Tónlistarspurningar

Fyrir einhverju síðan bað Björgvin Ingi mig að fylla þennan spurningarlista út fyrir Rjómann. Á endanum var þetta aldrei birt, en ég fann þetta í einhverri tiltekt á harða disknum – Gummi Jóh bendir á að þetta var víst [birt hér](http://rjominn.is/articles/show/184) – Birti þetta þá bara aftur núna.

* * *

Besta lag í heimi er…
Gimme tha Power” – áróðurslag mexíkósku sveitarinnar Molotov um misnotkun mexíkóskra stjórnvalda á mexíkóskri alþýðu. Það að standa í tónleikasal í Chicago meðal 10.000 mexíkóa og hrópa “viva Mexico, cabrones” er skemmtilegasta tónleikaupplifun ævi minnar.

Besta plata í heimi er…
Blonde on Blonde” með Dylan. Inniheldur allavegana 4 lög, sem ég myndi telja meðal 20 bestu laga allra tíma: Visions of Johanna, I want you, One of us must know og auðvitað Sad Eyed Lady of the Lowlands. Að mínu mati besta Dylan platan og því að sjálfsögðu besta plata í heimi.

Af hverju eru ekki allir að hlusta á …
Neil Young, Dylan, Bowie og Elvis Costello.

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á…
Ágætis Byrjun” með Sigur Rós

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á ævinni á…
Dark Side of the Moon

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru …
Radiohead útitónleikar í 35 stiga hita í Grant Park í Chicago. 25.000 manns með Chicago skýjakjúfana fyrir aftan og til hliðar við sviðið og Michigan vatn hægra megin. Algjörlega frábært. Thom Yorke einn á sviðinu að syngja “You and whose army” var hápunkturinn.

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi mest hafa séð eru …
Einhverjir tónleikar með Bob Dylan í kringum 1966.

Platan sem mótaði unglingsárin mín er…
Hmmm… ég veit ekki. Þær plötur, sem ég hlustaði oftast á á þessum tíma eru sennilega “Weezer” með Weezer, “(What’s the story) Morning Glory” með Oasis, “Parklife” með Blur, “Pump” með Aerosmith og “Dark Side of the Moon” með Pink Floyd. Veit ekki hvort einhver hafi haft sérstaklega mótandi áhrif á mig.

Þegar ég geng í kringum tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á …
Vonandi eitthvað, sem ég hef ekki heyrt ennþá.

Ég er það sem ég er af því ég hlustaði á …
David Bowie, Aerosmith, Pink Floyd, Bob Dylan.

Ég vildi að ég hefði samið…
Eitthvað gott stuðlag, sem ég gæti sungið í partýjum og náð stemningunni alltaf upp.

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er…
True Love Waits” með Radiohead.

Besta bömmerlag í heimi er…
Last Goodbye” með Jeff Buckley.

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á…
Sea Change” með Beck

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma…
I’m the Ocean” með Neil Young.

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á…
I want you” með Elvis Costello.

Ég myndi helst vilja spila í bandi með (lífs eða liðnir)…
“The Band” með Dylan. Ég gæti reynt að syngja bakraddir.

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er…
Eels

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er…
Eagles, Keane

Þú ættir að hlusta á…
Eitthvað gott kántrí til að losna við fordómana. Til dæmis “Red Headed Stranger” með Willie Nelson.

Ef ég ætti að bæta við spurningu myndi ég bæta við (og svara henni)…
Besta tónlistin í líkamsræktinni: Rocky IV platan. Óborganleg snilld. Mér líður alltaf einsog ég geti allt þegar ég hlusta á þá plötu.

11 thoughts on “Tónlistarspurningar”

  1. Já, Rocky IV maður – Training Montage sérstaklega. Ég sver það að ég get tekið endalaust af armbeygjum með það lag á. Spurning um að gefa Ben Wallace diskinn í jólagjöf. Eða kannski frekar í nóvember gjöf.

  2. Ah, ok – ég sendi þetta á Björgvin rétt áður en að Rjóminn fór í frí – og svo minnti mig að hann hefði sagt að þetta hefði aldrei farið inn.

    En ljómandi! 🙂

  3. Nýja plata Mugisons er betri en allt þetta dót til samans, allt!
    Hugsandi fólk hlustar svo á Bubba og Megas.
    Ciao

  4. “Nýja plata Mugisons er betri en allt þetta dót til samans, allt!”

    Ok, er hún semsagt betri en Blonde on Blonde. Þetta kallar maður að byggja upp væntingar.

  5. Fyndið að hlusta á Neil Young þegar að maður er að ryksuga. Ég þarf alltaf að hlusta á eitthvað brjálæðislega hresst. Hah.

Comments are closed.