Zocalo – Fresh Happy Mex

Núna eru 4 ár síðan að við opnuðum okkar fyrsta Serrano stað í Svíþjóð. Á þeim tíma höfum við lært ansi margt og þetta hefur verið oft á tíðum mjög erfitt, en það hefur líka gengið vel og verið ótrúlega skemmtilegt.

Fyrir um ári fórum við að ræða um möguleika á að breyta konseptinu aðeins og taka mið af því sem við höfum lært á síðustu árum. Munurinn á pantanamynstri á milli Svíþjóðar og Íslands er nokkuð mikill. Flestir heima velja sjálfir sinn mat og fólk kemur inná staðinn á mjög breiðu tímabili yfir daginn. Í Svíþjóð panta hins vegar nánast allir af matseðli og gríðarlega stór hluti af gestunum kemur á mjög stuttu tímabili í hádeginu. Þess vegna vildum við breyta því aðeins hvernig við afgreiðum matinn og byggjum upp staðina.

Við höfum líka verið sannfærð um að það sé hægt að gera matinn betri. Í haust ákvaðum við því að veita Alex Sehlstedt, yfirkokkinum okkar, sem gerði líka Nam konseptið með okkur, fullt frelsi til að endurhugsa algjörlega okkar matarkonsept. Hann fékk nokkra mánuði til að hugsa konseptið alveg frá grunni einsog hann myndi vilja hafa það.

Þriðja breytingin sem við veltum fyrir okkur var svo á nafninu Serrano. Síðasta sumar hófum vinnu með Íslensku Auglýsingastofunni til að vera markvissari í markaðsaðgerðum á Íslandi og í Svíþjóð. Við unnum þá vinnu með frábæru fólki á þeirri stofu og ein spurningin sem kom upp í viðtölum við starfsfólk og kúnna í Svíjþóð var um nafnið Serrano. Málið er að þegar að við opnuðum Serrano á Íslandi þá tengdi fólk orðið ekki við neitt sérstakt og því gátum við eignað okkur það á Íslandi. Serrano er nafnið á mexíkóskum chili pipar en í Evrópu er það líka þekkt sem spænsk skinka.

Og það var svo að í Svíþjóð lendum við sífellt í því að fólk heldur að við séum tapas staður. Þetta er vandamál sem við töldum að myndi aðeins aukast eftir því sem við myndum (vonandi) færa okkur sunnar í álfunni.

Því tókum við ákvörðun í október á síðasta ári að skipta um nafn á Serrano stöðunum í Svíþjóð (staðirnir á íslandi munu áfram heita Serrano). Við fórum nokkra hringi með nöfn. Íslenska auglýsingastofan spreytti sig á verkefninu og ég, Emil og yfirstjórnendur í Svíþjóð reyndum okkur líka. Ég fór yfir punktana frá því þegar við ákváðum Serrano nafnið í upphafi og við fórum í gegnum ansi mörg spænsk orð í leit að einhverju sem mér fannst passa við okkar stað. Ég skoðaði laganöfn og heiti á lestarstöðvum og bæjum í Mexíkó. Eitt laugardagskvöldið fékk ég mér bjór á bar hérna í nágrenninu og þar sannfærðist ég um hvað væri rétta nafnið fyrir nýja staðinn.

Eftir smá samtöl við Emil og stjórnendurna í Svíþjóð urðum við sammála um hið nýja nafn.

Zocalo Fresh Happy Mex
Zocalo Fresh Happy Mex

Zocalo er heitið á stærsta torginu í Mexíkóborg. Það er staður þar sem fólk hittir sína vini og fjölskyldumeðlimi, skemmtir sér og borðar góðan mexíkóskan mat. Alveg einsog veitingastaðurinn okkar.


Hér er heimasíða Zocalo og hér erum við á Facebook.

Frá og með 10.apríl munum við því gera breytingar á veitingastöðunum hér í Svíþjóð. Allir munu þeir loka í einhverja daga og þá munum við breyta afgreiðslunni. Á Zocalo pantar fólk við kassa af matseðli, borgar og fær bíper. Um leið og maturinn er tilbúinn þá pípir bíperinn og þú getur sótt matinn hjá eldhúsinu. Þannig forðumst við þær löngu raðir sem hafa myndast í hádeginu á stöðunum hérna úti. Í stað þess að eyða hádeginu í röð þá geturðu beðið í sætinu þínu og spjallað við þá sem þú ætlar að borða með.

Við munum líka breyta ytra útliti staðanna – við málum þá í ljósari litum og lýsum upp staðina. Við bætum inná stærstu staðina stórum listaverkavegg með mynd af Zocalo torgi, máluðu af sænskum listamanni Nina Wennersten.

Zocalo Mural
Zocalo Mural

Matseðilinn mun síðan breytast talsvert. Við gerum réttina einfaldari, tökum suma rétti út, lögum aðra og bætum við nýjum hlutum. Stærsta breytingin er að við bætum við tacos á matseðilinn okkar og einnig flóknari réttum á kvöldin. Staðirnir okkar hafa verið miklir hádegisstaðir en takmark okkar er að fá inn miklu fleira fólk á kvöldin. Því munum við byrja með fajitas og mexíkóska smárétti, sem við bindum miklar væntingar við.


Það er líka mikið að gerast í sjálfu fyrirtækinu okkar. Stærstu fréttirnar er að við erum komin með stóran sænskan fjárfesti með okkur í lið, en það er Gavia Food Holding, sem að átti áður Santa Maria vörumerkið. Það er gríðarlegur styrkur og viðurkenning fyrir okkar vinnu að fá svo sterkan sænskan fjárfesta í lið með okkur.

Við munum einnig á næstu þremur mánuðum opna þrjá frábæra staði í miðbæ Stokkhólms. Það að finna góðar staðsetningar fyrir veitingastaði í miðbæ Stokkhólms er eiginlega ómögulegt. Í þessi fjögur ár hefur ekki liðið sá dagur að ég hafi ekki leitað á einhvern hátt að staðsetningum. Ég hef fundað með ábyggilega vel flestum stórum fasteignaeigendum í Stokkhólmi og skoðað flesta veitingastaði í borginni. Vegna þess hversu sterkur réttur leigjenda er þá er nánast ómögulegt að fá pláss á góðum stað án þess að borga fyrir það mjög háar upphæðir í lyklagjald.

Því eru þessir staðir hreint stórkostlegir fyrir okkar konsept. Það er að vissu leyti tilviljun að allir þessir staðir skuli opna með svo stuttu millibili en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera algjörar AAA staðsetningar í miðbæ Stokkhólms. Við opnum fyrst um miðjan apríl á Kungsgatan 25 í nýju food-courti – K25 – þar sem ung og flott veitingastaðakonsept eru samankomin. Auk okkar eru þar Vigårda (sem hin sterka F12 grúppa á), Yoi, Panini, Beijing 8 og fleiri flottir staðir.

Í maí munum við svo opna okkar stærsta og flottasta stað á Klarabergsgatan 29, alveg við Sergels Torg. Meira miðsvæðis er ekki hægt að vera í Stokkhólmi. Sá staður mun vera með um 150 sæti á einni fjölförnustu götu Stokkhólms. Og í sumar munum við opna á Regeringsgatan 20, einnig mjög miðsvæðis aðeins 50 metrum frá Kungsträdgården. Við teljum að allir þessir staðir muni verða stærri en okkar stærsti staður í dag.

Þannig að næstu vikur verða spennandi. Það hefur verið mikið að gera í að undirbúa þetta allt og það er auðvitað mikið eftir, en við gætum ekki verið spenntari fyrir komandi vikum.