Serrano 10 ára

Serrano er 10 ára í dag.

Fyrir 10 árum vorum við Emil staddir á Stjörnutorgi að reyna að koma veitingastaðnum okkar stað af stað. Fjórum klukkutímum á eftir áætlun og án þess að ég hafi nokkurn tímann smakkað Serrano burrito þá opnuðum við staðinn. Ég hef rakið sögu þess hvernig staðurinn í þessu bloggi hér.

Þá sögu skrifaði ég fyrir 8 árum og á þessum átta árum hefur auðvitað gríðarlega mikið breyst. Fyrstu árin þá rákum við Emil Serrano í aukavinnu á meðan að við sinntum báðir annarri vinnu. Á því tímabili í mínu lífi lærði ég mikið, en á endanum þá ákvað ég að byrja í fullu starfi á Serrano í lok árs 2006 og Emil byrjaði svo ári síðar.

Ég hafði nægilega trú á konseptinu, mér fannst gaman af því að reka staðinn, ég var stoltur af fyrirtækinu og ég var viss um að Serrano væri það sem ég vildi vinna við allan daginn, alla daga. Það er mikilvægt að hafa trú á því sem maður er að selja í vinnunni og það hef ég í dag.


Það má segja að stærsta árið í sögu Serrano hafi verið 2007 þegar að við opnuðum okkar annan stað á Hringbraut. Sá staður hefur frá opnun verið okkar söluhæsti staður. Við höfum oft verið heppnir á þessum 10 árum. Til dæmis datt fyrsti staðurinn okkar í Kringlunni eiginlega í hendurnar á okkur eftir að við höfðum í marga mánuði verið að bíða eftir stað i í Smáralind, sem ekkert varð úr. Akkúrat á þeim tíma var Popeye’s að hætta á Íslandi og okkur bauðst að kaupa staðinn þeirra í Kringlunni.

Staðurinn okkar á Hringbraut var upphaflega teiknaður fyrir annan skyndibitastað, sem að hætti við. Einhver starfsmaður á arkitektastofunni hafði heyrt um Serrano og í framhaldi af því var haft samband við okkur og við fengum bilið. Eftirá að hyggja var það ótrúleg heppni.

Árið 2007 opnuðum við líka staðinn okkar í Smáralind, sem að við keyptum af WOK bar Nings. Ári seinna keyptum við svo veitingastaðinn Síam og opnuðum þar Serrano stað (og héldum rekstrinum á Síam áfram í einhverja mánuði án árangurs). Sá Serrano staður var lítill í byrjun en hefur með árunum stækkað gríðarlega. Seinna það ár opnuðum við svo Serrano á nýrri N1 bensínstöð á Bíldshöfða. Við hliðiná okkur þar var rekinn Pizza Pronto en á síðasta ári tókum við yfir þann stað og byrjuðum með NAM konseptið.

Svo kom hrun, en árið 2008 var samt sem áður okkar langbesta ár. Og 2009 var aftur okkar söluhæsta ár – met sem við svo toppuðum 2010, 2011 og munum líklega gera á þessu ári líka. Árið 2009 opnuðum við Serrano stað á Höfðatorgi. Svo tókum við okkur frí í þrjú ár frá byggingu á nýjum stöðum á Íslandi þangað til að við opnuðum stað í Spönginni í september.


Auðvitað þarf maður slatta af heppni til að halda úti veitingafyrirtæki í 10 ár. Við hittum á rétt konsept á réttum tíma og við höfum á mörgum tímapunktum verið verulega heppnir með það starfsfólk, sem hefur unnið með okkur.

En við höfum líka alltaf hugsað um matinn og reynt að bæta matinn og upplifunina á staðnum (og þar erum við rétt að byrja!). Við höfum haldið verðlagningunni sanngjarnri (jafnvel þegar að dunið hafa á okkur kostnaðarhækkanir þá höfum við reynt að hagræða í rekstri í stað þess að velta hækkunum útí verðið á matnum) og við höfum gert mikið til að halda okkar besta starfsfólki.

Ég og Emil erum enn bestu vinir eftir 10 ár í þessu samstarfi. Að vísu vinnum við í tveimur löndum, en við þurfum samt að glíma við allar erfiðar ákvarðanir saman, sem okkur hefur tekist að gera þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstrinum í gegnum tíðina.

Þetta hafa verið frábær 10 ár og ég er í dag gríðarlega stoltur af Serrano og því starfi sem við höfum unnið. Við eigum og rekum í dag 12 Serrano staði og þeim mun líklega fjölga nokkuð hressilega á næstunni. Við vitum að við getum gert marga hluti betur og ég get fullvissað alla um að við munum aldrei hætta að leita að hlutum til að bæta matinn, upplifunina og konseptið.

Þið sem hafið unnið með okkur í gegnum tíðina, verið tryggir viðskiptavinir og hjálpað okkur persónulega vil ég bara segja TAKK!

4 thoughts on “Serrano 10 ára”

  1. Til lukku með þennan stórfenglega árangur…. sveimér þá að ég hafi bara komið hingað annað slagið inn í meyra en 10 ár….

Comments are closed.