Stokkhólms hálf maraþon 2011

Í gær hljóp ég hálf maraþon í Stokkhólmi annað árið í röð. Í fyrra hljóp ég á 1.44, en í ár var ég með fimm mínútum lélegri tíma 1.49. Það sem kannski var aðallega merkilegt við þessi tvö hlaup var munurinn á því hvernig ég æfði fyrir þau.

Í fyrra hljóp ég í júní-september allavegana þrisvar í viku og að minnsta kosti 5-10 kílómetra í hvert skipti. Alls voru kílómetrarnir 62 í júní, 105 í júlí og 140 í ágúst. Samanlagt yfir 300 kílómetrar. Þegar að kom að því að hlaupa hálf maraþonið var ég því orðinn vel vanur að hlaupa mjög langar vegalengdir (hafði að mig minnir fjórum sinnum farið yfir 15 kílómetra. En á móti var ég ekkert í sérstaklega góðu líkamlegu formi. Mér fannst einsog ég gæti hlaupið endalaust en ég var dottin úr öllu CrossFit formi – var með fitu á maganum og gat litlu lyft. Það tók mig um 6-8 vikur að ná mér í almennilegt almennt form eftir þetta hlaupasumar.

* * *

Í ár ákvað ég að breyta algjörlega um áherslu. Í stað þess að hlaupa nokkrum sinnum í viku ákvað ég að æfa bara CrossFit. Ég tók bara þá tíma, sem voru í boði í gym-inu mínu og í CrossFit Reykjavík þegar ég var heima í sumar. Ég hljóp einhvern slatta, en það voru alltaf sprettir. Ég hljóp einu sinni meira en 6 kílómetra allt sumarið, það var í Midnattsloppet þegar ég hljóp á frekar hægu tempói. Ef ég tel bara hlaup yfir 5 km, þá hljóp ég í allt sumar samtals um 50 kílómetra (einu sinni 10km, annars 5-7km). Ólíkt Crossfit stöðunum heima á Íslandi, þá er mjög lítið um hlaup í okkar stöð í Stokkhólmi – það eru í raun aldrei tekin lengri hlaup en 500 metrar í einu.

Þetta hefur skilað mér í mjög gott form. Ég er miklu sterkari en ég var, með minni fitu og mér líður vel. Það var kannski smá bjartsýni hjá mér að fara beint í hálf maraþon eftir að hafa bara hlaupið 5-6 kílómetra og æft CrossFit, en mér fannst það vera tilraunarinnar virði.

Ég við 12 km markið

Fyrstu 7-8 kílómetrarnir voru fínir. Að æfa svona mikið CrossFit gerir mann góðan í sprettum og styttri hlaupum og því fannst mér fyrsti hlutinn vera léttur. Eftir 10 kílómetra fór ég að finna fyrir löppunum mínum talsvert og það var svo slæmt að eftir 13 kílómetra var ég næstum því hættur því auk þess var ég orðinn mjög slæmur í mjöðunum. Ég þurfti þá að stoppa í smá stund því ég var kominn með svo mikinn krampa í lappirnar. Næstu 4-5 kílómetrar voru gríðarlega erfiðir – ég var með stanslausam krampa í löppunum og mér leið einsog þær væru gerðar úr blýi – og að ef ég myndi hlaupa aðeins hraðar þá myndi ég detta niður og ekki geta labbað í mark. Þetta var í raun versti sársauki, sem ég hef fundið fyrir í íþróttum. Það var bara einhver þrjóska, sem hélt mér áfram í þessu. Ég þurfti að stoppa 3-4 sinnum og teygja á löppunum þegar ég hélt að kramparnir væru að drepa mig.

Eftir að ég gat hlaupið upp brekkuna að Götgötunni þá gat ég svo klárað þetta á sæmilegum hraða. Lokatíminn var 1.49:13. Ég var ótrúlega ánægður með að ná allavegana að klára þetta á undir 1.50, en takmarkið hafði verið að fara hlaupið á undir 1.40.

Kominn í mark

Það sem ég hef lært af þessu er jú að ef maður ætlar að hlaupa hálf maraþon, sama hversu góðu almennu formi maður er í, þá verður maður að taka nokkur lengri hlaup líka til þess að venja lappirnar á þá vinnu. Það skiptir engu máli hvað maður getur tekið í réttstöðulyftu því það er svo allt öðruvísi álag á mjaðmir og lappir að hlaupa 21 kílómetra. Ég er ekki alveg viss hvort ég fer í hálf maraþon á næsta ári, en þá mun ég sennilega taka svipað prógramm og núna, en á tveggja vikna fresti bæta við lengra hlaupi – frá 10-20 kílómetrum. Það ætti að koma í veg fyrir að maður verði jafn slappur í löppunum næst.