« nóvember 02, 2005 | Main | nóvember 06, 2005 »

Prófkjör

nóvember 04, 2005

Það er eitthvað skrítið að koma yfir mig. Kannski eitthvað svipað og virðist vera að koma yfir Möggu. Mér líst nefnilega bara helvíti vel á Gísla Marten sem borgarstjóra. Nú hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn á minni ævi, en svei mér þá ef að ég myndi ekki freistast til að láta af því verða ef að Gísli myndi slá til. Kannski er þetta bara eitthvað stundarbrjálæði hjá mér og kannski mun ég eftir nokkra daga reyna að þræta fyrir það að ég hafi nokkurn tímann skrifað þessi orð. En svona líður mér í dag.

Ég er nefnilega orðinn þreyttur á R-listanum og öllu því veseni í kringum hann. Ég vildi auðvitað helst að Samfylkingin sæi um borgina, en það mun aldrei gerast. Samfylkingin mun alltaf verða að treysta á Vinstri-Græna, Framsókn eða aðra ámóta skemmtilega flokka. Því er ég farinn að hallast að því (sérstaklega ef að núverandi borgarstjóri verður oddviti Samfylkingarinnar) að Sjálfstæðisflokkurinn sé bara nokkuð álitlegur kosti. En þá einungis ef að Gísli Marteinn verður valinn.


Það fyndna við þessar prófkjörsumræður er að Vilhjálmur Þ. telur sig geta náð í meira fylgi út fyrir flokkinn! Sjálfstæðismenn eru ekki með réttu ráði ef þeir halda að Vilhjálmur geti smalað fólki úr öðrum flokkum betur en Gísli Marteinn. Til þess er hann búinn að vera alltof lengi þarna inni og hann virkar alltof stífur til að höfða til neinna annarra en hörðustu Sjálfstæðismanna.

Ef að Sjálfstæðismenn væru skynsamir (ég veit, stórt ef) þá myndur þeir velja Gísla Martein, því hann hefur mun meiri möguleika á að ná inn fylgi úr öðrum flokkum. Meira segja menn einsog ég, sem hef haft ofnæmi fyrir þáttunum hans og framkomu hans í stjórnmálaþáttum (aðallega vegna þess að hann ver ALLT, sem að Davíð segir eða gerir einsog allir Sjálfstæðismenn), er farinn að hallast að því að ég gæti bara hugsað mér Gísla sem næsta borgarstjóra.

Ég meina er einhver betri kostur í stöðunni?

Gísli býr í Vesturbænum (plús) og ég hef trú á því að hann vilji sjá borgina nokkurn veginn einsog ég vil sjá hana skipulagslega. Ég hef ekki hugmynd um hver stefnumál hans eru, enda hefur þetta prófkjör snúist um persónur en ekki málefni, en ég hef einhvern veginn góða tilfinningu fyrir því að hann hafi réttu hugmyndirnar.

Reyndar hefur hann farið niður í þá gryfju að kenna R-listanum um allt sem miður fer í heiminum og þetta væl hans um umferðarteppur er afar skrýtið. Ég er nefnilega alinn uppí sveitarfélagi þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið síðan á steinöld. Þar lenti ég í umferðarteppu á hverjum einasta degi þegar ég fór til vinnu úr Garðabæ yfir í Reykjavík. Umferðarteppurnar voru nefnilega verstar í Garðabæ og Kópavogi þar sem Sjálfstæðismenn ráða. Ég hef aldrei orðið neitt sérstaklega var við miklar umferðarteppur í Reykjavík. Reyndar bý ég í Vesturbænum og hef búið í Chicago, þannig að kannski tek ég ekki eftir þessu. Ef að R-listinn er lélegur í að laga umferðarteppur, hvað þá með Sjálfstæðismenn í öðrum sveitarfélögum?

En allavegana, kjósið Gísla Martein, kæru Sjallar. Þá er vel hugsanlegt að ég merki við Sjálfstæðisflokkinn næsta vor. Allavegana verður kosningabaráttan skemmtilegri með Gísla.

518 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Stjórnmál

Vinna og tónlist

nóvember 04, 2005

Ég er gjörsamlega uppgefinn.

Annan daginn í röð hef ég unnið frá 8 um morguninn til 5 í venjulegu vinnunni og svo allt kvöldið á Serrano. Í gær var ég í vinnu frá 8-23 og í dag frá 8-21. Í gær var ég mættur vegna vesens, en við það fékk ég svo mikið af hugmyndum að ég ákvað að vinna í þeim í dag. Sem ég og gerði. Líður vel, þrátt fyrir þreytuna.

Einhvern tímann í háskóla festist ég í tölvuleik, sem mig minnir að heiti Caesar. Dálítið í anda Sim City. Að vissu leyti finnst mér það að reka veitingastað vera dálítið líkt því að spila þennan leik. Málið var nefnilega að í leikjunum einbeitti maður sér að því að laga eitthvert vandamál. Á meðan maður einbeitti sér að því vandamáli, þá spruttu hins vegar upp 10 önnur vandamál. Þegar maður var búinn að laga þau, þá var gamla vandamálið, sem maður hafði leyst, aftur orðið að vandamáli.

Þannig gekk þetta endalaust. Að stjórna veitingastað er ekki ósvipað. Þegar maður einbeitir sér að því að laga eitt vandamál, þá koma önnur upp. Þegar maður lagar þau, þá kemur gamla vandamálið upp aftur. Þessi rekstur getur verið ofboðslega skemmtilegur (og er það að mínu mati 95% tímans), en líka svo ofboðslega frústrerandi þegar að maður þarf að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur og svo kemst maður að því að vandamál, sem maður hélt að væru endanlega leyst, eru aftur orðin vandamál.

En svona er þetta. Merkilegt hvað ég hef þrátt fyrir allt gaman af þessum veitingastað.


Annars, þá var ég á labbi á laugaveginum fyrir einhverjum dögum og rataði inní Skífuna. Ætlaði að kaupa mér Cardigans diskinn (sem verður bæ ðe vei æ meiri snilld með hverri hlustun). Sá diskur var ekki til, en af einhverjum ástæðum fannst mér einsog ég þyrfti að kaupa eitthvað. Við kassann rakst ég á nýja diskinn með Hjálmum og keypti hann.

Allir (og ömmur þeirra) hafa verið að dásama þessa hljómsveit. Furðulegustu vinir mínir hafa talað um hana og fyrsta diskinn þeirra. Þetta lof fannst mér hálf skrítið, því ég sá ekki alveg appealið við sveitina. En á Snoop Dogg tónleikunum, þá heyrði ég 3 lög með þeim og varð bara nokkuð hrifinn.

Allavegana, mér fannst það nóg til að kaup diskinn og ég verð að játa að mér finnst hann virkilega góður. Diskurinn er búinn að renna í gegn (skv. iTunes) 10 sinnum hjá mér og ég hef haft hann líka í bílnum og þetta er góð tónlist. Frekar rólegt, en grípandi reggí. Nánast öll lögin hafa smogið inní hausinn á mér á einn eða annan hátt. Ég held að ég geti mælt með honum fyrir alla, sem hafa ekki uppgötvað þessa sveit enn sem komið er.

455 Orð | Ummæli (1) | Flokkur: Vinna

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33