Punktar fyrir fólk í atvinnuleit

Ég hef lengi ætlað að setja saman stutta færslu með punktum fyrir fólk, sem er að sækja um vinnu. Ég hef rekið fyrirtæki í 9 ár og hef oft hugsað með mér hversu margar vitleysur fólk gerir þegar það sækir um vinnu og hversu oft þetta eru sömu vitleysurnar ár eftir ár. Og fólk í Svíþjóð gerir oft sömu mistök og fólk á Íslandi.

Ég tek það fram að ég hef ekki verið að ráða fólk til að vinna sem verkfræðingar hjá Google. Að langmestu leyti hef ég séð um að ráða fólk í afgreiðslu- og eldhússtörf á Serrano. En ég hef auðvitað líka ráðið í stjórnunarstöður í fyrirtækinu, sem að fólk sér sem sína vinnu til margra ára.

Hérna eru nokkur ráð, sem ég held að margir gætu haft gagn af, sérstaklega þegar sótt er um þjónustustörf.

1. Hafðu starfsferilsskrána þína eina síðu. Ekki meira. Ég þarf ekki að lesa um hvaða vinnu þú vannst árið 1995. Ég get ekki séð hvernig það getur talist jákvætt að lista 10 ólík störf á ferilsskránni. Þegar ég var í háskóla þá var hamrað á því aftur og aftur við okkur að CV ætti ekki að vera lengra en ein síða og sem atvinnurekandi skil ég þá reglu mjög vel.
2. Ef þú ert að sækja um í mjög ólíkar vinnur á sama tíma, breyttu þá CV-inu þínu eftir því hvaða umsókn þú lætur það fylgja með. Ef þú ert að sækja um sem veitingastjóri á Serrano, þá skiptir það mig ekki miklu máli að þú hafir unnið með börnum. Og ef þú ert á leikskóla skiptir það væntanlega skólann ekki máli að þú hafir unnið sem forritari hjá banka.
3. Ef þú hefur mynd af þér með starfsfumsókninni, ekki vera í jakkafötum, nema þú sért að sækja um vinnu þar sem ætlast sé til þess að fólk vinni í jakkafötum. Ekki þegar þú sækir um í verslun eða á veitingastað. Ef ég fæ umsókn með mynd af umsækjanda í jakkafötum með bindi þá geri ég ráð fyrir að hann hafi takmarkaðan áhuga á að vinna við afgreiðslu á veitingastað.
4. Ekki sækja um vinnu sem þú hefur ekki áhuga á. Veldu störf sem þú hefur áhuga á og sæktu um þau. Fólk sem ræður í vinnur á veitingastöðum, í verslunum og slíkum stöðum, er alltaf hrætt við háa starsfmannaveltu og er ólíklegt að ráða fólk sem það telur ekki hafa áhuga á vinnunni.
5. Ef þú hefur áhuga á vinnu, sem þú ert á pappírnum “of hæf/ur” fyrir, þá þarftu að láta sérstaklega vita að þú sért að sækja um stöðuna af einlægni. Ef þú ert með masters gráðu í mannauðsstjórnun en ert að sækja um í venjulegu verslunarstarfi láttu það þá koma fram í viðtalinu eða á umsókninni að þú hafir virkilega áhuga á þessari stöðu. Sá/sú sem tekur viðtalið við þig hugsar ábyggilega að þú sért of hæf/ur. Ef þú hugsar þér að vinna bara í eitt ár – láttu það þá koma fram. Það útskýrir oft af hverju fólk með mikla menntun sækir um í störfum þar sem ekki er þörf á menntun. Ansi margar verslanir og veitingastaðir eru tilbúnir að taka inn gott fólk í styttri tíma. Ef þú sérð þig í ákveðnu starfi í takmarkaðan tíma láttu þá vita af því. Það er alls ekki alltaf neikvætt.
6. Lestu þér til um fyrirtækið áður en þú mætir í viðtal. Ef þú hefur einhverja góða reynslu af fyrirtækinu, segðu þá frá því. Þeir sem eru að ráða hafa gaman af því að heyra hrós einsog allir aðrir. Ef þú ert að sækja um á Serrano og finnst maturinn okkar góður segðu þá frá því. Ef þú ert að sækja um í Bónus og verslar í Bónus – segðu þá frá því. Ef þú ert að sækja um í fatabúð talaðu um hvað þú hefur mikinn áhuga á fötum.

Þetta eru helstu punktar sem er að mínu mati gott að hafa í huga. Eflaust er hægt að taka til miklu fleiri hluti, en það gæti eflaust hjálpað mörgum að hafa þetta í huga. Og það má vel vera að aðrir sem eru að ráða í stöður horfi öðruvísi á hlutna, en þetta eru allavegana mínar ábendingar.

10 thoughts on “Punktar fyrir fólk í atvinnuleit”

 1. Takk fyrir þetta – góðir punktar. Það mætti svo bæta við að það er algerlega bannað að tala illa um fyrri vinnuveitanda, þó hann eigi það kannski fyllilega skilið.

  Erfiðast finnst mér að svara spurningunni um veikleika minn, sem flestir vinnuveitendur spyrja að. Bæði vill maður ekki segja eitthvað sem getur skemmt fyrir manni en heldur ekki segja eitthvað asnalegt.

  Hefur þú einhverjar flottar tillögur um það?

  Enn og aftur – takk fyrir

 2. Margt gott í þessu en hefði þó haldið sjálfur að það væri forskot á að fá vinnu hjá Serrano að hafa unnið með börnum. Þau eru mikilvægir viðskiptavinir í nútíð og eru oft ráðandi um kaupin og svo verða þau fljótt fullorðin. En þú um það.

 3. Ég tók þetta nú bara sem dæmi, Einar. Ég hefði eflaust geta fundið eitthvað enn ótengdara.

  Mér finnst þessi spurning um veikleika alltaf frekar asnaleg – en eflaust eru einhverjir mannauðsstjórnendur, sem geta útskýrt af hverju hún gerir gagn.

 4. Góðir punktar, held meira að segja að þetta eigi nokkuð vel við hjá verkfræðingum líka 😉 Held að vinnuveitendur vilji þekkja veikleikana til að sjá hvort þú sért gagnrýnin á þig sjálfa og þekkir þinn persónuleika. Oft getur einhver i vinnuhóp haft þinn veikleika sem styrk og því geta þeir aðilar bakkað hvorn annan upp.

 5. Ég var að læra mannauðsstjórn á síðustu önn og ég man ekki eftir því að mikið hafi verið gefið fyrir svona spurningar eins og að biðja fólk að nefna veikleika sína. Besta leiðirnar til þess að meta starfsfólk var annars vegar að setja það í próf sem tengdist starfinu og hins vegar að setja það í greindarpróf. Greindarpróf eitt og sér var af mörgum talin besta forspárleiðin um hve gott fólk yrði í starfi.

 6. Spurningin um veikleika kemur oftast í framhaldi af spurningunni um styrkleika. Það sem við viljum fá fram með þessari spurningu er hvort umsækjandinn sé jafn meðvitaður um galla sína og kosti. Það er nefnilega enginn fullkominn en ef við erum meðvituð um veikleika okkar þá eru meiri líkur á því að við gerum eitthvað í því.

 7. Frábærir punktar. Ég er samt ekki sammála jakkafatapunktinum. Það er alltaf kostur að koma vel fyrir, hvort sem það sé á CV-i eða í atvinnuviðtali. 🙂

 8. að koma vel fyrir er algjörlega málið – en jakkaföt eru oft aðeins of mikið.

Comments are closed.