Ebay

Björgvin Ingi er að tala um Ebay uppboð á heimasíðunni sinni í dag. Ég sá þetta mál í fyrsta sinn á CNN um helgina að mig minnir. Á Ebay er nefnilega til sölu flekinn, sem Elian Gonzales á að hafa komið á til Bandaríkjanna.

Þarna er einnig hægt að kaupa teikningu eftir Elian. Hvar endar þessi vitleysa?

Tap og Eurovision

Það er nú ekki mikið að gerast núna. Það er nokkuð svekkjandi að vakna klukkan átta á laugardagsmorgni, fara í lest í klukkutíma niður í bæ á írskan bar og horfa svo á enska fótboltaliðið sitt tapa. Ekki gaman. Annars var ég að ná mér í íslenska Eurovision lagið á MP3. Lagið er ekki gott. Reyndar er það mjög lélegt. Ef við vinnum þá er heimurinn geðveikur.

Elian True

Dan vinur minn benti mér á þessa síðu, sem er alger snilld, Elian True. Þessi síða er sennilega enn fyndnari ef þú hefur séð auglýsingarnar, sem hún er byggð á. Þetta eru Whassup Budweiser auglýsingarnar, sem eru bestu auglýsingar, sem ég hef séð. Þær hafa verið sýndar hérna í Bandaríkjunum í vetur og verið gríðarlega vinsælar. Gaurarnir, sem leika í þeim eru orðnar stjörnur og Whasssup er orðin mjög algeng kveðja hérna. Til að sjá þessar frábæru auglýsingar farðu bara á Budweiser og smelltu Whassup

Ísland á netinu

Ég var eitthvað að leika mér á netinu þegar ég var í eyðu í dag. Mér datt í hug að leita upp Ísland á Google.com, sem mér finnst vera mjög góður leitarvefur. Allavegana þá númer 5 er þessi síða: I Like Iceland. Þessi síða er gerð af einhverjum gaur, sem segist elska Ísland án þess að hafa komið þangað. Mjög athyglisvert. Einnig er skemmtilegt að hann hefur link yfir á íslenska veðurspá. Ef ég væri að setja upp svæði, sem ætti að draga útlendinga til Íslands, þá væri veðurspáin það síðasta, sem ég myndi setja á þá síðu.

Framsóknarflokkurinn á netinu

Ég er búinn að eyða svo miklum tíma í að uppfæra ensku síðuna mín að ég get ekki uppfært þá íslensku, þannig að ég bendi fólki á ensku síðuna þar sem ég tala um lélegan tónlistarsmekk minn. Annars verður íslenska síðan ekki bara þýðing á þeirri ensku heldur verð ég oft með mismunandi umfjöllunarefni, þar sem ég held að fæstir Bandaríkjamenn hafi áhuga á að heyra álit mitt á Framsóknarflokknum

Gleðilega páska

Gleðilega páska.

Ég hef ekki mikið að segja enda gerist ekki mikið á páskunum. Hildur fékk þó páskaegg í póstinum og nýja Verzlunarskólablaðið, þannig að maður hefur eitthvað að gera því það er bannað að læra á páskunum.

Annars vil ég bara kvarta yfir því að það skuli ekki vera til annar í páskum hérna í Bandaríkjunum.

Aðalmálið hérna í Bandaríkjunum í

Aðalmálið hérna í Bandaríkjunum í dag er auðvitað Elian Gonzales. Í fréttunum í dag hafa verið stanslausar útsendingar frá Miami þar sem nokkur hundruð Kúbverskir flóttamenn hafa eitthvað verið að kvarta yfir því að lögunum hafi loksins verið framfylgt.

Langflestir bandaríkjamenn eru hlynntir því að Elian verði sendur aftur til Kúbu en minnihlutinn er nú oft mun háværari heldur en meirihlutinn. Núna í sjónvarpinu eru Miami ættingjarnir að væla yfir því að Elian hafi verið tekinn frá þeim. Ég get ekki mögulega skilið hvernig þeim finnst þau hafa rétt fyrir sér. Auðvitað á Elian að vera hjá pabba sínum. Að halda öðru fram er fáránlegt.

Þeir, sem eru fylgjandi því að Elian verði hérna áfram eru blindaðir af hatri sínu á Fidel Castro. Ég er enginn aðdáandi Fidel Castro en það er ógeðslegt að nota 6 ára gamlan strák til að sýna vanþóknun sína á honum.

Byrjun

Jæja, þá ætla ég að reyna að koma þessari heimasíðu minni á netið. Ég er búinn að vera að vinna í þessu síðustu vikuna og var núna að klára að setja upp reikning á Blogger. Þessi reikningur gerir mér auðvelt að uppfæra síðuna, vonandi á hverjum degi. Ég er undir áhrifum frá Björgvin Inga og Geir Fr. en ég er búinn að heimsækja síðurnar þeirra síðustu vikurnar og er þessi síða mín sett up á svipaðan hátt og heimasíður þeirra. Ég verð á þessari síðu með daglegar uppfærslur, hvort sem það verður um pólitík, sjálfan mig eða bara eitthvað, sem er að gerast. Ég vona að einhver hafi gaman af að lesa þessa síðu og ég vona að þú heimsækir síðuna aftur.