St. Louis

Helgin í St. Louis var góð. Við lögðum af stað á laugardagsmorgun í MiniVan, sem mamma Katie á. St. Louis er um 6 tíma akstur suður af Chicago. Við vorum komin þangað um 6 leytið. Við byrjuðum á því að labba um miðbæinn og horfðum á einhverja útitónleika, sem innflytjendur frá Jamaica stóðu fyrir. Því næst fórum við svo niður að gömlu höfninni við Mississippi, þar sem við borðuðum kvöldmat og sátum á bar fram eftir kvöldi.

Á laugardeginum fórum við svo niður að Gateway Arch, sem var byggður um miðja síðustu öld, sem minnismerki um landnema, sem héldu í vestur, en St. Louis var nokkurs konar miðstöð fyrir þá, sem hugðust halda til vesturríkjanna. Allavegana, þá er þetta hæsta minnismerki í Bandaríkjunum og nokkuð merkileg sjón. Við ákváðum að fara ekki uppí bogann, þar sem Katie hafði farið áður og var ekkert sérstaklega spennt. Við fórum því niður að Mississippi, þar sem við fórum í klukkutíma bátsferð um ána.

Eftir bátsferðina fórum við svo og kíktum á Busch Stadium, sem er heimavöllur St. Louis Cardinals, erkifjenda míns uppáhaldsliðs. Um kvöldið eyddum við svo dágóðum tíma að finna veitingahús en veitangastaðir í St. Louis eru ekki beinlínis hannaðir fyrir grænmetisætur einsog Katie.

Í gær fórum við svo í Anheuser Busch ölgerðina, þar sem við fórum í smá túr um staðinn, þar sem mest seldi bjór í heimi er búinn til og var það nokkuð fróðlegt. Síðan var endað inná bar, þar sem maður fékk ókeypis Michelob Light og Bud Light.

Eftir það keyrðum við svo aftur heim til Chicago.