Roger Waters

Jæja, ég er núna kominn aftur til Chicago eftir tveggja daga ferð til Houston. Þangað fór ég til að láta draum rætast og sjá Roger Waters, sem var bassaleikari og aðallagahöfundur Pink Floyd, sem er einmitt uppáhaldshljómsveitin mín. Allavegana þá voru tónleikarnir í gærkvöldi í Woodlands Pavillion, sem er fyrir utan Houston. Þetta er flott tónleikasvæði. Ég var með miða á alveg frábærum stað, enda lá ég á Ticketmaster til að fá sem besta miða.

Roger kom á sviðið um 8 og spilaði hann til 11. Þvílík snilld. Þetta voru langbestu tónleikar, sem ég hef farið á. Lang lang langbestu. Maðurinn er hetjan mín. Hann tók furðu-lítið af sólóefni, en einbetti sér frekar að gömlu Pink Floyd efni. Hann byrjaði á In the Flesh, sem er fyrsta lagið á The Wall. Svo tók hann Happiest days of our lives og another brick in the wall part II. Hann tók svona margar Pink Floyd plötur fyrir, tók 3 lög af Wish You Were Here, 4 af Dark Side of the Moon og svo framvegis.

Ég var búinn að spá því fyrirfram að það myndi líða yfir mig annaðhvort þegar ég heyrði Wish You Were Here eða þá gítarsólóið í Comfortably Numb, en það gerðist ekki. Eftir hlé tók hann svo lög af sólóplötunum sínum, og þar á meðal himneska útgáfu af Perfect Sense, sem er af Amused to Death. Hann endaði svo tónleikana, með að taka Brain Damage og Eclipse, sem eru tvö síðustu lögin á Dark Side of the Moon, og svo endaði hann á Comfortably Numb, sem er einfaldlega besta lag allra tíma. Á þeim tímapunkti var ég alveg búinn að tapa mér.

Ég hef aldrei heyrt eða séð annað eins. Ég líka hrópaði af fögnuði og klappaði og stappaði einsog vitleysingur í 10 mínútur en þá kom Roger aftur á svið og tók nýtt lag.