mánuðum varð ég víst 25 ára gamall. Fólk virðist hins vegar eiga eitthvað erfitt með að trúa því.

Áðan var ég í afmælisboði hjá bróður mínum, sem er orðinn 40 ára gamall. Tengdamamma hans sagði að ég væri alveg einsog frændur mínir, synir bróður míns, en þeir eru 15 og 16 ára.

Fyrr á þessu ári ætluðum við Hildur á tónleika með Sigurrós, en þar var 18 ára aldurstakmark. Ég gleymdi skilríkjunum mínum og því vildu dyraverðirnir ekki hleypa mér inn því þeir voru ekki vissir hvort ég væri orðinn 18.

Í síðustu viku var ég í Ríkinu og var ekki með debetkortið mitt. Þar vildi konan ekki trúa því að ég væri jafngamall og ég sagði og hún virtist í raun í vafa um það hvort ég væri orðinn nógu gamall til að kaupa áfengi.

Hvað er að gerast?? Ég veit ekki hvort ég er orðinn nógu gamall til að vera ánægður þegar fólk heldur að maður sé yngri en maður er.


Allavegana, þá er ég að vonast til að ég þurfi ekki að vinna mikið um helgina. Það væri ágætt að fá smá hvíld frá Serrano. Maður hefur í raun ekki hugsað um neitt annað síðasta mánuðinn. Meira að segja þegar maður er ekki í vinnunni, þá eru allir að spyrja um staðinn, þannig að hann verður aðal umræðuefnið.


Já, og ég verð að segja að nýja Richard Ashcroft platan er alger snilld. Ég var afskaplega veikur fyrir Urban Hymns og á einhverjum tíma spilaði ég One Day ábyggilega hundrað sinnum á “Repeat”. Reyndar er ég núna í talsvert betra ástandi en ég var þá, þannig að ég verð ekki jafn dramatískur þegar ég hlusta á þessa plötu, en hún er samt góð.

Ég keypti mér líka Bent & Sjöberg og Afkvæmi Guðanna og finnst mér báðir diskar nokkuð góðir. Held að ég sé hrifnari af Afkvæmunum. “Þegiði” og “Rigning á heiðskírum degi” eru góð. Og svo er “Upp með hendurnar” náttúrulega hrein snilld. Á Bent & Sjöberg er “Kæri hlustandi” snilld. Einnig er “Fíkniefnadjöfillinn” gott.


Já, og svo eiga allir að kvitta undir hjá Dr. Gunna með Conan beiðnina. Annars er það mesti misskilningur hjá Dr. Gunna að Conan sé besti spjallþáttastjórnandinn. Staðreyndin er auðvitað sú að John Stewart, sem er með Daily Show á Comedy Central er kóngurinn. Þann þátt horfði ég á hverju einasta virka kvöldi útí Bandaríkjunum.

Serrano dagar 2-4

Þá eru hlutirnir á Serrano farnir að ganga mun betur. Byrjunarvesen er að mestu úr sögunni, þó að við eigum enn eftir að þjálfa eitthvað af hlutastarfsfólkinu. En allavegana, þá gengu gærdagurinn og dagurinn í dag mjög vel.

Traffíkin í kringum hádegið í dag var svakaleg og á tíma var biðröðin komin langt út fyrir staðinn. Á þeim tímapunkti ákváðu svo allir sölumenn landsins að koma í heimsókn til okkar á meðan ég var að rembast við að afgreiða. Til að toppa það, sprakk einhver leiðsla og Pepsi flæddi um öll gólf. Já, by the way, Pepsi Max verður vonandi komið á morgun eða miðvikudag, þannig að Ágúst gleðst vonandi þá.

Það er búið að vera ótrúlega mikið að gera. Nánast stanslaus traffík, þrátt fyrir að við höfum ekkert auglýst og að það er ekki einu sinni búið að tengja ljósaskiltið okkar. Það, sem gleður mig þó mest er að fólk virðist vera ótrúlega jákvætt varðandi matinn okkar. Ég var í afgreiðslunni í allan dag og þekkti ég að minnsta kosti 10-15 manns, sem voru að koma í annað skipti.

Annars er það fyndið að ég sá Ágúst Flygenring, stórbloggara, í fyrst skipti í dag. Allar myndirnar á heimasíðunni hans eru greinilega frekar gamlar (eða allavegan, þær sem ég hef séð) og því þekkti ég hann ekki í fyrstu. Hann var allavegana mjög ánægður og skrifar um það á síðunni sinni.

Einnig komu Kristján og Stella, en ég hef ekki hugmynd um hvernig þau líta út (þrátt fyrir að ég lesi síðuna þeirra). Stella skrifar líka vel um staðinn.

Serrano – Dagur 1

Jæja, okkur tókst að opna staðinn okkar í dag. Ég held að ég hafi sjaldan upplifað meira stress og vesen á einum degi.

Þetta byrjaði auðvitað á því að ég svaf yfir mig og var ekki kominn niður í Kringlu fyrr en kl. 8.30. Stuttu eftir að ég mætti kom maður frá Heilbrigðiseftirlitinu, sem var himinlifandi yfir eldhúsinu okkar og samþykkti reksturinn. Við stefndum upphaflega á að opna kl. 11 en það var fljótt ljóst að það myndi ekki takast. Það var vesen með rafmagnið, matseðillskiltin pössuðu ekki, eitt tækið var með bandarískri kló og svo tók miklu lengri tíma að elda matinn, heldur en við héldum.

Við ákváðum því að bíða aðeins róleg og settum okkur markmið að opna kl. 3. Þegar klukkan var rúmlega tvö ætlaði ég að testa búðarkassann en mér til skelfingar þá virkaði hann ekki. Hringdi strax í Kristján vin minn, sem kom undir eins en honum tókst ekki að laga vandamálið. Þannig að tíu mínútur í þrjú hringdi ég í Aco-Tæknival og bað um að senda mér mann eins fljótt og mögulegt væri. Rúmlega þrjú kom maður frá þeim og hann lagaði kassann. Við gátum því opnað hálf 4.

Til að byrja með klikkaði allt, sem gat klikkað. Neminn í peningakassanum bilaði og því læstist öll skiptimyntin inni. Því gátu fyrstu viðskiptavinir aðeins borgað með korti á meðan ég beið í biðröð í Íslandsbanka eftir nýrri skiptimynt. Það tókst þó og um hálf fimm var kassinn kominn í lag. Þá ákvað Emil að halda heim enda hafði hann vakað alla nóttina ásamt Borgþóri, sem var að setja upp rafmagsntæki.

Fyrstu tvo tímana gekk þetta heldur brösulega. Þannig að þeir viðskiptavinir, sem komu þá gætu verið eitthvað svekktir. Hins vegar þá lagaðist þetta fljótt og eftir 5.30 gekk þetta einsog í sögu og það var stöðug traffík. Reyndar var það svo í lok dags að við vorum búin með allan kjúkling og einhverjar tegundir af sósum.

Ég veit að ég sagði á þessari síðu að við ætluðum að opna klukkan 11, þannig að ég biðst velvirðingar hjá þeim lesendum, sem mættu svo snemma. Ef einhverjir eru fúlir, sendið mér póst.

Eins ef einhverjir hafa farið á staðinn og hafa einhverjar ábendingar, þá eru þær vel þegnar. Alla aðra hvet ég eindregið til að koma og prófa.

Serrano

Núna er klukkan að verða 2 um nótt og ég var að koma úr Kringlunni. Emil og Borgþór eru ennþá að vinna uppí Kringlu við að setja upp rafmagn, tengja ljós, vaska og fleira. Ég þurfti að fara heim að sofa til þess að geta meikað allan morgundaginn.

Allavegana, við stefnum ennþá á að opna staðinn klukkan 11.30 á morgun (í dag). Það verður fjör!

Nei! Bush er ekki Hitler!

Ármann Jakobsson skrifar á Múrinn fína grein um dauðarefsingu, sem er án efa einn mesti smánarblettur á Bandaríkjunum. Á mínum þrem árum meðal menntaðs fólks í því landi hitti ég ekki einn mann, sem var fylgjandi dauðarefsingu, en samt virðist alltaf meirihluti allra Bandaríkjanna vera fylgjandi refsingunni, sérstaklega eftir að mikið hefur verið fjallað um glæpi í fjölmiðlum.

En auðvitað gengur Ármann fulllangt í grein sinni. Hann stenst ekki freistinguna og líkir Bandaríkjunum á tímum Bush við Þýskaland á tímum Hitler. Hann segir:

„En þetta er glæpamenn,“ sögðu allir Þjóðverjarnir sem vildu ekki trúa því versta á Hitler á sínum tíma. Nákvæmlega sama hugarfar er á bak við hugmyndir Bushdýrkenda allra landa um afslátt á mannréttindum í nafni „stríðs“.

Ég vil endilega benda Ármanni (hann er ekki með email á síðunni sinni) á grein í The Guardian, sem mér fannst mjög góð. Hún heitir: Only one Adolf Hitler. Þar hvetur greinarhöfundur blaðamenn og stjórnmálamenn til að hætta að líkja Saddam, Sharon eða Bush við Hitler; Powell við Chamberlain og svo framvegis.

Ármann segir líka:

Ekki gengur það þó betur en svo að hvergi í heiminum er önnur eins morðalda og í Bandaríkjunum

Þetta er náttúrulega rangt. Manndráp eru auðvitað mun algengari víða í heiminum en í Bandaríkjunum. Til dæmis eru mun fleiri morð framin á Jamaíka, Venezuela og í Kólumbíu. Ég er hins vegar hjartanlega sammála honum í því að þyngri refsingar hafa ekki neikvæð áhrif á glæpatíðni.

Heiða og listin að vera ein(n)….og Twin Peaks

Ég rakst inná síðu hjá Heiðu, sem ég þekki ekki neitt. Hún skrifar ansi skemmtilegan pistil um hvernig á að njóta þess að vera einn.

Þar talar Heiða um það hvernig henni finnst oft skrítið að fara ein út. Það er vissulega ekki á hverjum degi, sem maður fer einn á tónleika eða kaffihús. Maður þarf að vera mátulega hugaður til að gera það.

Ég man þegar ég bjó í Mexíkó að fyrsta mánuðinn þekkti ég nánast engann. Ég vann með eldra fólki og ég bjó hjá einhverju leiðinlegu fólki, sem ég nennti ekki að hanga með. Þar, sem ég vildi ekki að hanga heima, fór ég smám saman að drífa mig út einn. Ég fór oft og fékk mér að borða einn á Taco Inn, þar sem ég las bara Newsweek í rólegheitunum og skrapp síðan einn í bíó. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en ég kunni bara ágætlega við þetta á endanum. Samt sem áður var lífið þó mun skemmtilegra þegar ég kynntist stelpunni, sem ég var með þar úti.

Hérna heima er þetta dálítið öðruvísi. Ég fór til að mynda í fyrsta skipti einn á tónleika þegar ég sá Maus á Grandrokk. Ég vissi að vinir mínir myndu ekki nenna að horfa á Maus og í stað þess að missa af tónleikunum ákvað ég bara að skella mér einn og ég sá ekki eftir því. Samt leið mér skringilega og ég var alltaf að spá í hvað aðrir væru að hugsa, líkt og Heiða talar um. Ég veit sjálfur að maður dregur ákveðnar ályktanir þegar maður sér fólk, sem er eitt að skemmta sér.

Annars talar Heiða (ég var í fyrsta skipti að sjá síðuna hennar) líka um að hún sé Twin Peaks aðdáandi. Ég elskaði Twin Peaks þegar þættirnir voru sýndir á Stöð 2 en ég man að ég var ávallt skíthræddur við að horfa á þá. Fyrir nokkru keypti ég mér fyrstu seríuna á DVD. Nóttina áður en ég ætlaði að byrja að horfa á þættina aftur fékk ég þá svakalegustu martröð, sem ég hef fengið lengi. Killer Bob var að ráðast á mig og einhvern veginn blönduðust aðrar David Lynch persónur saman við þetta. Eftir þessa martröð var ég bara hálf tregur við að horfa á seríuna og er ekki ennþá byrjaður á henni. Það fer samt að koma að því.