Evrópuferð 2: París og Lyon

Þrátt fyrir að ég uppfæri þessa bloggsíðu ekki nema 1-2 svar á ári þá hugsa ég oft um hluti sem mig langar að skrifa um hér.  Þegar ég hjóla í vinnu á morgnanna þá skrifa ég oft í hausnum á mér pælingar sem svo komast aldrei mikið lengra.  

Ég hef líka aðeins hugsað hvernig ég get skrifað um ferðalög á þessa bloggsíðu.  Ferðasögurnar sem ég skrifaði hérna fyrir 10-15 árum voru fullar af fróðleik um framandi staði, sem er kannski ekki alveg jafn spennandi þegar við erum að ferðast um staði sem flestir Íslendingar þekkja vel.  Mér finnst það samt glatað að mín einu spor á internetinu séu á hinu hræðilega Twitter/X og svo á Instagram eða Facebook.

Niðurstaðan mín er að reyna að skrifa aftur ferðasögu, en hafa meira myndefni og einföld meðmæli um staði, sem okkur fannst standa uppúr.


Frá Birmingham tókum við lestina aftur til London og þaðan alveg svívirðilega dýra Eurostar lest til Parísar, þar sem allar lestar voru yfirfullar af fólki á leið á Ólympíuleikana.  Við vorum komin til Parísar 10 dögum áður en Ólympíuleikarnir hófust þar sem gerði það að verkum að það var eriftt að finna gistingu og á endanum ákváðum við að vera aðeins í eina nótt í París en bóka strax daginn eftir lest til Lyon, þar sem væri betra og ódýrara að vera.

Croissant í morgunmat í Café Ventura í París
Á labbi um París
Ávextir
Eiffel turninn með Ólympíuhringina
Hôtel-de-Ville líka í Ólympíustuði

Við náðum þó að fara með krakkana okkar í laaaangar gönguferðir um París.  Fyrri daginn löbbuðum við frá hótelinu okkar, niður að Louvre og svo að Eiffel turninum.  Allt í París var skreytt Ólympíuhringjunum og það var hægt að sjá hvernig borgin var að breytast með áhorfendapöllum á mörgum stöðum.  Við löbbuðum einhver 15.000 skref, tókum myndir fyrir framan Louvre og Eiffel turninn og borðum frábæran franskan mat.  Seinni daginn í París löbbuðum við ennþá meira um borgina og enduðum hjá Notre Dame kirkjunni.

Á labbi um París
Önd

Meðmæli París

  • Hotel YOY: Lítið hótel sem við gistum á í París, sem við getum mælt með.
  • Les Antiquaires: Sko, það eru sirka milljón góðir veitingastaðir í París og ég er ekki að segja að þessi sé einstakur, en við vorum ótrúlega sátt hér í nágrenni Eiffel turnsins. Sjá mynd af mat hér að ofan.

Eftir langa göngu um París þá tókum við lestina niður til Lyon.  Í þeirri borg eyddum við tveimur heilum dögum í gamla miðbænum, þar sem við bjuggum í Airbnb íbúð.

Basilique Notre-Dame de Fourvière
Théâtre Gallo Romain
Musée Cinéma et Miniature
Creperie
Efnilegur ljósmyndari
Dótabúð
Útsýni yfir Lyon

Hitinn í Lyon var talsvert meiri en í París og seinni daginn var ég full bjartsýnn í skipulagningu á gönguferð þegar ég dró alla fjölskylduna að skoða rústir af rómversku leikhúsi uppá (mjög hárri) hæð ásamt Basilique Notre-Dame de Fourvière (sjá myndir að ofan). 

Annars fór tíminn í Lyon í að labba um gamla bæinn, að spila fótbolta á torgum borgarinnar og í að borða alveg fáránlega góðan franskan mat.  Ég eyddi talsverðum tíma í að finna réttu veitingastaðina í Lyon og það tókst frekar vel.  Krakkarnir lærðu að elska steak hache og ég hélt mínu striki í að panta önd á sem flestum veitingastöðum í Frakklandi (ég lærði það þegar ég ferðaðist með vinum mínum um Frakkland þegar að Ísland keppti á EM árið 2016 sælla minninga).

Það er kannski ekki neitt sérstakt sem stóð uppúr í Lyon (fyrir utan Musée Cinéma et Miniature) en það var afskaplega þægilegt að vera í þessari borg. Maturinn var frábær, borgin ótrúlega falleg, veðrið gott og fólkið líka. Við hefðum alveg geta verið þar lengur.


Meðmæli Lyon

  • Musée Cinéma et Miniature: Dan Ohlmann, sem vann við að búa til lítil módel fyrir bíómyndir stofnaði þetta safn í Lyon þar sem eru til sýnis fjölmörg módel hans og annað dót úr bíómyndum.  Krakkarnir elskuðu safnið.
  • Made Louve: Samlokustaður rétt hjá íbúðinni okkar þar sem ég fékk samlokur sem eru með þeim allra bestu sem ég hef á ævi minni smakkað.
  • Restaurant Café du Soleil
  • Brasserie Gabriel: Bæði þessi og Café du Soleil eru algjörlega frábærir franskir veitingstaðir – allt frá staðsetningu til matar, þjónustu og verðs var frábært.


Evrópuferð 1: Birmingham

Það eru tíu ár síðan að við Margrét ferðuðumst um Mexíkóflóa með litlu krökkunum okkar tveimur.  Við eyddum mánuði á Flórída og á ferðalagi í rólegheitum um Kúbu og Yucatan skaga.  Krakkarnir voru tveggja ára og bara nokkurra mánaða og því var auðvelt að ferðast með þau á þessum slóðum. 

Þetta frí var í síðasta skipti sem ég skrifaði ferðasögu á þessa bloggsíðu.

Við höfum ferðast síðan þá, en svosem ekki á svo brjálæðislega spennandi staði.  Fyrir 7 árum fórum við saman fjögur á Volvo-inum okkar alla leið frá Stokkhólmi niður til Króatíu.  Ég ætlaði alltaf að skrifa um þá ferð á þessu bloggi en lét aldrei verða af því.  Svo hafa sumarfríin að mestu leyti skipst á milli þess að vera í Svíþjóð eða á Íslandi.  Yndisleg sumarfrí á Gotlandi og á vesturströnd Svíþjóðar, sem hafa verið ógleymanleg en ég hef ekki fundið mig knúinn til að skrifa um þau.

Síðustu tvö ár hafa svo farið í flutninga til Íslands og í fyrra ferðuðumst við eingöngu um Ísland.  Í ár áttum við í erfiðleikum með að skipuleggja sumarið – Margrét er í nýrri og krefjandi vinnu og ég átti í erfiðleikum með að skipuleggja frí því það var svo mikið að gerast í vinnunni hjá okkur báðum.  Við vissum þó bæði að okkur langaði mikið að komast í hlýrra loftslag.

Fyrir einhverjum vikum kom sú hugmynd uppí hausnum á mér að kaupa bara flugmiða til Evrópu og reyna að skipuleggja fríið þegar við værum farin af stað. Mér fannst þessi fjölskylda þurfa á smá ævintýri að halda. 

Fljótlega fengum við svo ágætis byrjunar- og enda dagsetningu.  Við þurftum að vera komin til Birmingham á Englandi þann 12. júlí því þar ætlaði franchise aðili okkar á Bretlandi að opna Zócalo stað númer tvö þann 13. júlí.  Og af því að íbúðinn okkar er í Airbnb útleigu þá gætum við ekki komið heim fyrr en 8. ágúst. 

Þannig að við vorum með fjórar vikur í fríi sem þyrfti að byrja í Birmingham.  Við vorum líka ákveðin í að fara aftur í Legoland.  Þar vorum við fyrir 7 árum þegar börnin okkar voru 3 og 5 ára og okkur fannst passa frábærlega að fara þar aftur núna þegar börnin eru 5, 10 og 12 ára.  Þannig var kominn endapunktur á fríið – það yrði í Danmörku en meira var ekki ákveðið.  Ég pantaði flug til London og heim frá Kaupmannahöfn, fann útúr lestarmiðum frá London til Birmingham og við fundum einhverja (mjög lélega) Airbnb íbúð í Birmingham til að geta gist fyrstu dagana.


Zócalo staðurinn í Birmingham
Bowl á Zócalo í Birmingham

Birmingham er næst fjölmennasta borg Bretlands með um 3 milljónir íbúa.  Við lentum fyrir hádegi á Stansted flugvelli í London og þurftum þaðan að taka flugvallarlest, underground og svo eina lest í viðbót til að koma okkur alla leið á New Street stöðina í Birmingham.  Við höfðum skipulagt pökkun á okkar dóti vel fyrir ferðina, þar sem við ætluðum að vera með lítinn og meðfærilegan farangur.  En samt var ekki auðvelt að bera farangur fyrir fimm manns á milli lesta og svo uppí íbúð í Birmingham.

Ég að horfa á úrslitaleik EM með strákunum mínum

Dagana í Birmingham reyndi ég að gera hvað ég gat til að hjálpa til við opnunina á staðnum, sem opnaði með soft opening laugardaginn eftir að við komum.  Á sunnudeginum horfðum við svo á England tapa í úrslitaleik EM.  Ég hélt að það yrði brjáluð stemning fyrir leiknum og hægt yrði að sjá hann á stórum skjá með fulltaf fólki en svo var ekki raunin í Birmingham.  Því horfðum við á leikinn í íbúðinni okkar og þar sem England tapaði þá var lítil ástæða til að kíkja á stemninguna eftir leikinn. Annars eyddum við dögunum á labbi um Birmingham – kíktum aðeins í búðir og á ágætt vísindasafn, sem krökkunum fannst skemmtilegt.


Meðmæli Birmingham

Liverpool er besta lið í heimi!

Liverpool eru enskir meistarar. Loksins loksins loksins. Er það ekki ágætis tilefni til að blogga aftur?

Ég hef áður sagt frá því á kop.is og kannski á þessari síðu líka að mínar fyrstu fótboltaminningar tengdar Liverpool eru allar slæmar.

Ég var sjö ára þegar að Heysel völlurinn hrundi og 39 stuðningsmenn Juventus dóu. Ég held að ég hafi haldið meira með Juventus af því að Michal Platini var uppáhalds leikmaðurinn minn árið 1985.

Fjórum árum síðar á ég mjög skýra minningu frá því að horfa á Hillsborough slysið í beinni útsendingu og mánuði síðar þegar að Michael Thomas skorar fyrir Arsenal á síðustu mínútu á Anfield og tryggir Arsenal enska titilinn á kostnað Liverpool. Ég man ennþá að ég henti mér yfir sófaborðið í stofunni heima og öskraði NEIIII, 11 ára gamall. Einsog alltaf var ég einn að horfa á leikinn, þar sem pabbi fylgdist ekki með fótbolta og ég man að mamma kom fram og spurði mig hvað í ósköpunum væri að gerast. Ég man bara að ég var miður mín. Ég veit ekki af hverju ég varð Liverpool aðdáandi – ég bara man ekki eftir öðru.

Minningin um Arsenal leikinn er svo skýr í hausnum á mér að ég hélt nokkrum árum seinna að þarna hefði Liverpool tapað sínu síðasta tækifæri á að vinna deildina. En Liverpool vann deildina árið eftir – ég man bara nákvæmlega ekkert eftir því. Ég man að í herberginu heima voru myndir af Peter Beardsley og John Barnes, en einhvern veginn er þessi síðasti titill Liverpool svona ótrúlega óeftirminnilegar fyrir mig.



Næstu ár fylltist herbergið mitt af plakötum af Gullit, Riikjard og van Basten og AC Milan var mitt lið, þar sem ég horfði meira á ítalska boltann á Stöð 2. Liverpool var áfram mitt lið en Gullit og van Basten voru einfaldlega miklu flottari fyrir 14 ára strák heldur en Dean Saunders, Mark Walters og Don Hutschinson. En eftir að Gullit var seldur til Sampdoria hvarf áhuginn minn á ítölsku deildinni og Liverpool hefur verið númer 1,2 og 3.

Liverpool hafa svo dóminerað áhuga mínum á fótbolta að önnur lið eru dæmd fyrst og fremst út frá Liverpool líka. Ég hélt einu sinni mikið með Barcelona, en eftir dramað í kringum Suárez og seinna Coutinho þá get ég ekki lengur stutt það lið. Ég held ekki með Real Madrid útaf Owen og McMannaman og þess vegna hef ég síðustu ár haft tilfinningar til Atletico Madrid, en þær hurfu þegar að liðið spilaði við Liverpool núna í ár.

Ég hef skipt um lið í merkilega mörgum íþróttum og deildum. Ég hataði Chicago Bulls þegar að Jordan var að spila fyrir þá. Á hverju ári hélt ég með nýju liði sem var svo slátrað af Bulls í úrslitum. Það var ó-þol-andi. Svo flutti ég til Chicago og byrjaði að halda með Bulls akkúrat þegar þeir byrjuðu að vera ömurlegir. Ég hélt með AC Milan á Ítalíu þangað til að þeir seldu Gullit og byrjaði þá að halda með Sampdoria. Ég hélt með Réð Sox áður en ég byrjaði að fíla Cubs og Stuttgart áður en ég byrjaði að fíla Dortmund.

En einu liði hef ég alltaf verið 100% trúr og það er Liverpool.



Árið 2004 stofnuðum við Kristján Atli KOP.is. Síðan var fyrir mig fyrst og fremst staður til að létta á pirringi mínum um Liverpool undir stjórn Gerard Houllier, sem ég lét fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég man að einu sinni í háskóla lamdi ég sjónvarpið þegar ég sá að Emile Heskey var enn og aftur í byrjunarliðinu, svo mikill var pirringurinn. Öll árin sem ég skrifaði á KOP.is buðu uppá góða og slæma kafla. Ég sá Liverpool vinna í Istanbúl og nokkur tímabil voru frábær (sérstaklega Suárez tímabilið) en það var líka svo mikil neikvæðni og tuð tengd liðinu að ég gafst á endanum upp.

Öll árin eyddi ég óstjórnlega miklu púðri í að verja hina ýmsu leikmenn – Kuyt, Lucas, Henderson og fleiri – og umfram allt eyddi ég púðri í að verja núverandi eigendur Liverpool. Furðulega margir stuðningsmenn Liverpool hafa trúað því í gegnum árin að það eina sem gæti bjargað Liverpool væru sykurpabbar frá Mið-Austurlöndum. Ég var alltaf á móti slíkum eigendum því ég vissi að ef enski titillinn myndi vinnast með slíkri aðstoð þá væri það aldrei eins sætt einsog það er núna þegar að titillinn vinnst á því að eigendur Liverpool fjárfesta með skynsemi í réttum mannskap á öllum stöðum í klúbbnum og klúbburinn er sjálfbær.



Ég hætti að skrifa reglulega á KOP.is vorið 2015. Það var síðasta heila tímabilið hans Brendan Rodgers. Suárez var farinn og Liverpool liðið var hræðilega lélegt og endaði í sjötta sæti, 25 stigum á eftir Chelsea. Ég var orðinn þreyttur á að rífast um Henderson og Lucas og Mignolet. Í síðustu leikskýrslunni minni voru Emre Can, Dejan Lovren og Alberto Moreno í vörninni með Joe Allen á miðjunni og Jordon Ibe frammi. Þetta var hörmung. Svo um sumarið fór Sterling og árangurinn varð bara enn verri.

En svo næsta haust kom Jurgen Klopp og síðan þá hefur það verið yndislegt að vera Liverpool stuðningsmaður. Við unnum Meistardeildina í fyrra, en fyrir tímabilið í fyrra var ég samt farinn að telja sjálfum mér trú um að Manchester City yrðu aldrei sigraðir í ensku deildinni. Þeir voru einfaldlega með of gott lið, of góðan þjálfara og of ríka eigendur. En FSG og Klopp hlustuðu ekki á slíkt tuð, heldur bættu allt sem þeir gátu bætt og hérna erum við – Liverpool eru Englandsmeistarar.

Og það með lið sem er svona yndislegt. Hvernig er hægt að elska ekki Jurgen Klopp og þetta stórkostlega samansafn af leikmönnum sem eru hógværir, heiðarlegir og frábærir. Ég hef varla elskað Liverpool leikmann jafnmikið og Mo Salah, en í þessu liði elska ég nánast hvern einasta leikmann. Allison, Trent, Robbo, van Dijk, Gomez, Henderson, Gini, Ox, Milner, Keita, Fabinho, Salah, Firmino og Mane. Shaqiri, Matip, Lovren, Origi og Adrian. Þetta lið var fullkomið og þetta tímabil var fullkomið.

En svo breyttist þetta allt kvöldið sem við töpuðum fyrir Athletico Madrid og heimurinn breyttist útaf Corona. NBA deildinni var hætt og næstu daga beið maður stressaður yfir því sem myndi gerast með ensku deildinni. Fyrst var henni frestað og fljótlega fóru alls konar vitleysingar að krefjast þess að deildinni yrði aflýst. Að það væri á einhvern hátt fáránlegt að spila fótbolta þegar að faraldur væri að geysa í samfélaginu. En sem betur fer þá byrjaði deildin aftur og Liverpool kláraði deildina og stendur núna uppi sem meistari með 99 stig. Í fyrra fengu Liverpool 97 stig og núna 99 stig.

Á síðustu 13 mánuðum hef ég horft á Jordan Henderson lyfta bikarnum í Meistaradeildinni, Super Cup, Heimsmeistarakeppni félagsliða og núna loksins loksins Ensku Úrvalsdeildinni. Ég reyndi að segja krökkunum mínum í fyrradag hversu magnað þetta er en þau skilja auðvitað ekki neitt þótt þau séu auðvitað Liverpool aðdáendur líka. Þetta ár verður sennilega aldrei toppað, en ég vona að krakkarnir mínir muni upplifa eitthvað í líkingu við þetta ár aftur.

YNWA.

Hvar er Matt? Árgerð 2012

Ég hef áður tengt á myndbönd, sem að Matt Harding hefur gert af sér dansandi á hinum ýmsu stöðum í heiminum.   Allt frá því að hann setti inn fyrsta mydnbandið af sér árið 2005.  Myndböndin eru alls fjögur og staðirnir sem hann dansar á orðnir ansi margir.

Hérna er svo 2012 myndbandið komið og dansarnir eru orðnir aðeins betur þjálfaðir og fleira fólk sem aðstoðar.  Þessi myndbönd koma mér alltaf í gott skap og eru svo sannarlega innblástur fyrir ferðalög.

Ömurlegasta Evrópukeppni sögunnar

Menn geta deilt um gæði fótboltans sem var spilaður á EM 2012. Mér finnst Spánn hundleiðinlegt lið en aðrir eru að missa sig yfir því hvað það er skemmtilegt að horfa á þá senda stuttar sendingar sín á milli í 90 mínútur. Gott og vel.

Það sem er hins vegar óumdeilt er að þetta mót hefur verið sögulega ömurlegt fyrir mig og þau lið, sem ég held með.

Það er ágætt að halda utanum þetta.

Riðlakeppni

Ég hélt með tveim liðum. Holland tapaði hverjum einasta leik í keppninni. Svíþjóð tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var þar með dottið úr leik, en þeir náðu að vinna síðasta leikinn gegn Frakklandi, sem var smá sárabót, en sá leikur skipti engu máli.

Þannig að af leikjum sem skiptu máli þá unnu mín lið ENGAN leik. 0-5 er því staðan í leikjum talið.

8-liða úrslit

Í kjölfar þess að mín tvö uppáhaldslið voru dottin út þá hélt ég með Englandi og lýsti því yfir opinberlega. Fyrir það þá vonaðist ég samt til að Tékkar myndu senda heim Portúgal (sem ég þoli ekki), að Frakkar myndi taka Spánverja (sem ég er kominn með leið á) og ég vonaði frekar að Grikkir myndu taka Þjóðverja til þess að Englendingar gætu átt auðveldari andstæðing í 4 liða úrslitum.

Ekki einn af þessum leikjum fór einsog ég vonaði. 0-4 og því samanlagt 0-9 í leikjum talið fyrir allt mótið.

4-liða úrslit

Þarna vonaðist ég aftur til að Spánn myndi tapa og var kominn í þá furðulegu stöðu að styðja Portúgal með Pepe, Ronaldo, Nani og félaga. Í hinum leiknum var það svo mín helsta von Þýskaland, sem hlaut nú að taka Ítalíu. Ég lýsti því opinberlega yfir stuðningi við Þýskaland.

Niðurstaðan var sú að Spánn grísaðist til að vinna Portúgal í vítaspyrnukeppni og Þýskaland lék einhvern lélegasta leik sem ég hef séð þá spila. 0-2 niðurstaðan og því samanlagt 0-11.

Úrslitin

Óþol mitt fyrir Spánverjum á sér lítil takmörk og ég hélt því með Ítalíu í úrslitunum og lýst því yfir með nokkura daga fyrirvara, svo að aðrir gætu veðjað á Spán. Niðurstaðan var svo auðvitað spænskur sigur og til að toppa allt þá skoraði fokking Fernando Torres eitt mark.

Mér telst til að ég hafi horft á 12 leiki í þessu móti, sem að einhverju skipti fyrir mín lið. MÍN LIÐ UNNU EKKI EINN AF ÞESSUM LEIKJUM. Með öðrum orðum, ég hef ekki horft á einn einasta leik á þessu móti (fyrir utan tilgangslausan Svíþjóð-Frakklands-leik) án þess að verða fyrir vonbrigðum með úrslitin. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að toppa þetta mót.