Moby

Jæja, búinn að fá tvo miða á Moby. Hann spilar í Aragon í Chicago 6. október. Ég fór í þennan sal að sjá Smashing Pumpkins og er þetta flottur salur. Ticketmaster reyndist mér ágætlega í þetta skiptið. Ég er búinn að liggja á Refresh takkanum í 5 mínútur og það dugði til að ná miðum. Vei vei!!

Pollstar

Ég var einhvern daginn að skoða Pollstar til að sjá hvaða tónleikum ég væri að missa af í Chicago meðan ég er hérna heima. Þau nöfn, sem ég man eftir eru: Korn, Rage Against the Machine, Korn, Beastie Boys, Roger Waters, Cypress Hill, Limp Bizkit, Eminem, Ice Cube, Dr. Dre, Wu-Tang Clan. Þetta er ekki gott mál

Ó nei!

Ó nei! Ég var að lesa í 24-7 að Wyclef Jean, hinn ágæti rappari úr Fugees ætlaði að endurgera eitt af uppáhaldslögunum mínum, Wish you were here með Pink Floyd. Það er alls ekki gott mál. Þetta lag er heilagt! Ef maðurinn ætlar að bæta danstakti við lagið, þá er hann algerlega að eyðileggja það. Svona má ekki gera.

Twist

Það er dálítið fyndið, að fyrir leikinn var Chubby Checker að spila. Við vorum að tala um hvað hann hlýtur að vera orðinn nett þreyttur á að spile The Twist. Hann er ennþá að syngja lagið, einhverjum 40 árum eftir að það kom út. Hinn eini sanni Dick Clark söng svo Take me out to the ball game fyrir 7. lotu.

Pumpkins

Smashing Pumpkins eru að hætta. Ég er nokkuð feginn að ég fór á tónleika með þeim, þegar þeir voru hérna í Chicago í apríl. Billy Corgan sagði að hann væri þreyttur á að “fighting the good fight against the Britneys of the world”. Það er auðvelt að skilja hann. Britney seldi 1.3 milljón eintök fyrstu vikuna eftir að nýji diskurinn hennar kom út. Machina, nýja Smashing Pumpkins platan hefur síðan í febúar selt 500.000 eintök.

Tónleikar á Íslandi

Ég var að pæla í því um daginn af hverju það koma svo sjaldan almennilegar hljómsveitir til Íslands. Hérna í Chicago hef ég farið á allmarga tónleika og voru þeir flestir haldnir í sölum, sem eru ekki stærri en Laugardalshöllin.

Reyndar voru tónleikar með Metallica og Rage against the Machine, sem ég fór á með um 35.000 áhorfendum, en flestir tónleikarnir hafa aðeins verið með um 3-5.000 áhorfendum.

Ég fór t.d. fyrir tveim vikum á tónleika með Oasis og Travis, þar sem voru um 3.000 áhorfendur. Það þarf enginn að segja mér að það yrði erfitt að fylla Laugardalshöllina með þessum sveitum.

Eins fór ég á Smashing Pumpkins þar sem voru um 5.000 manns. Wyclef Jean spilaði fyrir um 2000 manns og sama gerðu Method Man/Redman. Manic Street Preachers spiluðu á smá klúbbi enda þekkir enginn þá hérna.

Málið er að ég trúi því ekki að það væri erfitt að fylla Laugardalshöllina með þessum sveitum. Hvernig stendur þá á því að til að mynda í fyrra voru engir almennilegir stórir tónleikar á Íslandi?