Vika í opnun í Sundbyberg

Núna er vika í opnun á Serrano í Sundbyberg. Ég sit hérna heima hálf veikur og reyni að skipuleggja síðustu dagana fyrir opnun. Reyndar erum við með svo gott starfsfólk í að skipuleggja opnunina að ég þarf svo sem engar svakalegar áhyggjur að hafa.

Inná Serrano í Sundbyberg

Upphaflega var opnunin plönuð næsta miðvikudag, en til að vera alveg örugg ákváðum við að fresta þessu um tvo daga. Það er því stefnt að því að taka prufukeyrslu á staðnum á miðvikudaginn. Við erum með nýjan yfirkokk hérna í Svíþjóð og hann hefur síðustu vikur verið að skoða breytingar á nokkrum hlutum á matseðlinum. Á miðvikudaginn ætlum við að prufukeyra þær hugmyndir fyrir lítinn hóp af fólki og ef það fer vel þá munum við opna staðinn fyrir almenningi tveimur dögum seinna.

Við erum að breyta nokkrum hlutum varðandi staðinn þarna í Sundbyberg. Maturinn mun svona á yfirborðinu líta eins út á matseðli – fyrir utan það að við verðum með meiri áherslu á salöt heldur en við höfum verið með hingað til. Aðaláherslan verður lögð á að laga undirstöðuhlutina í matnum og aðlaga það betur að því hráefni, sem við vinnum með hérna í Svíþjóð. Okkur hefur nefnilega fundist maturinn ekki vera alveg jafn góður í Svíþjóð og hann hefur verið heima á Íslandi.

Fyrir utan það er stærsta breytingin sú að við verðum með alvöru diska á staðnum og alvöru hnífapör. Ég tók nokkrar myndir þarna útfrá í gær. Það stærsta sem enn vantar inná staðinn er afgreiðsluborðið – þangað til það kemur er ekki hægt að klára uppröðun almennilega – en það klárast vonandi rétt eftir helgi. Opnun er semsagt skipulögð næsta föstudag 29.janúar og svo byrjar auglýsingaherferð í nágrenninu mánudaginn eftir. Þetta verður spennandi.

(fyrir þá sem eru í Stokkhólmi þá er staðurinn við Landsvägen 52 í Sundbyberg. Bláa línan Sundbyberg Centrum eða pendeltåg Sundbyberg).