See you soon

Í kjölfar Whitesnake færslunnar frá því í gær, þá ætla ég að gera heiðarlega tilraun næstu daga til að benda á lög, sem mér finnst vera góð og tengjast mér á einhvern hátt.

Hérna er uppáhaldslagið mitt með Coldplay

Nú er það mikið í tísku að dissa Coldplay, en ég hef ávallt verið veikur fyrir þessu bandi. Katie, fyrrverandi kærasta mín, kynnti mig fyrir þessu lagi en það hefur aldrei komið út á plötu svo ég viti Katie er snillingur og var alltaf að kynna fyrir mér nýja hluti – það var kosturinn við að vera með stelpu, sem var svona ótrúlega ólík mér. Hún kynnti mig fyrir nýjum bókum, nýrri tónlist, nýju fólk og samdi um mig ljóð, sem að snertu mig meira en nokkrar bækur eða lög höfðu áður gert. Bæði góð ljóð um góðu tímana og líka hræðileg ljóð um það hversu mikill asni ég gat verið.

Þegar ég kom heim til Íslands gaf hún mér Grace með Jeff Buckley, sem ég hlustaði á miljón sinnum og svo stuttu seinna kynnti hún mig fyrir þessu lagi með Coldplay. Ég ætlaði á tímabili að loka mig af og bíða bara eftir henni líkt og í laginu:

In a bullet proof vest
With the windows all closed
I’ll be doing my best
I’ll see you soon

En svo brást það auðvitað.

* * *

Ég er að skanna inn myndir af negatívum, sem ég á uppí skáp og veldur það sennilega þessum tveimur síðustu færslum. Hef ótrúlega mikið verið að hugsa um síðustu ár. Það fyndna við að skanna inn myndir af negatívum er að maður uppgötvar aftur myndir, sem maður hafði áður hent. Skemmtistaða-sleikir og aðrir skandalar eru enn til á negatívunum mínum þótt ég hafi eytt sjálfum myndunum fyrir einhverjum árum. Það er ótrúlega skemmtilegt að fara aftur í gegnum þetta og ég ætla að henda inn eitthvað af gömlum myndum á næstu vikum. Ég sleppi þó myndunum sem ég hafði áður hent.

* * *

Á þessari síðu, sem að WordPress benti mér á, er ég settur í hóp með Agli Helga, Sóleyu Tómasar og Henry Birgi yfir þá bloggara, sem að viðkomandi les en pirrast svo yfir eftir lesturinn. Til viðbótar er ég svo kallaður furðulegur. Ég verð að játa að þetta er magnaður félagskapur sem ég er þarna í, en ég sé ekki almennilega hvernig að skrif mín á þessa síðu geti farið í pirrurnar á fólki. Vissulega er ég oft í ham á Liverpool blogginu, en þessi síða verður rólegri með hverju árinu. Ég er m.a.s. hættur að böggast útí Framsóknarflokkinn.

3 thoughts on “See you soon”

  1. Coldplay er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Þeir eru vanmetnir hjá Íslendingum – ef ekki flestum.

Comments are closed.