Prófkjör

Það er eitthvað skrítið að koma yfir mig. Kannski eitthvað svipað og virðist vera að koma yfir [Möggu](http://maggabest.blogspot.com/2005/11/skipt-um-skoun.html). Mér líst nefnilega bara helvíti vel á Gísla Marten sem borgarstjóra. Nú hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn á minni ævi, en svei mér þá ef að ég myndi ekki freistast til að láta af því verða ef að Gísli myndi slá til. Kannski er þetta bara eitthvað stundarbrjálæði hjá mér og kannski mun ég eftir nokkra daga reyna að þræta fyrir það að ég hafi nokkurn tímann skrifað þessi orð. En svona líður mér í dag.

Ég er nefnilega orðinn þreyttur á R-listanum og öllu því veseni í kringum hann. Ég vildi auðvitað helst að Samfylkingin sæi um borgina, en það mun aldrei gerast. Samfylkingin mun alltaf verða að treysta á Vinstri-Græna, Framsókn eða aðra ámóta skemmtilega flokka. Því er ég farinn að hallast að því (sérstaklega ef að núverandi borgarstjóri verður oddviti Samfylkingarinnar) að Sjálfstæðisflokkurinn sé bara nokkuð álitlegur kosti. En þá einungis ef að Gísli Marteinn verður valinn.


Það fyndna við þessar prófkjörsumræður er að Vilhjálmur Þ. telur sig geta náð í meira fylgi út fyrir flokkinn! Sjálfstæðismenn eru ekki með réttu ráði ef þeir halda að Vilhjálmur geti smalað fólki úr öðrum flokkum betur en Gísli Marteinn. Til þess er hann búinn að vera alltof lengi þarna inni og hann virkar alltof stífur til að höfða til neinna annarra en hörðustu Sjálfstæðismanna.

Ef að Sjálfstæðismenn væru skynsamir (ég veit, stórt *ef*) þá myndur þeir velja Gísla Martein, því hann hefur mun meiri möguleika á að ná inn fylgi úr öðrum flokkum. Meira segja menn einsog ég, sem hef haft ofnæmi fyrir þáttunum hans og framkomu hans í stjórnmálaþáttum (aðallega vegna þess að hann ver ALLT, sem að Davíð segir eða gerir einsog allir Sjálfstæðismenn), er farinn að hallast að því að ég gæti bara hugsað mér Gísla sem næsta borgarstjóra.

Ég meina er einhver betri kostur í stöðunni?

Gísli býr í Vesturbænum (plús) og ég hef trú á því að hann vilji sjá borgina nokkurn veginn einsog ég vil sjá hana skipulagslega. Ég hef ekki hugmynd um hver stefnumál hans eru, enda hefur þetta prófkjör snúist um persónur en ekki málefni, en ég hef einhvern veginn góða tilfinningu fyrir því að hann hafi réttu hugmyndirnar.

Reyndar hefur hann farið niður í þá gryfju að kenna R-listanum um allt sem miður fer í heiminum og þetta væl hans um umferðarteppur er afar skrýtið. Ég er nefnilega alinn uppí sveitarfélagi þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið síðan á steinöld. Þar lenti ég í umferðarteppu á hverjum einasta degi þegar ég fór til vinnu úr Garðabæ yfir í Reykjavík. Umferðarteppurnar voru nefnilega verstar í Garðabæ og Kópavogi þar sem Sjálfstæðismenn ráða. Ég hef aldrei orðið neitt sérstaklega var við miklar umferðarteppur í Reykjavík. Reyndar bý ég í Vesturbænum og hef búið í Chicago, þannig að kannski tek ég ekki eftir þessu. Ef að R-listinn er lélegur í að laga umferðarteppur, hvað þá með Sjálfstæðismenn í öðrum sveitarfélögum?

En allavegana, kjósið Gísla Martein, kæru Sjallar. Þá er vel hugsanlegt að ég merki við Sjálfstæðisflokkinn næsta vor. Allavegana verður kosningabaráttan skemmtilegri með Gísla.

2 thoughts on “Prófkjör”

  1. Ég er nokkuð sammála þér, maður lendir í langverstu umferðarteppunm ef maður þarf að keyra á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn heldur, en væri alveg til í Gísla Martein í borgarstjórastól. Ég er líka á þeirri skoðun að það sé nauðsynlegt að skipta reglulega um fólk og flokka við stjórnvölin. Þessi Vilhjálmur er samt ekki að gera neitt fyrir mig, hann er allt of rykfallinn einhvernveginn.. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer!

  2. Ég held að það hefði verið sterkast í stöðunni fyrir Villa og Gísla að vinna saman að þessu verkefni. Villi tæki fyrsta sætið og Gísli yrði númer 2 gegn því loforði að Gísli fengi fyrsta sætið næst. Það hefði líklega skilað Sjálfstæðisflokknum sterkaði. Ef þeir hefðu síðan unnið PR-ið rétt á meðan þessu prófkjöri stendur og í kjölfar þess og fram að kosningum þá væri hægt að ná inn fólki í gegnum Gísla Martein og hann gæti notið þess að læra af Villa. Því þótt hann sé gjörsamlega steingeldur þegar það kemur að persónutöfrum þá kann kallinn væntanlega ýmisslegt fyrir sér þegar það kemur að pólítik og borgarstjórnarmálum?

    Gæti annars ekki verið meira sama. Bý í Mílanó þar sem umferðateppur og hundaskítur á gangstéttum er algengari en ég vill viðurkenna. Það versta er að ég er að venjast því.

Comments are closed.