SAT próf í Perú

Ágúst Fl. segir af TOEFL raunum sínum. Ég lenti sjálfur í nokkuð mögnuðu ævintýri þegar ég ætlaði að taka SAT prófið, sem er nauðsynlegt til að komast inní bandaríska háskóla.

Þetta gerðist allt í desember 1998. Þá var ég á ferðalagi með þrem vinum mínum um Suður-Ameríku. Ég var búinn að senda inn allar háskólaumsóknirnar mínar og það eina, sem ég átti eftir að gera, var að mæta í SAT prófið. Ég var búinn að bóka mig í próf í Lima, höfuðborg Perú.

Prófið var á laugardagsmorgni í skóla í úthverfi Lima. Á fimmtudeginum fórum við félagarnir frá Arequipa í Perú með lest upp til Puno, sem er bær við Titicaca vatn. Titicaca er hæsta stöðuvatn í heimi og (að mínu mati) einn af fallegustu stöðum í Suður-Ameríku. Við fórum í bátsferð um vatnið og gistum svo á einni af eyjunum, sem heitir Amantani. Við gistum þar eina nótt og svo á föstudeginum áttum við að fara aftur að Puno, en ég átti pantað flug til Lima klukkan hálf sex. Bátsferðinni seinkaði hins vegar og því vorum við ekki komnir til Puno fyrr en klukkan 4. Þar stökk ég úr bátnum, kvaddi vini mína og fann mér leigubíl. Ég sagði bílstjóranum að keyra eins hratt og hann gæti til Juliaca, sem var dágóðan spöl frá Puno.

Leigubílstjórinn tók mig á orðinu og keyrði einsog argentískur leigubílstjóri alla leið til Juliaca. Þegar ég kom á flugvöllinn var ekki nema um korter í brottför og fyrir framan AeroPeru borðið var heljarinnar biðröð. Mér var sagt að þetta væru stand-by farþegar, sem myndu bara fá miða ef einhver mætti ekki. Ég fór því og talaði við öryggisvörð. Hann sagði mér að ég hefði mætt of seint og því væri miðinn minn ógildur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu og hélt áfram að röfla í honum en hann gaf sig ekki. Hann gafst á endanum uppá mér og fór eitthvað í burt. Ég nýtti þá tækifærið og stökk undir afgreiðsluborðið og inná einhverja skrifstfou. Þar voru einhverjar konur, sem sögðust ekkert geta gert.

Ég ákvað því að miðla til vorkunnsemi þeirra og sagði þeim mína sögu. Þannig var að ef ég mætti ekki í SAT prófið, þá kæmist ég ekki inní háskóla (þetta var síðasti sjens að taka SAT). Ég sagði þeim svo átakanlega sögu um það hvernig öll mín framtíðarplön hefðu snúist um það að fara í háskóla í Bandaríkjunum og að ég þráði ekkert heitar. Þegar ég var langt kominn með söguna kom hins vegar öryggisvörðurinn og vísaði mér út. Þá hélt ég að öll von væri úti og settist því niður. Fimm mínútum síðar kom ein kona til að dreifa út miðum og viti menn, hún gekk upp að mér, brosti, og afhenti mér síðasta farmiðann.

Ég held að ég hafi sjaldan verið eins feginn og þegar ég settist uppí flugvél. Prófið í Lima gekk bara ágætlega og ég komst inní þann skóla, sem ég vildi.

Bestu háskólar í Bandaríkjunum 2003

Blaðið US News er búið að gefa út nýjan lista yfir bestu háskóla í Bandaríkjunu, en þetta er vanalega sá listi, sem flestir horfa til þegar háskólar eru bornir saman.

Ég er náttúrulega stoltur yfir því að minn gamli skóli, Northwestern er kominn uppí 10 sæti, við hlið Columbia en Northwestern var í 12. sæti í fyrra. Það er gaman að því að Northwestern er kominn upp fyrir University of Chicago.

Annars lítur listinn svona út:

1. Princeton
2-3. Harvard
Yale
4-8. Caltech
Duke
MIT
Stanford
University of Pennsylvania
9. Dartmouth
10-11. Columbia
Northwestern
12-13. University of Chicago
Washington University
14. Cornell
15-16. Johns Hopkins
Rice
17. Brown
18-19. Emory
Notre Dame
20. UC Berkeley

Allur listinn er hér

Útskrift

Útskriftin mín var fyrir tveim vikum, föstudaginn 20 og laugardagin 21. júní. Þetta var heljarinnar dæmi í kringum allt þetta.

Allt byrjaði þetta á föstudagsmorgninum þegar ég fór með mömmu og pabba á Orrington hótelið, þar sem hagfræðideildin var með samkomu. Alls voru um 250 manns að útskrifast úr deildinni en aðeins þeim, sem skrifuðu BA ritgerðir var boðið, en um 30 manns uppfylltu skilyrði til að skrifa ritgerð. Allir voru fengnir uppá svið og talaði Mark Witte, prófessor um ritgerð hvers og eins. Ég, ásamt fimm öðrum fékk Deibler verðlaunin fyrir bestu BA ritgerðirnar og fékk ég hagfræðibók að gjöf fyrir það.

Á föstudagskvöld var samkoma á fótboltaleikvanginum. Þar voru samankomnir allir útskriftarnemendur úr öllum Northwestern skólunum, þar með talið Kellogg, Medill blaðamannaskólanum og öllum hinum. Allir útskriftarnemendurnir sátu á sjálfum vellinum en áhorfendastúkan var full af veifandi foreldrum og vinum.
Continue reading Útskrift

Klassíska hornið

Þar, sem ég er að fara að útskrifast eftir tvo daga er ekki úr vegi að vísa á lagið Pomp and Circumstances March no.1 eftir Edward Elgar. Þetta lag er ávallt leikið við útskriftir í háskólum hér í Bandaríkjunum, og sennilega víðar. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar þetta lag er spilað í bíómyndum, svo ég get ekki beðið eftir að heyra það við mína útskrift.

Annars veit ég lítið um þennan Elgar, þannig að þetta verður sennilega ekkert voða gott klassískt horn. Mér finnst mjög sniðugt að Viðar Pálsson skuli vera með klassískt horn á síðunni sinni. Ég spilaði lengi vel handbolta og fótbolta með honum. Einu umræðurnar um tónlist, sem ég man eftir var þegar hann, í einhverri ferð uppá Skaga, hélt því fram að gítarleikari einhverrar dauðarokksveitar væri sá besti í heimi. Það er greinilegt að hans tónlistarsmekkur hefur breyst mikið.

Alveg að koma

Ólíkt 99% háskólanema í Bandaríkjunum, þá eru nemendur í Northwestern á fjögurra anna kerfi. Þannig að þótt nær allir háskólanemar í þessu landi hafi útskrifast í maí þá erum við hér í úthverfi Chicago ennþá að læra.

Núna er lestrarvika, eða partívika. Það fer aðallega eftir því hvað fólk hefur verið duglegt og hve mörgum ritgerðum fólk á að skila. Ég er búinn að vera frekar upptekinn þessa viku. Ég þurfti að klára stórt hagfræðiverkefni, sem tókst loks í dag og svo þarf ég líka að læra fyrir þrjú próf en síðasta prófið er á næsta fimmtudag, eða eftir nákvæmlega eina viku.

Annars er búið að vera fullt af dóti fyrir þá, sem eru að útskrifast. Í dag fór ég í hádegisverð í Allen Center, þar sem öllum, sem voru að útskrifast með “Business Institutions” sem minor. Þarna var boðið uppá góðan mat og svo voru einhver ræðuhöld og vesen. Stuttu eftir það þurfti ég svo að halda og hlusta á fyrirlestra um BA hagfræðiritgerðir. Ekki mjög gaman, en það er allavegana búið núna. Á morgun er svo annar hádegisverður, nú á vegum WCAS, sem er skólinn minn innan Northwestern. Þar er boðið öllum þeim, sem útskrifast með Honors gráður í fögum innan skólans.

Þegar prófvikunni lýkur tekur svo við Senior’s week, þar sem verður fullt af atburðum fyrir þá, sem eru að útskrifast. Henni lýkur svo á föstudeginum, en sá dagur mun byrja á veislu fyrir hagfræðinemendur og svo verður farið á fótboltavöllinn, þar sem allir skólarnir innan Northwestern munu hlusta á Kofi Annan og fleiri ræðumenn. Á laugardeginum lýkur svo þessum ósköpum þegar skólinn minn mun afhenda öllum prófskírteinin sín.

Eitt próf eftir

Prófið í morgun gekk sæmilega og nú er bara eitt próf eftir, klukkan 12 á morgun.

Ég ætla því að eyða deginum í að stúdera hagmælingar og línulega algebru.

Ég lofa því að skrif mín munu verða skemmtilegri þegar ég er búinn.

Það er hægt að keyra “regression” fyrir skemmtilegheit.

Skemmtilegheit á síðunni hans Einars = 10 – 3 X fjöldi prófa eftir – 2 X klukkustundir, sem ég er búinn að læra í dag – 2 X klukkustundir síðan ég vaknaði + 2 X fjöldi kaffibolla.

Prófstress

Á morgun er ég að fara í próf í alþjóðafjármálum og svo á þriðjudag er það hagmælingatíminn minn.

Ég er orðinn dálítið stressaður, sem ég veit í raun ekki hvort er gott eða vont. Stundum finnst mér ég kunna allt og þá verð ég ennþá stressaðri en vanalega. Ég er þá hræddur um að ég sé að gleyma einhverju.

Það er samt ekki gott að vera alltof rólegur þegar maður fer í próf. Það er gott að vera dálítið ofvirkur rétt fyrir próf.

Dagurinn í dag er búinn að vera leiðinlegur. Hápunktarnir voru þegar ég bakaði bandarískar pönnukökur (blandaði saman tilbúnu deigi og vatni og hellti á pönnu) og síðan horfði ég á The Simpsons. Jei.

Gærdagurinn var ekki mikið meira spennandi. Ég ákvað að fara í aukatíma í hagfræði eftir að ég horfði á Liverpool vinna Middlesboro. Ég fór aðallega í tímann til að forðast það að horfa á háskólakörfubolta allan daginn. Í gærkvöldi kíktum við Hildur svo heim til Ryans, þar sem við vorum eitthvað að spjalla fram á nótt.

Ég vildi að ég gæti bara spólað áfram svo sem tvo daga.

Tölvuhlé

Ég er búinn að vera að skrifa stjórnmálafræðiritgerð á bókasafninu í allan dag.

Auk þess er ég búinn að skoða póstinn minn 8 sinnum, skoða allar mögulegar Liverpool fréttir, skoða Pressuna fjórum sinnum, lesa meirihlutann af kommentunum á Metafilter og tékka á tenglasíðunni minni að minnsta kosti 15 sinnum.

já, og ég skrifaði 9 blaðsíður af stjórnmálafræði. Þó held ég að ég hafi eytt meiri tíma á netinu en í Word. Ég held að ég þyrfti að fara að skrifa ritgerðirnar mínar á gamaldags ritvél. Það myndi eflaust fækka netheimsóknunum mínum.

Ég gafst þó upp rétt fyrir sjö og kom mér hingað heim. Undeclared og 24 eru í sjónvarpinu og því get ég náttúrulega ekki misst af.

Síðasti skóladagurinn

Í dag var síðasti skóladagurinn minn á þessari önn. Í næstu viku er lestrarvika og svo tvö próf í vikunni á eftir.

Þessi síðasti dagur var alveg einsog síðustu skóladagar eiga að vera. Veðrið er æðislegt, um 20 stiga hiti (þess má til gamans geta að á mánudaginn, fyrir fjórum dögum var 25 stiga frost) og ég fór á stuttermabol í skólann.

Ég kíkti aðeins á Mark Witte, sem er ráðgjafinn minn fyrir hagfræðiritgerðina mína og var hann í voða stuði og var rosa ánægður með hvernig ritgerðin er að þróast. Síðan fór ég í tvo dæmatíma, þar sem fáir voru að fylgjast með og kennararnir varla nenntu að vera að fara yfir einhver gömul verkefni.

Svo eftir líkamsrækt kom ég heim og viti menn, bíllinn minn, sem hefur verið dauður fyrir utan í frostinu komst alltíeinu í gang. Skál fyrir því!