Radiohead

Tónleikarnir í Grant Park í gær voru ótrúlegir.

Aðstæður voru frábærar. Veðrið var gott og um 25000 manns fylltu hluta af Grant Park, sem er stærsti almenningsgarðurinn í Chicago og liggur við Michigan vatn. Umhverfið er líka mjög skemmtilegt því í austur er vatnið en í vestri blasa við skýjakljúfar, þar sem Sears Tower rís hæst.

Radiohead tók mikið af efni af nýju plötunum og er ekkert nema gott um það að segja. Þeir byrjuðu á National Anthem, tóku svo Knives Out og svo Karma Police. Allt í allt held ég að þeir hafi tekið um 10 lög af nýju plötunum. Af þeim fannst mér án efa You and whose army? vera best. Það má í raun segja að í því lagi hafi Yorke notið sín best. Hann sat einn fyrir framan píanóið með andlitið alveg ofan í myndavélinni og rödd hans fékk alveg að njóta sín.

Ég held því fram, eftir þessa tónleika, að Tom Yourke sé besti rokksöngvari í heimi. Þvílíkur snillingur. Það er í raun lygilegt að hlusta á hann syngja lög einsog t.d. Fake Plastic Trees, sem þeir tóku eftir að þeir höfðu verið klappaðir upp.

Radiohead tóku, í viðbót við nýju login, flest af sínum þekktustu lögum, einsog Lucky, Airbag, Iron Lung, Fake Plastic Trees, No Surprises, Karma Police og Paranoid Android.

Alls voru þeir klappaðir upp þrisvar. Í fyrst skiptið tóku þeir fjögur lög, þar á meðal stórkostlega útgáfu af IDIOTEQUE. Í annað skiptið tóku þeir tvö lög, annað af Pablo Honey og hitt You and Whose army?, sem var ótrúlegt. Í síðasta skiptið tóku þeir svo Street Spirit (Fade away).

Ég var í raun orðlaus eftir tónleikana. Ég hef nú farið á talsvert mikið af tónleikum með flestum mínum uppáhaldssveitum, en ég man varla eftir betri tónleikum. Það er einna helst Roger Waters, sem stendur uppúr. Fyrir utan þá tónleika, þá hef ég ekki séð betri tónleika.