SAT próf í Perú

Ágúst Fl. segir af TOEFL raunum sínum. Ég lenti sjálfur í nokkuð mögnuðu ævintýri þegar ég ætlaði að taka SAT prófið, sem er nauðsynlegt til að komast inní bandaríska háskóla.

Þetta gerðist allt í desember 1998. Þá var ég á ferðalagi með þrem vinum mínum um Suður-Ameríku. Ég var búinn að senda inn allar háskólaumsóknirnar mínar og það eina, sem ég átti eftir að gera, var að mæta í SAT prófið. Ég var búinn að bóka mig í próf í Lima, höfuðborg Perú.

Prófið var á laugardagsmorgni í skóla í úthverfi Lima. Á fimmtudeginum fórum við félagarnir frá Arequipa í Perú með lest upp til Puno, sem er bær við Titicaca vatn. Titicaca er hæsta stöðuvatn í heimi og (að mínu mati) einn af fallegustu stöðum í Suður-Ameríku. Við fórum í bátsferð um vatnið og gistum svo á einni af eyjunum, sem heitir Amantani. Við gistum þar eina nótt og svo á föstudeginum áttum við að fara aftur að Puno, en ég átti pantað flug til Lima klukkan hálf sex. Bátsferðinni seinkaði hins vegar og því vorum við ekki komnir til Puno fyrr en klukkan 4. Þar stökk ég úr bátnum, kvaddi vini mína og fann mér leigubíl. Ég sagði bílstjóranum að keyra eins hratt og hann gæti til Juliaca, sem var dágóðan spöl frá Puno.

Leigubílstjórinn tók mig á orðinu og keyrði einsog argentískur leigubílstjóri alla leið til Juliaca. Þegar ég kom á flugvöllinn var ekki nema um korter í brottför og fyrir framan AeroPeru borðið var heljarinnar biðröð. Mér var sagt að þetta væru stand-by farþegar, sem myndu bara fá miða ef einhver mætti ekki. Ég fór því og talaði við öryggisvörð. Hann sagði mér að ég hefði mætt of seint og því væri miðinn minn ógildur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu og hélt áfram að röfla í honum en hann gaf sig ekki. Hann gafst á endanum uppá mér og fór eitthvað í burt. Ég nýtti þá tækifærið og stökk undir afgreiðsluborðið og inná einhverja skrifstfou. Þar voru einhverjar konur, sem sögðust ekkert geta gert.

Ég ákvað því að miðla til vorkunnsemi þeirra og sagði þeim mína sögu. Þannig var að ef ég mætti ekki í SAT prófið, þá kæmist ég ekki inní háskóla (þetta var síðasti sjens að taka SAT). Ég sagði þeim svo átakanlega sögu um það hvernig öll mín framtíðarplön hefðu snúist um það að fara í háskóla í Bandaríkjunum og að ég þráði ekkert heitar. Þegar ég var langt kominn með söguna kom hins vegar öryggisvörðurinn og vísaði mér út. Þá hélt ég að öll von væri úti og settist því niður. Fimm mínútum síðar kom ein kona til að dreifa út miðum og viti menn, hún gekk upp að mér, brosti, og afhenti mér síðasta farmiðann.

Ég held að ég hafi sjaldan verið eins feginn og þegar ég settist uppí flugvél. Prófið í Lima gekk bara ágætlega og ég komst inní þann skóla, sem ég vildi.

2 thoughts on “SAT próf í Perú”

  1. Thad er naumast hasarinn hja sumum thegar thad kemur ad samraemdum profum. Eina sem eg lenti i var ad taka ekki vegabrefid mitt med mer, slapp i gegn med okuskirteini thar sem eg tok profid i Fulbright og islendingarnir thar adeins rolegri en kaninn ut a stod.

Comments are closed.