Skrifstofa á kaffihúsi

Ég verð að segja að þeta Risessu dæmi er tær snilld. Ég hef ekki séð svona mikið líf snemma morguns í miðbænum afskaplega lengi.

Eftir að ég byrjaði í fullu starfi á Serrano, þá hef ég ekki haft neina skrifstofu til að vinna á. Í Kringlunni erum við jú með smá skrifstofu, en hún er notuð af verslunar- og rekstrarstjóra Serrano og þar færi maður ekki nægan frið. Þess vegna hef ég kosið að koma mér við gluggann á Kaffitár í Bankastræti á hverjum morgni. Þar drekk ég kaffi, borða ávexti og beyglur og vinn. Hérna er fín net-tenging, engar reykingar og það er eitthvað skringilega róandi við að vinna í þessum klið, sem hér myndast þegar staðurinn er fullur.

Það er líka eitthvað heillandi við það að vinna í kringum miðbæinn. Það er ekkert gaman að keyra á hverjum morgni í bíl inná bílastæði fyrir utan skrifstofubyggingu og hanga þar inni allan daginn. Frekar kýs ég þetta líf. Ég rölti um miðbæinn, sest inná kaffihús og vinn og sinni svo þeim erindum, sem ég þarf um allan bæ eftir hádegi. Ég held að þessi skrifstofa hérna inná Kaffitár sé sú besta, sem ég gæti hugsað mér. Ég vinn allavegana hratt og vel hérna.

En allavegana virðist veðrið og þessi Risessa hafa lífgað uppá mannlífið í miðbænum í dag. Allt í einu er allt fullt af fólki í sumarskapi í góða veðrinu. Meira svona! Ég vildi óska þess að mannlífið væri jafn blómlegt á hverjum degi. Þá væri gaman að búa í Reykjavík.