Vinna og tónlist

Ég er gjörsamlega uppgefinn.

Annan daginn í röð hef ég unnið frá 8 um morguninn til 5 í venjulegu vinnunni og svo allt kvöldið á Serrano. Í gær var ég í vinnu frá 8-23 og í dag frá 8-21. Í gær var ég mættur vegna vesens, en við það fékk ég svo mikið af hugmyndum að ég ákvað að vinna í þeim í dag. Sem ég og gerði. Líður vel, þrátt fyrir þreytuna.

Einhvern tímann í háskóla festist ég í tölvuleik, sem mig minnir að heiti Caesar. Dálítið í anda Sim City. Að vissu leyti finnst mér það að reka veitingastað vera dálítið líkt því að spila þennan leik. Málið var nefnilega að í leikjunum einbeitti maður sér að því að laga eitthvert vandamál. Á meðan maður einbeitti sér að því vandamáli, þá spruttu hins vegar upp 10 önnur vandamál. Þegar maður var búinn að laga þau, þá var gamla vandamálið, sem maður hafði leyst, aftur orðið að vandamáli.

Þannig gekk þetta endalaust. Að stjórna veitingastað er ekki ósvipað. Þegar maður einbeitir sér að því að laga eitt vandamál, þá koma önnur upp. Þegar maður lagar þau, þá kemur gamla vandamálið upp aftur. Þessi rekstur getur verið ofboðslega skemmtilegur (og er það að mínu mati 95% tímans), en líka svo ofboðslega frústrerandi þegar að maður þarf að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur og svo kemst maður að því að vandamál, sem maður hélt að væru endanlega leyst, eru aftur orðin vandamál.

En svona er þetta. Merkilegt hvað ég hef þrátt fyrir allt gaman af þessum veitingastað.


Annars, þá var ég á labbi á laugaveginum fyrir einhverjum dögum og rataði inní Skífuna. Ætlaði að kaupa mér Cardigans diskinn (sem verður bæ ðe vei æ meiri snilld með hverri hlustun). Sá diskur var ekki til, en af einhverjum ástæðum fannst mér einsog ég þyrfti að kaupa eitthvað. Við kassann rakst ég á nýja diskinn með Hjálmum og keypti hann.

Allir (og ömmur þeirra) hafa verið að dásama þessa hljómsveit. Furðulegustu vinir mínir hafa talað um hana og fyrsta diskinn þeirra. Þetta lof fannst mér hálf skrítið, því ég sá ekki alveg appealið við sveitina. En á Snoop Dogg tónleikunum, þá heyrði ég 3 lög með þeim og varð bara nokkuð hrifinn.

Allavegana, mér fannst það nóg til að kaup diskinn og ég verð að játa að mér finnst hann virkilega góður. Diskurinn er búinn að renna í gegn (skv. iTunes) 10 sinnum hjá mér og ég hef haft hann líka í bílnum og þetta er góð tónlist. Frekar rólegt, en grípandi reggí. Nánast öll lögin hafa smogið inní hausinn á mér á einn eða annan hátt. Ég held að ég geti mælt með honum fyrir alla, sem hafa ekki uppgötvað þessa sveit enn sem komið er.

One thought on “Vinna og tónlist”

  1. Serrano er hreint ágætis skyndibitastaður og líklega einn ferskasti kosturinn í annars dapri flóru á skyndibita-torgi Kringlunnar. En þetta er pjúra skyndibita-staður og ekkert annað en það, veitingarstaður er því ekki rétta orðið. Hljómsveitin Hjálmar er í mínum huga ekki merkilegur pappír, þeir í það minnsta bæta engu við, en að hjakka, í besta falli í löngu margtuggnu fari. Ef mönnum er alvara með heyra huglæa niðurtjúnaða tónlist bendi ég eindregið á Sunn O))) en hana finnur þú varla í skífunni á tilboði. Það breitir því ekki að ég er sammála þér með Gísla Martein, ferskur tappi sem myndi örugglega láta verða af því að gera Reykjavík af alvöru borg. Ætli hann sé að spá í að gera Hverfisgötuna að bar, mellu og menningargötu eða að setja ný net í mörkin fyrir utan Breiðholtsskóla. nú eða gera Reykjavík að jafn aðlaðandi kosti fyrir ungt fólk og Garðabæ, Þaðan er helsti stuðningurinn, hefur maður heyrt.

Comments are closed.