Síðustu dagar

Það er orðið dálítið síðan ég skrifaði eitthvað af viti. Allavegana, þá áttum við Hildur fína helgi. Á föstudeginum fórum við í stórt partí, sem er reglulega haldið í einbýlishúsi, þar sem um 25 Northwestern krakkar búa. Þar var fjör einsog vanalega.

Á laugardag gerðum við furðu lítið. Ætluðum að fara að sjá Planet of the Apes, en nenntum því ekki og á endanum og fórum því bara út á Blockbuster og leigðum okkur DVD myndir.

Á sunnudag fórum við svo á Taste of Lincoln Avenue, sem er enn ein útihátíðin hérna í Chicago. Þar röltum við um í hitanum og hlustuðum á tónlist. Um kvöldið var ég svo fastur fyrir framan sjónvarpið að horfa á baseball, en Fred McGriff var að spila sinn fyrsta leik fyrir mitt lið Chicago Cubs, sem vann St.Louis Cardinals. Gaman gaman.

Síðasta helgi var líka fín, en þá bar hæst að við fórum í Six Flags skemmtigarðinn, sem er fyrir norðan Chicago. Þetta er stór rússíbanagarður, sem er alger snilld og skemmtum við okkur frábærlega. Hildur þorði meira að segja í nær alla rússíbanana. Það er auðvitað mikið afrek.