Rifrildi

Á Moggablogginu getur fólk rifist í meira en tvo daga um það hvaða skilaboð táknmyndir á klósettum í Hollandi senda konum.

Og það í miðjum júlí.

* * *

Í gær sá ég [Önnu.is](http://www.anna.is/weblog/) í fyrsta skipti. Ég leit út einsog bjáni, nýkominn heim frá því að hlaupa eftir Ægissíðunni og sagði því ekki hæ. Mér finnst alltaf jafn óþægilegt að segja hæ við fólk sem ég þekki bara af því að lesa bloggið þeirra. Samt finnst mér alltaf jafn yndislega skemmtilegt þegar að fólk kemur upp að mér og segist lesa bloggið mitt. Reyndar gerist það nær án undantekninga á djamminu og ég því hálf sjúskaður, en samt æðislegt.

* * *

Úti í USA sá ég fyndnustu mynd ársins, sem heitir Knocked Up. Ég ætlaði að fara að mæla með henni fyrir alla mína vini, en sá svo að hún er ekki frumsýnd á Íslandi fyrr en 28.september. Þetta er skrýtið land. Allar leiðinlegu stórmyndirnar eru sýndar strax, en svo þarf maður að bíða eftir myndum sem maður er spenntur fyrir. Til dæmis einsog Knocked Up og Sicko. Ég sá þær báðar útí USA. Sicko er líka mjög góð.