Syd

Áhugaverð grein í The Guardian um tilraun blaðamanns þar til að taka viðtal við sérvitringinn Syd Barrett, sem var upphaflegi söngvari Pink Floyd.

Ég er mikill aðdáandi Pink Floyd en hef aldrei haldið sérstaklega uppá Syd Barrett tímabilið, en hann samdi öll lögin á fyrstu plötunni, The Piper at the Gates of Dawn. Auk þess samdi hann nokkur vinsæl lög, sem komu aldrei út á breiðskífu (nema á Echoes, best of plötunni, sem kom út í fyrra).

The Piper at the Gates of Dawn er frábær plata og enn er Interstellar Overdrive eitt af mínum uppáhalds Pink Floyd lögum. Eftir að Syd Barret yfirgaf Pink Floyd gaf hann út tvær sóló plötur. Ég á aðra, Madcap Laughs, sem er ekkert sérstök.

Það er þó áhugaverð staðreynd, sem blaðamaður The Guardian bendir á, að á Echoes á Syd Barrett einn fimmta af lögunum, þrátt fyrir að hafa bara verið með Pink Floyd í rúmlega eitt ár af þeim þrjátíu árum, sem þeir störfuðu. Reyndar er hluti af því vegna þess að þeir vildu gefa út lögin, sem Syd samdi fyrir The Piper at the Gates of Dawn, það er See Emily Play, Jugband Blues og Arnold Layne.