Skipulagsmál

Ég legg til að ALLIR horfi á Silfur Egils þáttinn frá því í dag (endursýndur klukkan 23.05 og ætti að birtast á netinu seinna í dag). Innslagið um skipulagsmál var frábært. Í raun frábært og grátlegt í senn. Frábært því það sýndi hvað við Reykvíkingar gætum gert úr miðbænum (sem var stutt með frábærum dæmum frá þýskalandi) og grátlegt vegna þess að síðan að ég man eftir mér hefur svo einstaklega lítið verið gert til að bæta miðbæinn. Samanburðurinn við Georgetown fannst mér til dæmis afskaplega góður, en það bæjarhverfi í Washington DC er afskaplega heillandi.

Ég hef trú á því að ansi margir af þeim sem sitji í borgarstjórn (borgarstjóri þar á meðal) vilji sjá svo miklu sterkari miðbæ, en þeir þurfa bara að fara að gera eitthvað í því. Og nei, háar byggingar í Skuggahverfi eru ekki lausnin.

ps. ég skrifaði aðeins lengri pælingu um þetta hér.

6 thoughts on “Skipulagsmál”

  1. Það er sorglegt hversu mikið við höfum látið gróðasjónarmið ráða í húsbyggingum í borginni okkar. Ekkert nema stórir kassar með ljótum gluggum. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með uppbyggingu úthverfanna. Ekkert nema nýjar Breiðholtsblokkir. Menn hafa ekkert lært frá sjöunda og áttunda áratugnum. Ég hef heldur aldrei skilið að eftir því sem við höfum orðið efnaðri þeim mun minna er lagt í húsbyggingar. Ekkert sem gleður augað. Það er ótrúlegt að það þurfi skipulagsfræðing til að segja okkur svona einfalda hluti.

    Það er fyrir löngu búið að eyðileggja Laugaveginn. Við það verður að horfast í augu við. Honum verður ekki bjargað nú með friðun tveggja kofa. Það á ekki að taka ákvörðun um friðun til þess að friða eigin samvisku vegna rangra ákvarðana síðustu áratuga.

  2. Nú, lokaatriðið var nú ekki mikið síðra, var gaman að sjá hvað Egill var í miklum vandræðum í umræðum um múslimamál, féll í allar klisjugildrurnar án þess að komast upp með það…

    Arkitektúr á Íslandi er nánast tabú. Metnaðarleysið hjá verktökum algjört, sveitarstjórnir gera ekkert til að stuðla að breyttum hugsunarhætti við lóðaúthlutun. Fyrsta skrefið er kannski að banna tæknilfræðingum að teikna fjölbýlishús, gera kröfur um að útskrifaðir arkitektar komi að slíkum byggingum?

  3. Já, loka-atriðið var dálítið pínlegt. En ekki fannst mér fyrsti viðmælandinn hans þar mikið skárri. (Var þetta sami gaurinn og skrifaði í Lesbókina síðasta laugardag? – mér fannst sú grein mjög góð) Hann virtist ekki trúa neinu slæmu uppá múslima, en öllu slæmu uppá Vesturlandabúa. Akkúrat öfugt við Egil.

  4. ..lesbókina í gær þá?
    Hann var helvíti hress, það er svosem ekki skrítið að sjá svona öfgar ..og þar er ábyrgð G.W.Bush nokkur :O)

Comments are closed.