Temptation Island

Prófessorinn minn í markaðfræði, var að tala um þáttinn Temptation Island á Fox, sem hann sagði að væri núna uppáhaldsþátturinn sinn. Þessi sería byrjaði í síðustu viku og erum við Hildur búin að horfa á báða þættina. Þvílík snilld! Fox er sama stöðin og sýndi snilldina “Who wants to marry a multi-millionaire?”, en með Temptation Island þá toppa þeir sig algjörlega, því þessi þáttur er búinn að vekja jafnvel enn meira umtal og hneikslun meðal íhaldssamra Bandaríkjamanna.

Þátturinn byggist á því að 4 pör, sem eru búin að vera nokkuð lengi saman er send á litla eyju. Þar taka á móti þeim 8 strákar og 8 stelpur, sem öll eru á lausu. Pörin eru svo aðskilin, strákarnir fara á sinn hluta eyjarinnar og stelpurnar á hinn. Þar taka svo á móti þeim krakkarnir, sem eru á lausu og eiga þau að reyna að tæla þau í framhjáhald. Ég man ekki hvort það er einhver vinningur í boði, en takmarkið er að láta reyna á hvort samböndin þola allar freistingarnar. Það er vægast sagt mjög fróðlegt að horfa á þessa þætti og þetta heldur manni við efnið þangað til að næsta syrpa af Survivor byrjar eftir Super Bowl.