Smashing Pumpkins

Tónleikarnir í gær voru náttúrulega snilld, enda ekki við öðru að búast. Þeir voru þó talsvert öðruvísi en þeir, sem ég sá í Aragon í maí. Þar voru allir standandi í einni þvögu, en þessir voru í United Center (Chicago Bulls höllinni) og voru allir í sætum.

Það var grein í Chicago Tribune í dag, þar sem talað var við nokkra aðdáendur á tónleikunum. Það voru nokkrir, sem komu frá Evrópu, Asíu og Ástralíu bara til að sjá þessa tónleika. Einn strákur frá Ítalíu var búinn að vinna tvær vinnur í allt sumar, bara til að borga farmiðann til Chicago og miðann á tónleikana. Þeim hefur ábyggilega fundist þetta vera þess virði. Pumpkins spiluðu í nær 3 tíma og þau tóku nær öll þekktustu lögin sín.

Þau voru duglegir við að breyta útsetningunum á þekktustu lögunum. Þetta kom oftast vel út, sérstaklega í Today, en skemmdi dálítið fyrir, sérstaklega mjög hröð útgáfa af Disarm, og nánast speed-metal útgáfur af Everlasting Gaze og Bullet with Butterfly Wings.

Það var náttúrulega klappað og öskrað ógurlega þegar þau þökkuðu fyrir sig í fyrsta sinn, og endaði það með því að þau voru klappaðir upp þrisvar sinnum. Í fyrsta skiptið kom pabbi Billy Corgan og spilaði á gítar í einu lagi. Þau voru svo klappaðir aftur upp og þá tóku þau m.a. Cherub Rock. Í síðasta skiptið hélt Billy Corgan langa ræðu, þar sem hann þakkaði fyrir sig. Hann þakkaði aðdáendunum og afsakaði öll þau skipti, þegar þau í hljómsveitinni hafa verið erfið. Hann sagði svo auðvitað að Chicago væri besta borg í heimi og hann vonaðist til að eitthvað af íþróttaliðunum myndu nú fara að vinna eitthvað (Chicago Bulls, Bears, Cubs og Blackhawks eru öll ömurlega léleg þessa stundina, aðeins Chicago White Sox hafnaboltaliðið getur eitthvað).

Eftir ræðu Corgan þá kynnti James Iha bandið og var klappað vel fyrir þeim, sérstaklega Jimmy Chamberlain (enda hann snillingur). Í endann stóðu þau svo fjögur saman fremst á sviðinu og tóku 1979. Eftir þrettán ár er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum hætt. Það var einstakt tækifæri að vera viðstaddur þennan sögulega viðburð.