Tristan da Cunha – afskekktasti staður í heimi (uppfært)

Þegar ég var með vini mína í heimsókn fyrir einhverjum dögum þá fórum við (eða aðallega ég) að ræða hver væri afskekktasti staður á jörðinni. Við erum jú frá Íslandi, sem flestum finnst afskaplega afskekkt – en það eru klárlega til umtalsvert einangraðari staðir. Ég fletti þessu upp á Wikipedia og þá fann ég eyjaklasann Tristan da Cunha. Þessar eyjur eru samt ekki afskekktustu eyjur í heiminum – sá heiður á Bouvet eyja (sjá á Google Maps), sem er norsk eyja suður af Suður-Afríku, sem er lítið annað en jökull.

Tristan de Cunha er þó afskekktasti byggði staður í heimi. Eyjaklasinn liggur á milli Suður-Afríku (2.816 frá Suður-Afríku) og Suður-Ameríku (3.360 frá Suður-Ameríku). Stærsta eyjan er um 100 ferkílómetrar og þarna búa 270 manns. Eyjurnar tilheyra Bretlandi. Allir á eyjunni eru bændur og einn helsti tekjustofninn er sala á frímerkjum. Flestallir íbúanna eru afkomendur breskra sjóliða, sem settust þarna að 1800 og eitthvað.

Allar myndir frá þessum eyjum minna ótrúlega mikið á Ísland. Höfuðstaðurinn, Edinburg of the Seven Seas líkist íslensku sveitaþorpi ansi mikið og flestar myndir af eyjunum á Flickr gætu þess vegna verið teknar á Íslandi eða á Færeyjum þótt þessar eyjur séu tugþúsundum kílómetra frá Íslandi.

Allavegana, fyrir landafræðinörd einsog mig, þá fannst mér magnað að lesa um þessar eyjur.

* * *

**Uppfært 3. julí** Ég fékk póst frá fólkinu sem setti inn myndirnar á Flickr, þar sem viðkomandi tók eftir mikilli traffík frá þessari vefsíðu. Viðkomandi sagði að þau hefðu ferðast á báti í heila viku frá Suður Georgíu og vegna erfiðs sjós gátu þau ekki komist á gúmmíbát í tvo heila daga að Tristan de Cunha eyjunni. Loks hafi einhverjir eyjaskeggjar komið og sótt þau útí bátinn og farið með þau á land. Hérna má sjá restina af myndunum úr ferð þeirra. Og fyrir áhugasama þá er hægt að kaupa ferðir til þessara eyja hérna.

2 thoughts on “Tristan da Cunha – afskekktasti staður í heimi (uppfært)”

  1. Takk fyrir þetta Einar. Frá því að ég var gutti hef ég alltaf verið óður í að lesa bækur sem fjalla um siglingar manna víðsvegar um heiminn og Tristan da Chuna kom nokkrum sinnum upp. Gaman að fá að sjá þessar eyjur á mynd. Var búinn að reyna nota google leit fyrir nokkrum árum og ekkert gekk (kannski klaufaskapur hjá mér) En annars takk fyrir þetta YNWA

Comments are closed.