Útskriftin mín var fyrir tveim vikum, föstudaginn 20 og laugardagin 21. júní. Þetta var heljarinnar dæmi í kringum allt þetta.
Allt byrjaði þetta á föstudagsmorgninum þegar ég fór með mömmu og pabba á Orrington hótelið, þar sem hagfræðideildin var með samkomu. Alls voru um 250 manns að útskrifast úr deildinni en aðeins þeim, sem skrifuðu BA ritgerðir var boðið, en um 30 manns uppfylltu skilyrði til að skrifa ritgerð. Allir voru fengnir uppá svið og talaði Mark Witte, prófessor um ritgerð hvers og eins. Ég, ásamt fimm öðrum fékk Deibler verðlaunin fyrir bestu BA ritgerðirnar og fékk ég hagfræðibók að gjöf fyrir það.
Á föstudagskvöld var samkoma á fótboltaleikvanginum. Þar voru samankomnir allir útskriftarnemendur úr öllum Northwestern skólunum, þar með talið Kellogg, Medill blaðamannaskólanum og öllum hinum. Allir útskriftarnemendurnir sátu á sjálfum vellinum en áhorfendastúkan var full af veifandi foreldrum og vinum.
Byrjað var á því að afhenda þeim, sem voru að útskrifast með Phd próf skírteinin sín. Eftir það voru heiðursgráður veittar. Meðal þeirra, sem fengu slíkt var Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Hann hélt svo ræðu til útskriftarnemenda. Ræðan var alveg frábær en þar hvatti hann útskriftarnemendur til þess að beita sér gegn fátækt í heiminum. Hann talaði sérstaklega um málefni, sem eru mér kær, það er niðurfelling á tollamúrum ríku landanna. Það gæti verið að ég myndi skrifa meira um ræðuna síðar á þessari síðu.
Eftir að Kofi hafði lokið sinni ræðu talað forseti skólans, Henry Bienen í stutta stund og svo var athöfninni slitið.
Á laugardag var svo önnur athöfn þar, sem allir úr mínum skóla, Weinberg College of Arts & Sciences komu saman. Þetta er stærsti skólinn í Northwestern, með um 700 útskriftarnemendur enda eru fög einsog enska, saga og hagfræði allar kenndar við þenna skóla, en hagfræðin er fjölmennasta fagið. Við athöfnina hélt vinsæll efnafræðiprófessor ræðu og svo voru allir kallaðir uppá svið til að taka á móti sínum prófskírteinum. Þetta var haldið inní körfuboltahöllinni og var því alveg hrikalega heitt að sitja með svarta skikkju og svartan hatt í nær tvo tíma á meðan allir voru kallaðir uppá svið.
Þessu lauk þó um tvö leytið og því er þetta allt búið. Það er vissulega dálítið skrítin tilfinning að þetta skuli allt vera búið en það er engu að síður ánægjulegt að vera loksins búinn að útskrifast frá þessum frábæra skóla, þar sem ég er búinn að eyða þrem mjög góðum árum.
Til hamingju með frábæran árangur! :biggrin:
Kæri vinur,.. innilega til hamingju með prófið og árangurinn. Sjáumst fljótt! 🙂
Til hamingju með góðan árangur.
Til hamingju með áfangann. Það verða aldrei of margir hagfræðingar :rolleyes:
Aldrei of margar hamingjuóskir. Mín bætist nú í sarpinn.
Til hamingju með prófið.