Skrifstofan mín og gengismálin

Nota bene, ég skrifaði þetta á undan Dylan pistlinum, en birti ekki strax. Það skýrir byrjunina.

Ja hérna. Ein vika án þess að uppfæra þessa blessuðu síðu. Það mætti halda að hræðilega margt merkilegt hefði gerst í mínu lífi. Eða þá nákvæmlega ekkert.

Ég hef allavegana fátt til að skrifa um.

Jú, ég er kominn inná skrifstofu í fyrsta skipti í sögu Serrano. Hingað til höfum við bara haft litla holu fyrir ofan staðinn okkar í Kringlunni, þar sem ég hef reynt að koma mér fyrir ásamt verslunarstjóra, rekstrarstjóra og starfsfólki Kringlunnar sem vill tala við okkur. Sú hola er sennilega um 2-3 fermetrar, með litlu skrifborði þannig að ég hef oft setið í tröppunum eða á stól með tölvuna í fanginu.

Nú eða þá að ég hef bara unnið á kaffihúsum borgarinnar. Núna erum við hins vegar komin með skrifstofu í turninum í Smáralind. Ég er svo glaður að ég tók mynd af mér á nýju skrifstofunni. Jibbí jei!

* * *

Ég verð að játa að ég er ekkert alltof hrifinn af þessum gengismálum. Ég er ekki alveg að fíla það að eignir mínar, sem eru jú metnar í krónum, skuli hafa minnkað um fjórðung á nokkrum vikum. Ef þetta væri almennilegt land, þá væri búið að sparka Seðlabankastjóra landsins úr starfi sínu. Og við værum líka gengin í ESB. En auðvitað þurfa Sjálfstæðismenn að ríghalda í “sjálfstæða peningastefnu” og “fullveldi” landsins á meðan að eignir landsmanna hrynja í verði. Sveiflurnar í þessu hagkerfi eru svo fáránlegar að það er varla hægt að tala um þessi mál ógrátandi. Ísland í ESB, núna strax!

* * *

Í morgunþættinum Zúber í gærmorgun var fólk að hringja inn sem var í vandræðum útaf þessum gengisbreytingum. Meðal annars hringdi kona, sem átti 5,5 milljón króna bíl sem hún keypti með því að taka 70% lán í erlendri mynt. Nú er ég ekki einn af þeim sem gleðst yfir óförum annarra eða hlakka yfir því að bankastarfsmenn séu með allt niðrum sig. Langt því frá. En ég get einfaldlega ekki vorkennt fólki sem tekur 70% lán í erlendri mynt meðan krónan er í lágmarki til að kaupa sér bíl uppá 5,5 milljónir. Nú ek ég á 5 ára gamalli Nissan druslu, svo ég geri mér ekki grein fyrir því hvað nýjir bílar kosta, en samkvæmt stuttu tékki á toyota síðunni, þá getur maður keypt LandCruiser fyrir þannig pening. Sumar holur grefur fólk sér einfaldlega sjálft.

Af hverju finnst mér líka alltaf fólkið sem kvartar mest yfir bensínverðinu vera fólkið, sem er á eyðslumestu bílunum (og þá undanskil ég vitanlega atvinnubílstjóra)?

* * *

Á myndinni sem ég minntist á áðan má líka sjá að ég er kominn með stutt hár eftir að hafa verið með frekar sítt að aftan og framan í langan tíma. Þessi nýja stutta klipping gerir það að verkum að hárið á mér krullast allt upp, sem er mjög hressandi. Að ég held í fyrsta skipti á ævinni, þá klippti strákur hárið á mér.

Jú, og ég fór á bretti í annað skiptið á ævinni með vinkonu minni um helgina. Ég tók einhverjum framförum frá fyrsta skiptinu, en samt ekkert rosalega miklum. Og svo borðaði ég á Austur-Indíafélaginu, sem er alveg fáránlega góður veitingastaður ef að það hefur ekki komið nógu skýrt fram áður.

8 thoughts on “Skrifstofan mín og gengismálin”

  1. Af hverju tókstu mynd af þér á skrifstofunni ef málið er að sýna hvað skrifstofan er flott? Hefði ekki betra að sýna forvitnum lesendum hvernig skrifstofan lítur út frekar? Þetta er eins og ég væri mjög sáttur með að vera loksins kominn á Ferrari, og taka mynd af sjálfum mér inni í bílnum 🙂

    Annars hjartanlega sammála þér með gengismálin. Fólk sem tekur sér lán til að kaupa rándýran bíl þegar það hefur á ekki pening fyrir honum hefur ekki beinlínis efni á að kvarta undan því að gengisbreyting hafi orðið til þess að það skuldi meira en ella, þegar það skuldar nógu andskoti mikið fyrir.

  2. hvernig væri að horfa á ástandið á Írlandi áður en þú vælir um að við ættum að ganga í ESB. Írar hafa ekki nokkra stjórn á stýrivöxtum og m.a. af þeirri ástæðu eru bankarnir þar mjög nálægt því að rúlla. Ísland hefur ekkert í ESB að gera; við eigum eftir að fara mjög illa út úr því ef við göngum í það, annarrs ágæta bandalag.

  3. Sæl Einar.
    Nei nei ég ætla ekkert að bögga þig strákur vertu óhræddur um það. Það er nóg að ég ergi þig á blogginu 😉
    Til hamingju með nýju skrifstofuna og allt það. Ég geri ekki athugasemd við myndina þína. Skrifstofa er lítið án þess em vinnur þar.
    Ástæða þess að ég skrifa þessi ummæli er afstaða þín til Evrópusambandsins. Það er ánægjulegt að sjá að ungir athafnamenn átta sig á einföldum staðreyndum sem gamlir (og nýir) jálkjar ráðstjórnar sjálfstæðisflokksins virðast ekki geta (þora) að átta sig á.
    Hvað konuna varðar sem keupti bílinn þá hafa sjálfskipaðir sérfræðingar logið hana og marga aðra til að gera svona vitleysu og er hún ekki ein um af alþýðu manna að hafa trúað “sérfræðingum” og ráðgjöfum í svona málum. Fólk heldur að það geti treyst svona ráðgjöfum og missir svo allt útúr höndunum á sér fyrir vikið.
    Einn bíll er vel sloppið en fólk hefur verið að missa aleigu sína eftir svona ráðgjöf og meira til. Það hefur jafnvel staðið uppi stórskuldugt eftir að hafa misst allar eigur sínar að auki.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  4. Halldór, ég var að ná mynd af skrifstofunni OG nýju klippingunni. Svo snýst þessi síða auðvitað um mitt eigið egó. 🙂

    Og Sigtryggur, ég veit auðvitað ekkert um það hvernig þessi kona fékk þetta lán. En málið er einfaldlega að það er vel hægt að komast af án þess að eiga Toyota LandCruiser. Fólk má vel kaupa sér svoleiðis bíla ef það hefur efni á því, en það er afskaplega glæfralegt að gera það með því að skuldsetja sig á slíkan hátt. Við getum ekki kennt bankastafsmönnum um allt klúðrið.

    Og IMM, nú veit ég ekkert um írska banka, enda tel ég mi ekki þurfa að vera sérfræðing á ástandinu í hverju einasta ESB landi til að taka afstöðu til aðildar. En írsku bankarnir mega allavegana eiga það að ef þeir eru nálægt því að rúlla, þá getur stóri ESB seðlabankinn bakkað þá upp. Ef svipað gerðist á Íslandi, þá er hætt við því að hinn litli íslenski seðlabanki gæti lítið gert í því.

  5. @IMM:

    Að stjórnin í Írlandi hafi ekki tök á efnahaginum þar eru ekki góð rök fyrir því að Ísland geti ekki geti ekki gengið í ESB. Samkvæmt þeim rökum ættum við ekki að taka bílalán vegna þess að konan í útvarpinu ræður ekki við bílalánin sín.

    @Sigtryggur:

    Þetta eru sömu sérfræðingar sem hafa nú skyndilega svo miklar áhyggjur af því að fólk sé að lenda undir þessum lánum að þeir verða að draga úr þessum lánveitingum. Nú er ég ekki fjármálafræðingur, en ætti ekki einmitt að vera fínt að taka lán í erlendri mynt núna? Og á móti – ættu bankarnir ekki frekar að hafa haft þessar áhyggjur á meðan að krónan var há?

    Annars hélt ég að þegar að Samtök atvinnurekenda sömdu um að fá að greiða launþegum í erlendum gjaldmiðlum í kjarasamningunum um daginn að það væri ákveðin vísbending um að það sé hafin hér þróun í átt að nýjum gjaldmiðli (hvort sem stjórninni líkar eða ekki). Er það ekki ljóst að það ætla allir, nema ríkið, að taka upp evru hér?

    Nú spyr ég, af því að ég skil það ekki: Ef að ESB reynist svona illa, af hverju getum við þá ekki sagt okkur úr ESB aftur? Er þetta óafturkallanleg aðgerð?

  6. Nú spyr ég, af því að ég skil það ekki: Ef að ESB reynist svona illa, af hverju getum við þá ekki sagt okkur úr ESB aftur? Er þetta óafturkallanleg aðgerð?

    Væntanlega er hún það.

    Það sem við í Samfylkingunni höfum hins vegar bent á milljón sinnum er að eina leiðin til að fá úr því skorið hversu góð eða slæm ESB aðildin yrði sé að að sækja um aðild og athuga hversu góðum samningum við náum.

    Ég er á því að hörðustu andstæðingar ESB séu svona harðir í afstöðu sinni að stórum hluta útaf einhverri þjóðrembu (Ísland myndi ekki vera sjálfstætt blah blah – einsog að Þýskaland og Frakkland séu ekki sjálfstæð lönd!) en ekki vegna þess að þeir telji að efnahagslegum hagsmunum okkar sé ekki betur borgið innan ESB. Þessi hópur þorir einfaldlega ekki að fara í aðildarviðræður því þeir kjósa frekar að koma með einhverja sleggudjóma um það hvernig þær viðræður myndu fara.

    Langskynsamlegasta leiðin er að sækja um aðild og leyfa þjóðinni að kjósa um aðildina. Ef að þjóðin hafnar ESB, þá verðum við ESB unnendur einfaldlega að halda kjafti næstu árin. Ég er hins vegar fullviss um að þegar að þjóðin sæi hversu vel okkar hagsmunum væri borgið innan ESB þá myndi hún samþykkja aðild.

    Sjálfstæðisflokkurinn myndi þá klofna og einn armur hans stofna þjóðernisflokk. Þess vegna þorir flokkstorystan ekki í aðildarviðræður.

  7. Einar, ég er alveg sammála þér. 🙂

    Ég er búinn að vera að lesa meira um ESB í dag, bara svona af því. Svo virðist sem það hafi ekki verið nein leið til þess að hætta í sambandinu – enda lítil eftirspurn eftir því – en það er víst búið að samþykkja einhverja formlega leið til þess núna.

    Ekki það, þegar þetta er einu sinni komið á þá verður væntanlega mjög flókið mál að hætta vegna þeirra skuldbindinga og samninga sem gerðir verða. En þetta þýðir væntanlega að þetta þjóðernis-sjálfstæðis-þvaður er alveg loftlaust.

    Áhugaverðast finnst mér að Ísland, Noregur, Hvíta-Rússland og Sviss eru einu þjóðirnar sem eru ekki á leiðinni inn. Hvað eiga þessar þjóðir sameiginlegt annað en þvermóðsku og afturhaldssemi? Það er allavega gott að vera með það á hreinu í hvaða liði maður er. 🙁

Comments are closed.