Þras um ESB og Samfylkinguna

Af því að ég er löngu hættur að nenna að skrifa um íslenska pólitík á þessa síðu, þá er það næstbesta sem ég get gert að vísa í skrif, sem ég er sammála. Til dæmis þessi pistill hérna: Enn um leiðinlegt ESB þras!. Pistillinn er allur góður og meira að segja eru sum kommentin ágæt. En hérna er meginefnið, sem ég er svo innilega sammála (feitletranir mínar)

>Umræða um gjaldmiðil og fjármögnun atvinnutækifæra virðist komin upp á hillu. Fólk virðist farið að sætta sig við ónýta krónu og AGS sem þrautavarnarlánveitanda um ókomna framtíð. Slíkt er hættulegt, það er vísir að uppgjöf. Í raun má segja að ákveðið sýndarástand ríki á landinu, fólk er farið að velja upphafspunkta fyrir og eftir hrun eftir hentisemi. Hvergi er þetta augljósara en í ESB umræðunni.

>70% þjóðarinnar vill slíta ESB umræðum án þess að þjóðin fái að kjósa um samning. Ég efast um að þetta hlutfall yrði nokkurn tíma eins hátt í löndum eins og Noregi og Sviss og hafa þau lönd þó efni á að segja nei við ESB.

>Það er eins og 70% landsmanna haldi að Ísland standi jafnfætis hinum EFTA löndunum og hér hafi aldrei orðið neitt hrun. Og ekki nóg með það, eingöngu er nóg að segja „nei“, ekkert virðist þurfa að hugsa um hvað taki við eftir „nei“, enda er búið að stilla ESB umræðunni þannig upp að aðild er alls ekki partur af efnahagsendurreisn Íslands, heldur einhver hugmyndaleikfimi Samfylkingarinnar. Þannig er ESB aðild orðin að flokkspólitísku þrasi sem allir eru orðnir hundleiðir á. Þetta er auðvita óskastaða „nei“ liðsins því þá þurfa þeir ekki að gera grein fyrir hvernig staðið verði að efnahagsuppbygginu hér án ESB aðildar, né þurfa þeir að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil eða hvernig við losnum við AGS. „Þetta mun reddast einhvern veginn“, virðist sem fyrr, fullkomið svar fyrir meirihluta þjóðarinnar.

>Hér er Ísland á öndverðum meiði við útlönd. Erlendis sjá menn skýra tengingu á milli AGS prógramms og ESB aðildar. Í margra augum eru þetta óaðskiljanlegar undirstöður efnahagsuppbyggingar Íslands. Aðeins með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig fær landið stöðugan gjaldmiðil (fyrst krónu innan EMR-2 vikmarka og síðan evru) og þannig aðgang að fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum og innan ásættanlegs tímaramma. Þannig verður óvissunni eytt.

Þetta feitletraða finnst mér vera eitt af aðalmálunum. Það sem virðist einkenna umræðu á netinu er óstjórnlegt hatur sumra á Samfylkingunni og sú ályktun þeirra að í þeim flokki séu eintómir snillingar, sem geti stjórnað öllu á Íslandi á bakvið tjöldin. Samkvæmt því er það fólk í Samfylkingunni, sem að snýr uppá hendur VG-liða, sér til þess að Ísland leggist flatt fyrir AGS og ESB og umfram allt sjái til þess að Jón Ásgeir hafi það nú gott. Þessi umræða er orðin svo biluð að Samfylkingarfólk er flest hætt að nenna að svara fyrir hana.

Auðvitað snýst ESB aðildin ekki um hagsmuni Samfylkingarinnar, heldur íslensku þjóðarinnar. Menn gleyma kannski nauðsyn á breytingum í gjaldeyrismálum þegar að við erum með gjaldeyrishöft, sem að flestir þurfa ekki að glíma við dags-daglega. En ef að einhver heldur að núverandi ástand í gjaldeyrismálum sé æskilegt til frambúðar fyrir fyrirtæki á Íslandi, þá eru þeir ansi langt frá raunveruleikanum. Ef menn vilja hafna ESB aðild þá verða þeir þá að koma með aðrar lausnir, ekki bara upphrópanir um hversu almáttug og ill við flokksfólk í Samfylkingunni erum.

2 thoughts on “Þras um ESB og Samfylkinguna”

  1. Það vantar like button á síðuna þína. Ég smelli því einu like-i handvirkt á þessa færslu.

  2. mjög gott innlegg í umræðuna.

    Ég er mikill ESB sinni en það hefur komið mér á óvart hvað flokksfólk í Samfylkingunni er duglegt að verja gjaldeyrishöftin og gagnsemi þeirra. Innan ESB hefðum við ekki haft þetta “frábæra” og “sjálfstæða” tæki. Þetta er auðveldlega hægt að túlka að við hefðum verið varnarlaus innan ESB með krónu, eða evru eins og dæmið með Grikkland sýnir.

    .. ég hefði viljað sjá Samfylkinguna fara “evrópskar” leiðir út úr efnahagskreppunni til að sýna hvað þær virka í raun vel, td. eins og með hröð umskipti í Póllandi þar sem gjaldmiðillinn féll jafn mikið og krónan en hefur nú styrkst aftur umtalsvert án gjaldeyrishafta.

    .. hér virðist fólk(innan Samfylkingarinnar) duglegt að sýna fram á skaðsemi fjórfrelsisins, sem ESB og EES byggir á. Samfylkingin verður að hætta þeirri gagnrýni líka og taka skrefið í ESB bæði af hugsjón og í framkæmd.

Comments are closed.