Mér datt eitt í hug áður en ég hætti á þessu ári. Ég lýsi því yfir að sá maður, sem bloggar á miðnætti í kvöld er hetja.
Í lok árs
Annars er ekki gott að enda árið á pólitískri færslu, því ég er í alltof góðu skapi. Ég óska bara öllum gleðilegs árs. Vonandi hafið þið það sem allra best á nýju ári.
Hroki
Ég veit að ég á ekki að vera að gagnrýna Ágúst Flygenring, þar sem ég er viss um að hann lifir á því að fólk sé að hneykslast á honum. Ég hef hins vegar komist að því að hann er með ólíkindum hrokafullur.
Til dæmis vil ég benda á skoðanakönnun hans um hver sé “skástur” forseta Bandaríkjanna á þessari öld. Með þessu orðavali, að tala um skásta forsetann er hann að segja að í raun sé enginn forseti, sem geti talist góður á þessari öld. Hann segir að enginn sé bestur, heldur bara skástur. Þetta er ótrúlegur hroki, sem er alltof algengur hjá Íslendingum og Evrópubúum gagnvart Bandaríkjunum.
Fyrirgefðu, en er FD Roosevelt ekki bara nokkuð góður forseti (ég kaus hann), maðurinn, sem leiddi Bandaríkjamenn útúr mestu kreppu þessarar aldar? Var það ekki nokkuð gott hjá Truman að koma á Marshall aðstoðinni? Reyndar þá minnist Ágúst ekki einu sinni á menn einsog Richard Nixon (sem m.a. hóf samskipti við Kína, þrátt fyrir að hann hafi gert önnur mistök), LB Johnson og Gerald Ford. Er það ekki bara nokkuð gott hjá Reagan að enda í raun kalda stríðið? Og er það ekki bara nokkuð gott hjá Bill Clinton að stýra Bandaríkjamönnum í gegnum 8 ára uppsveiflu? Ágúst segir um Clinton:
Hvers konar bull er þetta eiginlega? Þetta er gríðarlegur og óþolandi hroki hjá dreng, sem kann ekki einu sinni að stafa “Roosevelt”.
Mánudagar
Ég elska mánudaga, sem eru í raun miðvikudagar.
Gleðileg jól, allir!
Gleðileg jól, allir!
Jens er með fallega jólamynd á síðunni sinni.
4-0
Ég sé að það er nú ekki mikið búið að vera um skrif á naggnum undanfarið. Ég er búinn að vera á kafi í vinnu og því hef ég litlum tíma eytt í að skoða netið. Ég ætla bara að minna alla Arsenal aðdáendur á það hvernig leikurinn í morgun fór.
4-0
Takk fyrir
Vinna
Það er nú ekki margt spennandi búið að gerast síðan ég kom heim til Íslands. Helgarnar hafa jú verið skemmtilegar, en virku dagarnir hafa verið alger geðveiki. Ég er búinn að vera frá 8 á morgnana til 11 á kvöldin að vinna, aðallega í að klára heimasíðuna fyrir Danól. Ég er búinn að taka niður gömlu síðuna og setja skilti í staðinn, svo það sé auðveldara að taka til í gömlu síðunni. Ég ætla mér að hafa síðuna tilbúna fyrir fund kl. 8 á föstudgagsmorgun. Ég vona að það hafist.
BestBuy
Loksins!
Er ég ekki hugsjónamaður?
Það er mér löngu orðið ljóst að Ágúst Flygenring er einn af allra duglegustu pennunum á naggnum. Ég hef í raun oft haldið að hann skrifi með þeim einum tilgangi að hneyksla og fara í taugarnar á öðrum, því sumir vefleiðarar gera í raun ekkert annað en að svara Ágústi.
Ég hef þó mjög gaman af að lesa síðuna hans Ágústs, því ég hef ávallt mikinn áhuga uppá hverju hann tekur næst. Mér fannst til dæmis mjög sniðugt þegar hann tók sig til og sagði frá því að á náttborðinu síðustu daga hefði legið fjárlagafrumvarpið. Ef þessi gaur er ekki á leiðinni inná þing, þá skal ég hundur heita.
Pistillinn hans í dag minnti mig á að það er eitt, sem fer alveg ofboðslega í taugarnar á mér í málflutningi Ágústs. Reyndar hef ég líka tekið eftir þessu hjá fleiri vefleiðurum. Ágúst fjallar í skondnum pistli sínum í dag um jafnrétti og jöfnuð. Þar ber hann saman það sem hann kallar jafnrétti og sósíalisma. Hann endar svo pistilinn á orðunum:
Ef ég hef einhvern tímann stutt stjórnmálaflokk á Íslandi þá var það sjálfsagt Alþýðuflokkurinn undir stjórn Jóns Baldvins. Ég var sammála þeim flokki í mörgum málum, t.d. landbúnaðarmálum (þar sem menn voru ekki hræddir við að mótmæla framsóknarmennsku), Evrópumálum og langflestu í efnahagsmálunum. Ég tilheyrði sennilega hægri helmingi flokksins. Ég tel mig vera mun hægrisinnaðari en flesta Sjálfstæðismenn, en það sem ég þoli ekki við Sjálfstæðisflokkinn er að í honum er of mikið af Íhalds- og framsóknarmönnum. Eftir að Samfylkingin varð til þá hef ég ekki fundið flokk, sem ég er fullkomlega sáttur við.
Já, ég ætlaði víst að tala um Ágúst. Málið er að ég á erfitt með að þola það þegar það að vera krati þýðir að maður geti ekki verið hugsjónarmaður. Eins og Ágúst kallar það, þá er “kratismi” útþynnt theoría. Ég er ekki sammála þessu. Samkvæmt Ágústi þá þurfa menn að vera öfgamenn til hægri eða vinstri til að geta talist hugsjónarmenn. Ágúst hefur oft kallað þá sem skrifa fyrir Múrinn hugsjónarmenn (og efast ég ekki um það), en hann hefur svo oft í sömu andrá gefið í skyn að þeir sem séu nær miðju séu bara einhverjir vitleysingar, sem trúi ekki á hugsjón, heldur séu bara valdagráðugir. Þetta er ekki sanngjarnt. Ég tel mig alveg vera jafnmikinn hugsjónarmann og þá, sem skrifa fyrir frelsiog múrinn. Ég er hins vegar hlynntur stefnu, sem fær lánað það besta úr báðum áttum. Ég held að flestir séu sammála um það að öfgarnar ganga ekki alveg upp.