Indlandsferð 2: Hellar og Udaipur

Þegar við Margrét vorum í taxa á leið frá flugvellinum hérna í Udaipur, á leið uppá gistiheimilið þar sem ég er núna, þá var það með ólíkindum róandi upplifun eftir geðveikina í Mumbai og Aurangabad. Í Udaipur er miklu minni mengun, færri bílar og minni læti. Hérna sér maður til fjalla og vötnin fallegu í kringum þessa vatnaborg eru svo sannarlega velkomin tilbreyting frá Aurangabad og Mumbai.

* * *

Rútuferðin frá Mumbai til Aurangabad var skrautleg. Lestarmiðar til Aurangabad voru uppseldir og því neyddumst við til að taka rútu. Það tók rútuna okkar 12 klukkutíma að fara þessa 400 kílómetra leið á milli borganna. Það þýðir að rútan var að meðaltali á 33 kílómetra hraða og miðað við hvernig ferðin gekk þá þykir mér það bara nokkuð gott.

Rútan var furðumikill lúxus. Hún var útbúin með litlum kojum í stað sæta, þannig að við gátum legið lengst af ferðinni. Það var þó ekki auðvelt að sofa, því að þjóðvegir á Indlandi eiga það sameiginlegt með borgarvegum að á þeim eru stanslaus læti og stanslaus umferðarteppa. Við lögðum af stað frá rútustöðinni í Mumbai um hálf tíu um kvöld og allt til klukkan hálf fjögur um nóttina var rútan í umferðarteppu. Sennilega tók það um tvo tíma að keyra útúr borginni og á þjóðvegunum var þetta lítið skárra. Vegirnir voru uppfullir af vöruflutningabílum, sem að flautuðu einsog óðir menn á hvorn annan. Það er sennilega ágætis trix svo að þeir haldi sér allir vakandi, en það gerði okkur ekki beint auðvelt með að sofa. Einhvern veginn tókst okkur þó að sofa síðustu 3-4 tímana í ferðinni.

Í Aurangabad fundum við okkur hótel í annari tilraun og skipulögðum strax ferð í Ellora hellana, sem eru í um hálftíma fjarlægð frá Aurangabad. Á svæðinu eru um 30 hellar, sem hafa voru skreyttir á magnaðan hátt á um 500 ára tímabili frá 600-1100. Þar sem að skreytingarnar spanna svo langan tíma þá spanna þau líka ólík trúarbrögð, sem voru ráðandi á Indlandi á þeim tímum – fyrst búddisma, svo hindúisma og síðast jain. Minni hellarnir eru fullir af útskornum búdda styttum og fleiru slíku, en hápunkturinn er Kailash hofið. Það var höggvið útúr berginu á um 100 ára tímabili frá árinu 770. 250.000 tonn af bergi var höggvið og fjarlægt og eftir stendur úthöggið hindúa hof, sem er með ólíkindum fallegt.

* * *

Þegar við komum frá hellunum skoðuðum við okkur aðeins um í Aurangabad, sem er eins ósjarmerandi og hægt er að hugsa sér. Allavegana sá hluti borgarinnar sem við vorum í. Mengunin var gríðarleg, sem var kannski ekki endilega útaf fjölda farartækja heldur einna helst af því hversu gömul þau eru. Rickshaw bílar eru ótrúlega léttir (á þrem hjólum), en þeir eru gamlir og útblásturinn frá þeim er hreinasti viðbjóður. Umferðin á stærstu götunni í Aurangabad var sennilega ekki mikið meiri en á meðalgötu á Íslandi, en mengunin var nánast óbærileg. Auk þess var malbikið ónýtt og því þyrlaðist upp ryk, sem gerði ástandið enn verra.

Að vissu leyti er þetta eins í Mumbai og svo líka hérna í Udaipur (þótt að það sé sannarlega betra hérna). Mengunin væri svo margfalt minni ef að bílarnir væru ekki svona rosalega gamlir. Eldgamlir rickshaw og Ambassador leigubílar eru útum allt í Mumbai, sem gerir umferðarteppur í borginni óbærilegar. Leigubílar, sem ábyggilega eru yfir 30 ára gamlir eru enn í fullu fjöri og halda áfram að skila frá sér ofboðslegu magni af mengun.

* * *

Fólkið í Auranbabad var þó frábært einsog alls staðar hingað til á Indlandi. Við römbuðum inní giftingu á laugardagskvöldinu þar sem okkur var tekið vel og allir höfðum mikinn áhuga á okkur.

Á sunnudeginum fórum við svo til Ajanta hellanna, sem eru aðeins meira afskekktir en Ellora. Ajanta hellarnir voru notaðir sem búddamusteri frá árunum 200-600 og þarna voru allt að 200 munkar þegar að best lét. Þeir féllu svo í gleymsku í mörg hundruð ár og voru ekki enduruppgötvaðir fyrr en árið 1819 þegar að menn frá Austur-Indíafélaginu rákust á þá þegar að þeir voru á tígrisdýraveiðum. Ajanta hellarnir eru þekktir fyrir ótrúlegar myndskreytingar inní hellunum, sem eru um 30 að tölu.

Við skoðuðum flesta hellana í gríðarlegum hita á milli þess sem að annarhvor Indverji vildi fá mynd af okkur (aðallega Margréti). Það er frekar skrýtið að bókstaflega allir vilji fá mynd af sér með okkur. Litlum börnum finnst við fáránlega skrýtin og fyndin og fólk á öllum aldri vill fá myndir af sér með okkur. Allt frá unglingum til virðugra eldri manna. Á fjölmörgum heimilum á Indlandi er núna eflaust verið að sýna myndir af ljóshærðu útlendingunum, sem að fólk hitti um helgina.

* * *

Frá Aurangabad flugum við svo til Mumbai, þar sem við fengum að sitja tvisvar í umferðarteppu (aaaaah, Mumbai) er við reyndum að endurheimta hattana okkar af alþjóðaflugvellinum án árangurs – en restinni af deginum eyddum við á domestic flugvellinum á meðan að við biðum eftir flugi til Udaipur.

*Skrifað í Udaipur, Indlandi klukkan 20.09*

2 thoughts on “Indlandsferð 2: Hellar og Udaipur”

  1. Þetta með myndatökurnar er alveg skemmtilegt fyrst, en ég verð að viðurkenna að þetta verður mjög þreytandi til lengdar… Sérstaklega þegar maður getur varla farið neitt án þess að vera endalaust spurður…

Comments are closed.