Þetta er búin að vera rosaleg vika. Ég er búinn að vera í þrem miðsvetrarprófum og einu skyndiprófi í þessari viku. Ég er búinn að komast að því að það er ekki gaman að vera inni og lesa hagfræði í þessum hita. Það er öllu skárra að liggja niðri hjá Michigan vatni og lesa rúsneska snilld.
Ég er búinn að vera í sögu Sovétríkjanna á þessari önn og er þetta einn skemmtilegasti tíminn, sem ég hef verið í hérna í Northwestern. Prófessorinn, Irwin Weil, er alger snillingur. Hann hefur kennt við moskvuháskóla og hann veit allt um Rússland. Hann var meira að segja viðstaddur útför síðasta keisarans. Ég hef lært gríðarlega mikið í þessum tímum. Kannski einna merkilegast er að ég hef sannfærst enn frekar um að það er ekki með nokkru móti hægt að afsaka voðaverk bolsjévika. Það er í raun óskiljanlegt að sjá fólk í kröfugöngum með Sovéska fánann.
Ég set ekkert útá það að fólk trúi ennþá á kommúnisma, en að lýsa stuðningi við stjórnarfar Sovétríkjanna er óskiljanlegt.
Bókin, sem ég las fyrir fyrsta prófið, Quiet Flows the Don, eftir Mikhail Sholokov er sennilega næstbesta skáldsaga, sem ég hef lesið. Eina bókin, sem er í meira uppáhaldi hjá mér er Hundrað ára Einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez.
jæja, nóg um bókmenntir, ég er farinn niðrí miðbæ Chicago.